Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

„Óskrifuð regla að tala ekki um fósturmissi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarmaður heldur nú sýninguna Dauðadjúpar sprungur í galleríinu Ramskram á Njálsgötu. Þar sýnir hún ljósmyndir sem hún tók fyrstu mánuðina eftir að dóttir hennar fæddist andvana. Margar myndanna segist hún ekki muna eftir að hafa tekið, henni hafi liðið eins og hún væri inni í sorgarhjúp sem aðskildi hana frá veröldinni.

 

„Ég fór upp á fæðingardeild í september 2015 og hélt bara að ég væri að fara að fæða barnið mitt, sem ég gerði reyndar, en þegar ég var komin þangað fannst enginn hjartsláttur hjá barninu,“ segir Hallgerður um þá reynslu sem liggur að baki myndunum. „Þetta var stærsta áfall lífs míns og þegar ég kom heim af spítalanum vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera. Eitt af því sem ég gerði þegar ég vaknaði eftir fyrstu nóttina heima var að taka upp myndavélina og taka sjálfsmynd, sem verður á sýningunni, og næstu mánuði á eftir eigraði ég mikið um hverfið þar sem ég bjó og var nýflutt í. Ég fór líka mikið í bíltúra með manninum mínum og væflaðist bara eitthvað um. Ég var alls ekki með það í huga að vinna verk á þeim tíma, en svo fóru áteknu filmurnar að staflast upp í ísskápnum og þegar ég tók eftir því framkallaði ég filmurnar og fór að skoða myndirnar. Þá breyttist mín leið til að taka myndir pínulítið. Maður tekur myndir öðruvísi þegar maður hefur ekkert ákveðið markmið í huga og ég mundi ekki einu sinni eftir því að hafa tekið margar af þessum myndum sem voru á filmunum.“

„Mér finnst að undanfarna áratugi hafi það ekki endilega þótt mjög kúl eða flott að gera myndlist sem gerist inni á heimilinu eða segja persónulegar sögur, úr þessum kvenlæga heimi sem inniheldur óléttur og móðurhlutverkið og allt það.“

Sorgin dró hulu yfir allt

Hallgerður segir í kynningu á sýningunni að hún hafi að einhverju leyti notað myndavélina sem hlíf gegn þeim tilfinningum sem hún upplifði á þessum tíma.

„Já, kannski,“ viðurkennir hún. „Ég held að myndavélin fangi að einhverju leyti það sem er að brjótast um í undirmeðvitundinni. Þannig að myndirnar fanga líka sálarástand ljósmyndarans. Sumir segja að allar myndir sem ljósmyndarar taka séu sjálfsmyndir. Mér fannst á þessum tíma vera ótrúlega mikil fjarlægð milli mín og heimsins. Mér leið eins og sorgin drægi hulu yfir allt, eins og ég væri föst í sömu sporum og tíminn liði ekki fyrir mig heldur bara fyrir aðra. Upplifði þetta dálítið eins og dagarnir væru seigfljótandi, svona eins og þegar mann dreymir að einhver sé að elta mann og maður reynir að hlaupa en tekst það ekki. Þetta ástand varði í um það bil ár og myndavélin var á milli mín og heimsins.“

Spurð hvað fleira hún hafi gert til þess að reyna að vinna úr sorginni segir Hallgerður að hún og eiginmaður hennar, Sigurður Arent, hafi meðal annars verið í stuðningshópi sem Landspítalinn stendur fyrir fyrir fólk í þessari stöðu.

- Auglýsing -

„Það er skipulagt þannig að nokkrum mánuðum eftir áfallið er fólki boðið að koma og taka þátt í hópvinnu með öðrum sem hafa misst barn á meðgöngu,“ útskýrir hún. „Þar ræðir fagfólk við hópinn og mér fannst rosalega gott að sækja þessa þerapíu. Ég hitti líka sálfræðing á Landspítalanum sem sérhæfir sig á þessu sviði og það var mjög hjálplegt. Við svona áfall fer maður dálítið að endurmeta lífið, þannig að maðurinn minn hætti í vinnunni og við fórum í ferðalag saman og náðum að endurhugsa það hvað okkur finnst mikilvægt í lífinu og hvernig við vildum verja tíma okkar.“

Trúði ekki að allt hefði gengið vel

Hallgerður segir ekkert hafa bent til þess að neitt væri að fyrr en hún var komin á fæðingardeildina með hríðir. „Ekki neitt,“ segir hún. „Ég var sko sprækasta ólétta kona norðan Alpafjalla og ég reyni að komast hjá því að tala um þetta við óléttar konur, þó að í langflestum tilfellum fari allt vel. Ég reyni stundum að komast hjá því að nefna að mínar meðgöngur hafi verið tvær af því að ég á bara eina dóttur sem er á lífi.“

- Auglýsing -

Seinni dóttir Hallgerðar fæddist rúmu ári eftir fyrri fæðinguna, var hún ekki skelfingu lostin alla meðgönguna?

„Jú, eða ég held að rétta svarið sé að ég var mjög hrædd,“ segir hún. „En ég sagði öllum að ég hefði það fínt og væri ekkert stressuð og ég held meira að segja að ég hafi trúað því sjálf, sem var auðvitað ekki rétt. Ég held það hafi tekið mig um það bil viku að meðtaka það að hún hefði komið í heiminn heil á húfi. Ég gat bara ekki áttað mig á því að þetta hefði tekist. Í undirmeðvitundinni átti ég kannski alltaf von á því að það myndi ekki ganga. Það var hræðileg líðan, en ég veit ekki hvernig mér hefði átt að líða öðruvísi. Stundum verður maður bara að sætta sig við að það séu tímabil í lífinu þar sem manni leið kannski ekki vel og það er svo undarlegt að stundum skilur maður ekki hversu langt niðri maður var og hversu illa manni leið fyrr en maður kemur upp úr dýpinu og er farið að líða betur.“

En jafnar fólk sig nokkurn tímann fullkomlega á því að hafa misst barnið sitt?

„Nei, og ég er ekkert viss um að ég vilji jafna mig fullkomlega,“ segir Hallgerður ákveðin. „Mér finnst einhvern veginn að Dýrleif, frumburðurinn minn, hafi breytt lífi mínu og breytt mér þótt ég hafi aldrei fengið að horfast í augu við hana. Og mér finnst að hún eigi að hafa gert það. Mér fyndist eiginlega sorglegra ef hún hefði ekkert skilið eftir sig, þannig að maður lifir með sorginni og það er stundum ljúfsárt.“

„Við svona áfall fer maður dálítið að endurmeta lífið…“

Gott að hafa afsökun fyrir að tala um missinn

Það að fara að vinna í þessum myndum og setja saman sýningu hlýtur að hafa kippt þér aftur í þennan tíma að einhverju leyti? „Já, ég var einmitt að hugsa um það þegar ég fór að skrifa kynningartextann fyrir sýninguna,“ segir Hallgerður. „Þetta er erfitt en þetta er gott. Ég hugsaði; nú sit ég hér uppi í sófa með tár á kinn en ég valdi það sjálf að vera í þeirri stöðu að þurfa að setjast niður og skrifa þennan texta. Það er samt gott að hafa afsökun til þess að tala um hana og þessa reynslu vegna þess að hún hverfur aldrei.“

Margir sem hafa misst barn hafa talað um hvað öðru fólki virðist finnast erfitt að tala um það sem hefur gerst. Hallgerður segist skilja það vel.

„Fólk veit náttúrlega bara ekkert hvað það á að segja,“ segir hún og brosir. „Og það er mjög skiljanlegt. Ég hefði heldur ekkert vitað hvað ég ætti að segja við konu í þessum aðstæðum ef ég væri hinum megin borðsins. Ég finn það sjálf að ég er orðin miklu betri í því að eiga samskipti við fólk sem missir einhvern nákominn. Mér finnst ég hafa lært rosalega mikið af þessu en ég get svo sem ekkert gefið nein ráð um það hvað fólk á að segja, það er oft bara gott að fólk segi að það sé til staðar og segi ‚ég samhryggist‘ þótt manni finnist það voðalega klaufalegt orðalag á íslenskunni. Þegar maður heyrir þessi orð í þessari stöðu er það samt svo fallegt. Það þýðir bara að fólk upplifi samkennd með manni, eða ég tók því allavega þannig og fannst gott að heyra það. En svo vill maður stundum heldur ekkert sjálfur vera að tala um þetta. Stundum er maður bara í partíi og vill fá að hafa gaman.“

Hallgerður Hallgrímsdóttir
Mynd / Unnur Magna

Óskrifuð regla að tala ekki um fósturmissi

Hallgerður segir þau hjónin alltaf hafa verið mjög opinská um það sem kom fyrir, hafi sent frá sér Facebook-status um missinn og það hafi komið henni á óvart hvað margir höfðu samband til að ræða eigin upplifun eftir það.

„Það voru svo margir sem komu til mín og sögðust hafa lent í því sama fyrir kannski þrjátíu árum og höfðu aldrei beint talað um það,“ útskýrir hún. „Ég held þetta hafi verið svo mikið tabú svo lengi. Og þá er ég bæði að tala um fósturmissi og andvana fæðingar. Ég held að við séum komin svolítið lengra í dag og þetta þurfi ekki að vera feiminsmál lengur. Mér finnst samt skrýtið að fósturmissir fyrir tólftu viku meðgöngu sé enn þá eitthvað sem fólk á bara að eiga eitt með sjálfu sér. Það er alltaf talað um að maður eigi ekki að segja neinum frá óléttunni fyrr en eftir tólf vikna sónarinn og ég skil það alveg. En mér finnst samt athyglisvert að það sé pínulítið ætlast til þess að það sé bara einkamál ef eitthvað kemur fyrir á þeim tíma og við eigum bara að halda áfram að mæta í vinnuna eins og ekkert hafi ískorist.

„Mig langaði að skapa einhvers konar vettvang til þess að tala um þessa hluti.“

Ég er ekki viss um að það henti endilega öllum. Auðvitað verður fólk bara að hafa þetta eins og það vill en þetta er samt einhvers konar óskrifuð regla í samfélaginu enn þá. Eitt af því sem mér fannst gott við að vinna þetta verk er að þótt þetta sé mjög persónulegt verk og fjalli algjörlega um mína upplifun þá er ég líka að reyna að búa til verk sem fólk getur kannski samsamað sig með þótt það hafi ekki lent í nákvæmlega því sama og ég. Mig langaði að skapa einhvers konar vettvang til þess að tala um þessa hluti. Mér finnst að undanfarna áratugi hafi það ekki endilega þótt mjög kúl eða flott að gera myndlist sem gerist inni á heimilinu eða segja persónulegar sögur, úr þessum kvenlæga heimi sem inniheldur óléttur og móðurhlutverkið og allt það. En mér finnst það reyndar líka vera að breytast og mér finnst mikilvægt að reyna að taka þátt í því, þótt það hafi ekki verið hugmyndin upprunalega. Og þótt sögulega hafi heimilið verið ríki kvennanna þá er það í dag allra og sorgin við að missa barn allra foreldra, sama hvaða kyns þeir eru. Planið er að fylla rýmið af bleikum tjöldum og reyna að gera það pínulítið kvenlegra. Þessi bleiki litur gæti annaðhvort verið antíkbleiki liturinn heima hjá ömmu en hann gæti líka verið svona innanpíkubleikur og vísað til móðurlífsins.“

Hallgerður Hallgrímsdóttir
Mynd / Unnur Magna

Alltaf valkostur að verða listamaður

Auk ljósmyndanna verður Hallgerður með sérstætt hljóðverk á sýningunni.

„Hljóðverkið byggir á því sem fóstrið heyrir inni í móðurlífinu. „White noise“ og hjartsláttur móðurinnar og einhvers konar vatnshljóð. Hljóð sem oft eru notuð til að róa nýfædd börn þar sem hljóðheimurinn er allt annar utan móðurlífsins. Það er líka hluti af því að skapa þægilegt andrúmsloft í galleríinu og um leið að draga hulur fyrir þannig að áhorfendur geti ekki séð allar myndirnar í einu heldur þurfi að dansa um rýmið.“

Þótt ljósmyndunin sé aðalmiðill Hallgerðar hefur hún þó unnið list í aðra miðla, meðal annars skrifað ljóð og texta. Er það að blanda saman myndlist og skrifum arfur frá föður hennar, Hallgrími Helgasyni, rithöfundi og myndlistarmanni?

„Mér finnst ljósmyndun mjög heillandi en mér finnst líka nauðsynlegt að víkka hana aðeins út stundum, annaðhvort með texta eða hljóðheimi. Hugmyndin á alltaf að ráða og sköpunin þarf að fylgja henni. Ég hef farið krákustíga að myndlistinni, lærði upphaflega fatahönnun og vann svo í mörg ár sem blaðamaður þannig að ég hef oftast séð fyrir mér með skriftum og hver veit nema ég eigi eftir að gera meira af því að skrifa skáldskap, það blundar alltaf í mér. Fyrst þú nefnir pabba þá hef ég einmitt verið að sjá það betur og betur hvað ég hef átt gott að búa að því að eiga pabba sem er listamaður. Að hafa alltaf vitað að það sé valmöguleiki. Margir eru hræddir við að demba sér út í listsköpun en fyrir mér var þetta alltaf einfalt, maður gat alveg eins orðið myndlistarlistamaður og pípari, þótt það sé reyndar aðeins meiri hausverkur að sjá fyrir sér sem myndlistarmaður. En það er mjög margt fólk í báðum ættum sem vinnur fyrir sér með list og maðurinn minn er sviðslistamaður þannig að ég hef alltaf meira og minna hrærst í heimi listarinnar.“

Sýningin Dauðadjúpar sprungur stendur frá laugardeginum 22. febrúar og til 22. mars, en væntanlegir sýningargestir þurfa að hafa í huga að gallerí Ramskram er einungis opið um helgar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -