Laugardagur 4. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Óskarinn 2018: „Frances rústar þessu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stærsta verðlaunahátíð heims í kvikmyndageiranum, sjálf Óskarsverðlaunin, verða afhent með pompi og prakt vestan hafs næstkomandi sunnudag, þann 4. mars.

Við fengum valinkunna sérfræðinga, Tómas Valgeirsson, kvikmyndagagnrýnanda, og Sigríði Pétursdóttur, kvikmyndafræðing, til að spá í spilin um hverjir eiga eftir að ganga sáttir frá borði með gullstyttu í hönd á sunnudaginn. Þau eru nokkuð sammála um úrslitin.

Nokkuð öruggur sigur

Við byrjum á að biðja álitsgjafana okkar að tippa um hvaða leikkona hreppir verðlaunin fyrir frammistöðu sína í aukahlutverki. Þar eru þau Sigríður og Tómas sammála, en þau velja bæði Allison Janney fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni I, Tonya, kvikmynd um skautadrottninguna Tonyu Harding, en fyrrnefnd Allison leikur móður Tonyu.

„Sakar ekki að veðja nokkra bauka á þennan sigur. Þetta er nokkuð neglt,“ segir Tómas, viss í sinni sök. Þá eru sérfræðingarnir okkar einnig sammála um að Sam Rockwell hljóti verðlaun sem leikari í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína í Three Billboards Outside Ebbing, Missouri. Að sama skapi telja þau bæði að Frances McDormand hljóti gullnu styttuna fyrir frammistöðu í aðalhlutverki í sömu mynd.

- Auglýsing -

„Þetta er engin spurning, Frances rústar þessu. Hjarta mitt heldur einnig örlítið með Sally en það er ómögulegt að toppa lágstemmdu tilþrifin í marglaga leik McDormand. Hún tekur þetta,“ segir Tómas. Þau telja bæði að Gary Oldman hrósi sigri sem leikari í aðalhlutverki fyrir The Darkest Hour, þar sem hann túlkar Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands. Tómas er þó ekki parhrifinn af myndinni sjálfri.

„Ef við horfum framhjá því hvað The Darkest Hour er andstyggilega innantóm, þá er alveg kominn tími á Gary Oldman. Hann var flottur í myndinni og fær pottþétt styttuna fyrir það eitt að reykja tveggja milljón króna virði af vindlum við tökur myndarinnar. Akademían auðvitað elskar fólk sem gefur skít í líkama og heilsu.“

- Auglýsing -

Sigur væri ákveðin yfirlýsing

Tómas og Sigríður telja bæði að Three Billboards Outside Ebbing, Missouri eftir Martin McDonagh standi uppi sem sigurvegari fyrir besta frumsamda handrit og að styttu fyrir handrit byggt á áður útgefnu efni fari til Call Me By Your Name eftir James Ivory. Þá telja þau bæði að Guillermo del Toro hreppi verðlaun fyrir bestu leikstjórn fyrir The Shape of Water.

Þegar kemur að aðalverðlaunum hátíðarinnar, vali á bestu kvikmynd, eru þau hins vegar afar ósammála.

„The Shape of Water. Akademían hefur sérstakt dálæti á öðruvísi bíómyndum (ég meina, þetta er nú ástarsaga á milli konu og sjávarveru!) sem fylgja samt ákveðnum formúlum. Sigur myndarinnar væri ákveðin yfirlýsing, enda krúttleg, lítil fullorðinsfantasía sem styður við lítilmagnana,“ segir Tómas en Sigríður er ekki sammála.

„Three Billboards Outside Ebbing, Missouri,“ segir Sigríður en undirstrikar að hún spái í spilin fyrir Óskarsverðlaununum út frá líkur, ekki persónulegri skoðun sinni á verkunum og listamönnunum sem tilnefnd eru.

„Mér finnst líklegast að þessir hreppi verðlaunin, þó það spegli ekki í öllum tilfellum mínar óskir. Á hverju ári er líka eitthvað sem kemur á óvart og spurning hvað að verður að þessu sinni. Ef til vill besta mynd. Ég er hrifin af Phantom Thread eftir Paul Thomas Anderson og finnst líklegt að þessa árs verði seinna minnst sem ársins sem sú mynd fékk ekki þau verðlaun sem hún átti skilið“

Hér fyrir neðan má sjá hverjir eru tilnefndir í þeim flokkum sem við fengum sérfræðingana til að rýna í:

Besta kvikmynd

Call Me by Your Name
Darkest Hour
Dunkirk
Get Out
Lady Bird
Phantom Thread
The Post
The Shape of Water
Three Billboards Outside Ebbing, Missouri

Besta leikkonan í aðalhlutverki

Sally Hawkins, The Shape of Water
Frances McDormand, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri
Margot Robbie, I, Tonya
Saoirse Ronan, Lady Bird
Meryl Streep, The Post

Besta leikkonan í aukahlutverki

Mary J Blige, Mudbound
Allison Janney, I, Tonya
Lesley Manville, Phantom Thread
Laurie Metcalf, Lady Bird
Octavia Spencer, The Shape of Water

Besti leikari í aðalhlutverki

Timothée Chalamet, Call Me By Your Name
Daniel Day-Lewis, Phantom Thread
Daniel Kaluuya, Get Out
Gary Oldman, Darkest Hour
Denzel Washington, Roman J Israel, Esq

Besti leikari í aukahlutverki

Willem Dafoe, The Florida Project
Woody Harrelson, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri
Richard Jenkins, The Shape of Water
Christopher Plummer, All the Money in the World
Sam Rockwell, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri

Besti leikstjórinn

Paul Thomas Anderson, Phantom Thread
Guillermo del Toro, The Shape of Water
Greta Gerwig, Lady Bird
Christopher Nolan, Dunkirk
Jordan Peele, Get Out

Besta handrit byggt á áður útgefnu efni

Call Me by Your Name
The Disaster Artist
Logan
Molly’s Game
Mudbound

Besta frumsamda handrit

The Big Sick
Get Out
Lady Bird
The Shape of Water
Three Billboards Outside Ebbing, Missouri

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -