Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Óskar segir ríkisstjórnina viljandi skapa þörf á mataraðstoð: „Hversu mörgum verður fórnað?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, fyrrverandi ritari Samfylkingar, segir það til skammar að Íslendingar þurfi að leita eftir mataraðstoð. Fréttir um raðir í slíka aðstoð vöktu athygli um helgina. Hann segir ríkisstjórnina bera ábyrgð á þessu og það sé viljandi gert. Í pistli sem birtist á Vísi segir Óskar:

„Sárafátækt er í örum vexti á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi mældist 18% í ágúst. Fyrir helgi fengu 200 fjölskyldur mataraðstoð frá Fjölskylduhjálp Íslands í Keflavík og þurftu 50 manns frá að hverfa því maturinn kláraðist. Svipaða sögu er að segja á Akureyri, en vefmiðillinn Kaffið.is greinir frá því að hópurinn „Matargjafir Akureyri og nágrenni“ eigi í vandræðum með að anna stóraukinni eftirspurn eftir mataraðstoð. Beiðnum hafi fjölgað stöðugt og nú sé hópurinn að afgreiða rúmlega 200 beiðnir á mánuði,“ segir Óskar Steinn.

Hann segir að þetta sé ekki vandamál sem hafi sprottið skyndilega upp. „Þessi staða er fyrirséð og við henni hefur verið varað. Grunnatvinnuleysisbætur eru aðeins um 240 þúsund krónur eftir skatt og ekki í neinu samræmi við raunverulegan framfærslukostnað fólks. Í júlí sagði Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi Kirkjunnar, að allar líkur væru á að á næstu mánuðum myndi þeim fjölga sem búa við sárafátækt. Þessi spá er að raungerast fyrir augum okkar á meðan ríkisstjórnin situr með hendur í skauti og gerir ekkert,“ segir Óskar.

Í boði ríkisstjórnarinnar

Hann segir þetta sé í boði ríkisstjórnarinnar. „Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir hækkun atvinnuleysisbóta en því miður hafa allar tillögur þess efnis verið felldar af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Rök ríkisstjórnarinnar hafa m.a. verið þau að það verði að hvetja fólk til að leita sér að vinnu. Þau rök eiga hins vegar ekki við í því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Það er einfaldlega enga vinnu að fá,“ segir Óskar og heldur áfram:

„Málflutningur stjórnarliða hefur einnig verið á þá leið að mikilvægara sé að skapa störf en að hækka bætur. Gott og vel. En er ríkisstjórnin að skapa störf? Nei, þvert á móti hefur hún hafnað tillögum Samfylkingarinnar um átak í fjölgun opinberra starfa. Þar að auki hvatti ríkisstjórnin beinlínis til uppsagna fólks með því að láta ríkissjóð greiða laun á uppsagnarfresti. Nú bregst hún fólkinu sem missti vinnuna vegna þessa úrræðis með því að neita því um atvinnuleysisbætur sem hægt er að lifa á.“

Hve mörgum fórnað?

Að lokum spyr Óskar hve mörgum Íslendingum verði fórnað í fátækt fyrir ráðherrastóla VG og Framsóknar. „Með því að hækka ekki atvinnuleysisbætur tekur ríkisstjórn Íslands meðvitaða ákvörðun um að dæma atvinnulaust fólk til fátæktar. Markmiðið er augljóst: með því að halda atvinnuleysisbótum nógu lágum minnkar þrýstingur á hækkun lágmarkslauna. Þannig eru eignir og völd atvinnurekenda varin. Þessa mannfjandsamlegu hægristefnu samþykkja Framsókn og Vinstri græn í skiptum fyrir ráðherrastóla. Spurningin er hversu lengi þessir flokkar ætli að vera hækjur undir flokki atvinnurekenda? Hversu mörgum verður í fátæktina fórnað fyrir ráðherrastóla?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -