Ýmislegt er gert vegna aldarafmælis fullveldisins og þar á meðal er bók sem er hugmynd Svövu Jónsdóttur blaðamanns. Í bókinni Aldarspegill: Íslendingar 1918-2018. Myndir af þjóð eru myndir af Íslendingum sem fæddust 1918-2018, einn fyrir hvert ár, auk þess sem landslagsmyndir eru í bókinni. Friðþjófur Helgason tók myndirnar.
„Hugmyndin kviknaði bókstaflega á sekúndubroti eða rúmlega það,“ segir Svava þegar hún er spurð um tilurð bókarinnar. „Ég sat í fyrrahaust fyrir framan sjónvarpið þar sem fjallað var um væntanlega samkeppni þar sem fólk gat sent inn hugmyndir að verkefnum tengdum aldarafmæli fullveldisis og þessi ártöl komu upp í hugann: 1918-2018 og ljósmyndir af fólki fætt á þessu tímabili – einn fyrir hvert ár. Ég efast um að fimm sekúndur hafi liðið þar til hugmyndin var næstum fullmótuð. Kannski tíu.“
Svava hafði samstundis samband við útgáfufélagið Tind og boltinn fór að rúlla. „Útgefandinn fékk Friðþjóf Helgason til liðs við okkur en hann er frábær ljósmyndari og einstaklega elskulegur maður. Ég vildi hafa landslagsmyndir að auki og Friðþjófur á stórkostlegt safn af slíkum myndum og er lítið brotabrot af þeim í bókinni okkar. Gaman er að sjá flottu myndirnar hans á prenti.“
Almennt jákvæð sýn á landið
Svava lagði áherslu á að hluti þátttakenda væri fólk sem hefði verið áberandi á tímabilinu sem um ræðir, eins og stjórnmálamenn, fólk í viðskiptalífínu, íþróttamenn og listamenn. Á meðal þátttakenda eru Ólafur Ragnar Grímsson, Katrín Jakobsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Hermann Hreiðarsson, Jóhanna Guðrún, Ari Eldjárn, Ólafur Stefánsson, Gísli Marteinn Baldursson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Svava Johansen, Hilmar Örn Hilmarsson og Bjarni Felixson. Fyrirsæturnar á bókarkápunni eru elsti og yngsti þátttakandinn. Hún fæddist árið 1918 og hann árið 2018.
„Minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið.“
Textinn í bókinni er á íslensku og ensku. Hver þátttakandi, nema yngstu börnin, svarar einni spurningu: Hvað er Ísland í huga þínum? „Munurinn á svörum þátttakenda er í raun ekki mikill að því leyti hvað þeir hafa almennt jákvæða sýn á landið sitt. Það vakti athygli hvað Íslendingar eru stoltir af landinu sínu. Þá er gaman að svörum krakkanna sem mörg hver eru krúttleg en yngsti þátttakandinn sem svarar spurningunni fæddist árið 2012. Það vakti athygli mína að sum börnin taka fram að hér á landi sé ekkert stríð, fyrir utan að hér eru engar hættulegar flugur eða tígrisdýr. Svo var til dæmis gaman að taka viðtöl við elstu þátttakendurna sem eru elskulegt fólk upp til hópa og minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið. Ég vildi að hann yrði samt sem áður í bókinni en vildi ekkert gera í því að fyrra bragði en svo fékk ég skilaboð um að fjölskylda hans óskaði eftir því og þykir mér vænt um það. Ekki var búið að taka mynd af honum þegar hann kvaddi þetta líf og er því í bókinni mynd af ljósmyndum af honum.“
Bókin er fallegur minjagripur í tengslum við fullveldisafmælið og að sögn Svövu sýnir hún örlítið brot af fámennri þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi. „Ég vildi hafa textann líka á ensku og geta þá útlendingar sem skilja það ágæta tungumál lesið svör Íslendinganna um landið sitt og jafnvel kynnst því hvað Íslendingar eru samheldin þjóð en það vitum við jú að svo er þegar á reynir.“
Myndir úr bók / Friðþjófur Helgason
Mynd af Svövu / Geir Ólafsson