Óskar Finnsson matreiðslumeistari greindist fyrir ári síðan með ólæknandi krabbamein sem dregur fólk til dauða að meðaltali á hálfu öðru ári. Óskar greinir frá reynslu sinni í Morgunblaðinu í dag en hann hefur lofað fjölskyldu sinni að gera allt til lengja líf sittt.
Það var á Þorláksmessu árið 2019 sem Óskar fann fyrst fyrir krabbameininu, sem er í höfði og kallast glioblastoma. Hann var að hjálpa til við að laga eftirrétti á veitingastaðnum GOTT, sem dóttir hans á og rekur.
„Fljótlega eftir að ég mætti á GOTT fór ég að finna til í höfðinu og barmaði mér yfir því að flensa væri að hellast yfir mig svona rétt fyrir jólin. Verkurinn ágerðist hins vegar og ég áttaði mig smám saman á því að þetta væri ekki flensa. Ég entist í þrjá tíma á veitingastaðnum en þá fór konan mín með mig heim. Ég yrði að hvíla mig. Ég var alveg að drepast þegar við komum heim; fór úr úlpunni og lagðist beint í sófann. Þegar hér er komið sögu gat ég varla hreyft mig. Það var eins og ég væri með hníf í höfðinu.“
Hann endaði á bráðamóttökunni þar sem honum leið eins og höfuðið væri að springa. Hann reyndist vera með æxli á stærð við sítrónu. „Þegar við hjónin mættum til Halldórs [Skúlasonar, heila- og taugaskurðlæknis], kom hann sér beint að efninu. Hann hefði því miður ekki góðar fréttir handa okkur. Þetta væri illkynja æxli af verstu gerð, glioblastoma, komið á fjórða stig. Hvernig gat það verið? Ég sem hafði ekki fundið fyrir neinu fyrr en á Þorláksmessu og ekki verið með nein einkenni. María brotnaði eðlilega niður og spurði hvað þetta þýddi. Lifir hann bara í tíu ár, fimm? Halldór svaraði því ekki beint en staðfesti að þetta væri eins slæmt og gæti orðið.“
Ítarlegt viðtal er við Óskar í Sunnudagsblaði Moggans.