Laugardagur 28. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Öryrkjar hafa verið skildir langt eftir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um 21 þúsund manns eru með 75 prósent örorku- og endurhæfingarmat á Íslandi. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast frá aldarmótum, eða um 500 að meðaltali á ári. Um 30 prósent hópsins eru undir fertugu. Þessi hópur á mjög erfitt með að sækja sér bjargir annarsstaðar en í almannatryggingakerfið, þar sem íslenskur vinnumarkaður tekur lítið sem ekkert við fólki með skerta starfsgetu og bætur sem ríkissjóður greiðir skerðast mjög hratt ef öryrkjar reyna að vinna.

Þannig er frítekjumark atvinnutekna til að mynda 109.600 krónur og hefur verið óbreytt í áratug. Ef það hefði fylgt verðlagshækkunum væri frítekjumarkið rúmlega 151 þúsund krónur.

Lágmarksframfærslutrygging þeirra sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri er 247.183 krónur hjá þeim sem fá ekki greidda heimilisuppbót, en 310.800 krónur hjá þeim sem fá slíka.

Það þarf ekki að leggja lengi saman til að komast að þeirri niðurstöðu að um fátæktrargildru sé að ræða sem erfitt er að komast út úr. Ytri aðstæður, eins og hækkandi húsnæðiskostnaður, sem fjallað er um hér í hliðarefni, ýkja síðan þessa stöðu enn frekar.

Á Íslandi eru í gildi lög um almannatryggingar, sem ákvarða hver örorkulífeyrir eigi að vera. Í þeim, nánar tiltekið í 69. grein þeirra, er fjallað um hver almenn hækkun bóta almannatrygginga eigi að vera. Þar segir að þær bætur skuli „breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Textinn í lögunum er nokkuð skýr. Lífeyrinn á að fylgja launaþróun í landinu og verðbólga, sem er mæld með vísitölu neysluverðs, á ekki að geta étið virði bótana upp. Ef allt væri í samræmi við lagatextann ættu því kjarabætur öryrkja á hverju ári að vera hið minnsta hærri en verðbólga hvers árs, og ef hún er lægri hlutfallstala en hækkun launa þá eiga bæturnar að halda í við þá launaþróun.

Þannig hefur málum þó ekki verið háttað. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands,sem sýna þróun vístalna milli ára frá janúarmánuði hvers árs, kemur skýrt fram að örorkulífeyrir hefur hækkað langtum minna en önnur laun í landinu á síðustu 20 árum. Frá árinu 1998 hefur hækkun örorkulífeyris einungis þrívegis verið hærri en annað hvort launaþróun eða verðbólga. Í alls 19 ár á því tímabili hefur hækkun örorkulífeyris hins vegar verið lægri en þróun þessarra tveggja viðmiða. Við það hefur átt sér stað kjaragliðnun.

- Auglýsing -

Á mannamáli þýðir það að kjör öryrkja hafa oftar en ekki setið eftir á meðan að kjör annarra hafa batnað. Frá árinu 1998 nemur þessi kjaragliðnun 59,4 prósentum, samkvæmt tölum sem unnar hafa verið fyrir Málefnahóp Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál. Frá árinu 2007 hefur gliðnunin verið 28,4 prósent.

Ítarlega fréttaskýringu um málið er hægt að lesa á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Mynd/ Birgir Þór Harðarson.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -