Ljósmyndasýning Krafts verður uppi fram yfir miðjan september.
Á Menningarnótt opnaði Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, glæsilega ljósmyndasýningu fyrir framan Hörpu. Sýningin er samstarfsverkefni Krafts og ljósmyndarans Kára Sverriss og verður uppi fram yfir miðjan september.
Sýningin ber heitið Skapa fötin manninn og eiga fyrirsæturnar það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein og bera þess merki.
Fjöldi fólks var fyrir utan Hörpu þegar sýningin var opnuð formlega af Huldu Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóra Krafts. Hulda þakkaði sérstaklega þeim tólf hugrökku einstaklingum sem voru tilbúin að opinbera sig og sýna örin sín á ljósmyndum Kára.
„Örin eru eitthvað sem við ættum aldrei að þurfa að fela heldur eru þau partur af okkur,“ sagði Hulda á opnun sýningarinnar. Hún hvetur fólk til að leggja leið sína að Hörpu og skoða sýninguna.