Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson er í fremstu víglínu: „Það er þjóðarmorð í gangi í Úkraínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er stærsta árás sem gerð hefur verið á Úkraínu síðan í byrjun stríðs en þetta er annars það sem er að gerast í þessu stríði alla daga,“ segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari um árásir Rússa á ýmsa staði í Úkraínu fyrr í vikunni. Óskar er kvæntur úkraínskri konu og hefur búið í Úkraínu undanfarin ár og hefur frá því að stríðið hófst farið víða og myndað afleiðingar þess. „Þetta er það sem ég er að sjá alla daga. Almennir borgarar eru skotmörk og virðast nánast eingöngu vera skotmörk því miður.“

Stór sprengja sprakk í vikunni á brúnni yfir Kerch-sund sem er á milli Rússlands og Krímskaga. Brúin er mikilvæg fyrir rússneska herinn, en um hana fara meðal annars hergögn fyrir rússneska hermenn sem berjast í Úkraínu, og er talið að auknar árásir í vikunni séu svar Pútíns við sprengjunni á brúnni.

Þetta voru eingöngu borgaraleg skotmörk.

„Pútin varð að gera eitthvað af því að hann er í rauninni ekki að sigra neins staðar og það eina sem hann hefur eftir eru hryðjuverk og kjarnorkuárás af því að hann vinnur ekki á vígvellinum. Hann hefur í hvert skipti sem Úkraína vinnur hernaðarlegan sigur ráðist á borgaralegt skotmark. Hann hefði getað notað þessi 80 flugskeyti á hernaðarleg skotmörk en hann gerði það ekki. Þetta voru eingöngu borgaraleg skotmörk; fjölbýlishús og allt þar fram eftir götunum. Þannig að þetta var mjög dýrt fyrir hann. Þetta voru mikilvæg flugskeyti sem segir að stoltið sé miklu stærra heldur en taktískur heili af því að þetta þjónar þannig séð engum taktískum tilgangi fyrir Pútin annað heldur en að hræða. Þetta stýrir stríðinu sjálfu ekki neitt. Akkúrat ekkert.“

 

Óútreiknanlegt rugl

Óskar hefur upplifað og séð margt síðustu mánuði.

- Auglýsing -

„Í mínu daglega lífi er ég heima hjá mér í Kyiv og þá upplifi ég ekkert stríðið þannig séð. Ég var ekki heima þegar árásirnar voru gerðar í vikunni en konan mín var heima. Það hafði ekki verið gerð árás í Kyiv í marga mánuði og ekki svona stór síðan stríðið hófst. Ég elti hins vegar stríðið uppi þannig séð en ég fer inn í borgir og bæi sem eru annaðhvort nýfrelsaðir eða undir árás. Ég var til dæmis í vikunni í bæ sem er undir árás.

Þetta er náttúrlega hættulegt og maður þarf að koma sér í gegnum ýmislegt.

 

- Auglýsing -

Lífið er mjög fjölbreytt þegar ég er að vinna. Það er mikið af óútreiknanlegu rugli sem maður þarf að ganga í gegnum þegar maður vinnur sem ljósmyndari í stríði af því að ég er ekki að berjast. Þetta er náttúrlega hættulegt og maður þarf að koma sér í gegnum ýmislegt. Það er margt sem maður þarf að gera á bak við tjöldin varðandi upplýsingaöflun til að tryggja öryggi sitt og vita að maður sé að fara á einhvern stað sem er fréttnæmur og að maður hafi aðgengi að staðnum. Það er oft sem maður lendir í því að geta ekki gert það sem maður ætlaði sér að gera eða manni er snúið við á einhverjum stað eða þá að verkefnið tekst ekki. Það er enginn sem skipuleggur hvernig stríð hegða sér. Maður verður einhvern veginn að læra að vinna með því.“

Óskar hefur ljósmyndað um víða veröld. Hann býr í Úkraínu.

Hinn mannlegi harmleikur

Óskar hefur upplifað mikið af hörmungum og hefur hann meðal annars verið á svæði þar sem sprengjur sprungu og segir hann að þá hafi þurft að aka hratt í burtu og að fólk hafi andað frekar hratt.

„Ég fór fyrir nokkrum vikum að fjöldagröf í borginni Izyum með um 450 líkum og var verið að grafa fjöldagröfina upp. Það var hræðilegt. Um 50.000 manns bjuggu í borginni og eru um 90% hennar eyðilögð.

Þessi mannlegi harmleikur er eiginlega það versta sem ég hef upplifað í þessu stríði. Það er það sem fer mest í mig. Ég á erfitt með að hitta einhvern sem er búinn að tapa öllu, er fórnarlamb glæps og sérstaklega kynferðisofbeldis. Og þegar óvissa er um framtíð fólks. Þetta finnst mér vera erfiðast af öllu saman sem og að sjá heimili fólks sem var drepið eða sem fólk hefur þurft að yfirgefa og sjá eymdina sem fylgir því. Þetta er samansafn af þúsund sögum sem maður hefur orðið vitni að og sem er það erfiðasta í þessu öllu saman.“

Það eru jarðsprengjur út um allt.

Óskar þarf að hafa margt í huga öryggisins vegna. Þegar blaðamaður sendi honum skilaboð og spurði hvort hann væri til í viðtal skrifaði hann: „Ég er rosalega mikið ekki með símann út af öryggisástæðum, en ef ég má senda þér voice memo þá er það ekkert mál.“ Úr varð að spurningar voru sendar í Messenger og hann sendi svo skilaboð á hljóðskrám. „Rússar geta fylgst með símum fólks, farsímaneti þess og trakkað hvar það er þannig að maður þarf að hafa það í huga þegar maður er að vinna. Margir Rússar hafa verið drepnir út af því að þeir hafa verið í símunum sínum og þá vita Úkraínumenn hvar þeir eru. Þeir klúðra þessu algjörlega.“

Óskar er annars í skotheldu vesti og með öryggishjálm þegar hann er að vinna á átakasvæðum. Hann fór á námskeið til að læra hvað ætti að hafa í huga og svo er hann með sjúkrabúnað sem er sérstaklega hannaður fyrir vígvöll. Svo þarf hann að hafa í huga hvar hann stígur niður. „Það eru jarðsprengjur út um allt.“

Óskar Hallgrímsson

Þjóðarmorð

Óskar er spurður hvernig andlega líðanin sé eftir að hafa orðið vitni að öllum þessum hörmungum.

Það sprungu nýlega sprengjur nokkur hundruð metra frá heimili mínu.

„Andlega líðanin er ágæt þannig séð. Ég er búinn að vera lengi í þessu; þetta eru sjö mánuðir. Maður lærir einhvern veginn að díla við þetta allt saman. Þegar ég á erfiða daga þá get ég orðið pirraður út í samstarfsfélaga mína. Það sem hefur mest áhrif á mína andlegu líðan er að áhuginn á stríðinu hjá fólki heima á Íslandi og víðar í Evrópu virðist vera búinn að detta niður. Ég er ekki að segja að fólki gæti ekki verið meira sama en áhuginn er augljóslega að dvína og að fólk láti sig skipta að það er þjóðarmorð í gangi í Úkraínu. Ég er tengdur þessu og þetta skiptir mig máli. Ég hitti í gær fólk sem er búið að tapa aleigunni og það sprungu nýlega sprengjur nokkur hundruð metra frá heimili mínu. Það held ég að sé erfiðast fyrir mig. En andlega heilsan er samt fín. Ég er heppinn að eiga góða konu og við erum góðir félagar þegar kemur að þessu og við styrkjum hvort annað. Margir samstarfsfélagar mínir og vinir eru að ganga í gegnum það sama og ég og það er gott að eiga þá að þegar þetta er mjög erfitt. Ég viðurkenni það.“

Óskar hefur lært ýmisleg um sjálfan sig undanfarna mánuði. „Ég hef lært hvernig ég höndla lífið og tilveruna undir frekar miklum streituaðstæðum. Ég er búinn að læra að ég er góð manneskja í grunninn. Ég hef séð að það sem pirraði mig áður skiptir mig engu máli í dag; mér gæti ekki verið meira sama. Það er svo margt sem maður lærir að meta þegar maður er í þessum aðstæðum. Ég er mjög þaklátur fyrir hitt og þetta sem ég hefði ekki getað ímyndað mér og ég er þakklátari fyrir hluti sem ég var þakklátur fyrir. Það er búið að hjálpa mér mikið að eiga maka og vera í góðu sambandi. Við erum gott teymi.“

Óskar Hallgrímsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -