Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Öruggur sigur eða ekki?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf fékk tvo sérfræðinga, Kristjönu Arnarsdóttur, íþróttafréttakonu á RÚV, og Elvar Geir Magnússon, ritstjóra Fótbolti.net, til að spá fyrir um úrslit leiks Íslenska kvennalandsliðsins gegn Þýskalandi á morgun.

Dáist að íslensku stelpunum

Kristjana Arnarsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir.

„Ég spái því að við vinnum þetta 2-1 og að Sara Björk Gunnarsdóttir og Elín Metta Jensen skori mörkin. Ég er bjartsýn á að stelpurnar spili vel og ég veit hreinlega að þær eru alveg ofboðslega tilbúnar í þetta verkefni. Það sést á þeim langar leiðir,“segir Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV.

Kristjana var ein þeirra sem sá um umfjöllun um HM karla í Rússlandi í sumar og er nú nýbyrjuð í síðbúnu og langþráðu sumarfríi. Hún verður því erlendis og fjarri góðu gamni á morgun þegar flautað verður til leiksins mikilvæga gegn Þjóðverjum klukkan 15 á Laugardalsvelli.

„Það kemur hins vegar ekkert annað til greina en að sjá þennan leik og ég mun finna leiðir til þess, löglegar eða ólöglegar,“segir hún og skellir upp úr. Hún er ánægð með að miðarnir á leikinn hafi rokið út. „Að mínu mati er það sjálfsögð krafa að við fyllum Laugardalsvöllinn í fyrsta sinn á kvennalandsleik og í raun fáránlegt að þurfa að biðja fólk um að mæta. Það gerist varla stærra, að spila á móti stórliði Þýskalands í leik sem gæti tryggt okkur inn á HM í Frakklandi. Það er mikið rætt um karlaknattspyrnu annars vegar og kvennaknattspyrnu hins vegar og muninn á þessu tvennu varðandi umgjörð og fleira og við verðum bara að sýna það í verki að við styðjum stelpurnar og mæta á völlinn.“

Kristjana sér fyrir sér að það fari mikil orka hjá íslenska liðinu í stórleikinn gegn Þýskalandi og býst fastlega við breytingum á byrjunarliðinu milli hans og viðureignarinnar gegn Tékkum sem fram fer á þriðjudaginn. „Ég held að við komum til með að leika varfærnislega gegn Þjóðverjum og treysta á skyndisóknir og föst leikatriði, enda hafa föstu leikatriðin verið að skila sér í leik liðsins síðustu misseri. Ef þær eru þéttar aftast á vellinum og halda skipulagi hef ég trú á því að þetta falli með okkur,“segir hún og bætir við að fjarvera lykilleikmanna á borð við Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur sé vissulega áhyggjuefni en eigi þó líklega ekki eftir að ráða úrslitum.

„Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna.“

„Auðvitað er alltaf slæmt að missa leikmenn úr hópnum, hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu eða ekki, því það hefur áhrif á hópinn í heild sinni og getur hróflað við jafnvægi. Ég fékk bara í magann þegar ég sá að Harpa hafði slitið krossband, það var svo hræðilegt. En við erum með breiðan og góðan hóp og margar ungar stelpur sem hafa komið inn af miklum krafti svo ég hef litlar áhyggjur af þessu.“Íþróttafréttakonan lék lengi knattspyrnu sjálf, meðal annars í yngri flokkum með nokkrum af núverandi landsliðshetjunum. „Ég æfði til dæmis með Söru Björk Gunnarsdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í Breiðabliki og hef fylgst með þessum gömlu liðsfélögum af aðdáun æ síðan. Ég er rosalega stolt af þeim. Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna. Ég dáist að þessum stelpum,“ segir Kristjana.

- Auglýsing -

Grjótharðir töffarar

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, lengsti til vinstri.

„Það er nú þannig með mig að ég er nánast alltaf svartsýnn þegar liðin mín eru að spila, svo ég segi að Þýskaland vinni þennan leik 0-2. Ég vona hins vegar innilega að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net.

Elvar hefur fylgst vel með íslenska kvennalandsliðinu í gegnum árin og fylgdi liðinu meðal annars eftir á tvö síðustu stórmót þess, EM í Svíþjóð árið 2013 og EM í Hollandi árið 2017, þar sem hann vann að umfjöllun um liðið og var því í nokkru návígi við leikmenn, þjálfara og starfslið.

- Auglýsing -

„Þegar maður fylgist svona vel með liðinu meðtekur maður betur móralinn í hópnum, hvernig leikmennirnir eru utan vallar og fleira í þeim dúr,“ segir Elvar Geir og hikar ekki þegar hann er spurður að því hvort eitthvert eitt atriði einkenni kvennalandsliðið öðrum fremur. „Það sem er mest einkennandi við íslenska kvennalandsliðið er hvað þetta eru hrikalega miklir töffarar. Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar,“segir hann og tekur undir það að slíkir eiginleikar séu nánast lífsnauðsynlegir í fari knattspyrnukvenna þar sem þær hafi heldur betur þurft að hafa fyrir hlutunum í gegnum tíðina. „Það er enn langt í land hvað varðar muninn á umgjörð og fleira hjá körlum og konum í knattspyrnu, eins og ég hef séð á þessum stórmótum. Þróunin í kvennaknattspyrnunni hefur verið ör á undanförnum árum og gengið hratt, en nú finnst mér eins og aðeins sé farið að hægjast á því ferli aftur. En bilið fer þó minnkandi og þetta stefnir í rétta átt, sem er jákvætt.“

„Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar.“

Eins og áður sagði var Elvar Geir staddur á EM í Frakklandi sumarið 2017 þar sem flest gekk á afturfótunum hjá íslenska liðinu og því mistókst að ná í stig. Bjóst hann við því þá að liðið yrði í þeirri stöðu að geta tryggt sig inn á HM einungis rúmu ári síðar?„Nei, ég get ekki sagt það, og ég bjóst alls ekki við því að þær myndu vinna Þýskaland á útivelli í fyrri leiknum í undankeppninni. En stelpurnar spila jafnan vel gegn erfiðum andstæðingum, eins og sýndi sig á EM þar sem besta frammistaðan kom gegn Frökkum. Sá leikur tapaðist í raun á einstaklingsmistökum en heildarframmistaðan var góð og uppleggið gekk fullkomlega upp.“

Ritstjórinn segir ekkert launungarmál að íslenska liðið eigi eftir að liggja í skotgröfunum í stórleiknum á morgun. „Freyr þjálfari hefur sjálfur talað um að jafntefli yrðu góð úrslit. Sóknarleikurinn hefur verið akkilesarhæll liðsins að undanförnu og ég gæti trúað því að Telma Hjaltalín Þrastardóttir úr Stjörnunni sem er nýliði í íslenska hópnum, gæti orðið óvænt vopn í þessum leik. Ég myndi ekki gapa þótt hún kæmi beint inn í byrjunarliðið, en ég get líka séð hana í stóru hlutverki af bekknum. Þær þýsku eru með bakið upp við vegg og þær eru meðvitaðar um að það yrði stórslys ef þær kæmust ekki á HM. Vonandi vinnur sú pressa með okkur,“ segir Elvar Geir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -