Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Óslípuðu demantarnir í Rússlandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjörnur á borð við Lionel Messi, Mohamed Salah og Kevin De Bruyne eru á allra vörum nú þegar tæplega tvær vikur eru í HM í Rússlandi, en hvað með alla hina? Á hverju heimsmeistaramóti gerist eitthvað óvænt, leikmenn springa út og nýjar hetjur verða til. Mannlíf leit á nokkra unga og efnilega spilara sem vert er að fylgjast með á HM í sumar, ásamt Hjörvari Hafliðasyni fótboltaspekúlant.

Achraf Hakimi, Marokkó, varnarmaður, Real Madrid
19 ára
1,77 m
Foreldrar Achraf Hakimi eru frá Marokkó en hann fæddist í Madríd og gekk til liðs við Real Madrid aðeins átta ára gamall árið 2006. Hann þótti ákaflega efnilegur í unglingaakademíu hvítliða og sló í gegn með varaliði félagsins í tvö ár áður en hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu í október síðastliðnum, þegar hann kom inn í liðið í fjarveru annars heimalnings, Spánverjans Dani Carvajal. Mánuði síðar skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir Real í 5-0 sigri á Sevilla. Fyrsta landsleikinn fyrir Marokkó lék hann einungis sautján ára gamall árið 2016, sem sýnir vel í hversu miklum metum táningurinn er þar á bæ. Meiðsli hafa plagað þennan öfluga varnarmann að undanförnu og einnig hefur heyrst orðrómur þess efnis að hann verði seldur frá Real eftir tímabilið, en sjálfur segist Hakimi ekki vilja fara fet. Hvað sem úr verður er ljóst að hér fer gríðarlegt efni sem gaman verður að fylgjast með á HM.

Hjörvar Hafliðason: „Afskaplega efnilegur hægri bakvörður sem er sókndjarfari en Dani Carvajal, félagi hans hjá Real Madrid, sem leikur í sömu stöðu.“

Timo Werner.

Timo Werner, Þýskaland, Framherji, RB Leipzig
22 ára
1,81 m

Timo Werner er borinn og barnfæddur í Stuttgart og er hvort tveggja yngsti leikmaðurinn sem hefur leikið með aðalliði heimaliðsins og yngsti markaskorari þess. Hann varð dýrasti leikmaður RB Leipzig sem borgaði fyrir hann 10 milljónir evra þegar Stuttgart féll vorið 2016 og hefur til þessa skorað 34 mörk í 63 leikjum fyrir félagið. Í mars síðastliðnum varð hann yngsti leikmaðurinn í sögunni til að spila 150 leiki í þýsku Bundesligunni. Werner var fyrst kallaður í U-15 ára-landslið Þjóðverja þegar hann var tólf ára gamall árið 2010 og hefur skorað glás af mörkum á öllum landsliðsstigum, þar af sjö mörk í tólf leikjum með aðalliðinu. Þar af komu þrjú mörk í Álfubikarnum á síðasta ári, þar sem hann hlaut gullskóinn. Framherjinn hefur verið þráfaldlega orðaður við mörg af stærstu félögum Evrópu fyrir háar fjárhæðir og kæmi lítið á óvart ef eitt þeirra klófesti hann að HM í Rússlandi loknu.

Hjörvar Hafliðason: „Timo Werner er maðurinn sem á að taka við af Miroslav Klose hjá Þjóðverjum. Fleiri orð eru óþörf.“

Hirving Lozano.

Hirving Lozano, Mexíkó, Kantmaður, PSV Eindhoven
22 ára
1,77 m

Hirving Rodrigo Lozano Bahena er langt nafn og erfitt að muna, en í Mexíkó gengur hann undir talsvert þægilegra nafni, „Chucky“. Hann ólst upp hjá félaginu Pachuca í Mexíkó og þegar honum var skipt inn á í sínum fyrsta aðalliðsleik, átján ára gömlum, skoraði hann fimm mínútum síðar, sem reyndist ágætis fyrirboði um það sem koma skyldi. Lozano varð fljótlega umtalaður og meðal annars orðaður við Manchester United, en PSV Eindhoven í Hollandi krækti í leikmanninn síðasta sumar og sér ekki eftir því. Þrátt fyrir að fá af og til rauð spjöld skoraði hann tíu mörk í fyrstu ellefu leikjum sínum fyrir PSV og mörkin eru nú orðin sautján í 28 leikjum, sem er býsna gott fyrir kantmann. Sjö mörk í 25 landsleikjum fyrir Mexíkó segja einnig sína sögu.

Hjörvar Hafliðason: „Lozano er leikmaðurinn sem heldur Albert Guðmundssyni fyrir utan lið PSV Eindhoven. Brögðóttur kantmaður sem er fær um að framkvæma óvænta hluti.“

- Auglýsing -
Aleksei Miranchuk.

Aleksei Miranchuk, Rússland, Framherji, Lokomotiv Moskva
22 ára
1,82 m

Aleksei og Anton tvíburabróðir hans gengu báðir til liðs við Spartak Moskvu ungir að aldri, en félagið lét þá gossa sextán ára gamla því þeir þóttu ekki nógu líkamlega sterkir. Erkifjendurnir í Lokomotiv Moskvu létu til skarar skríða og fengu tvíburana til sín og það reyndist hárrétt ákvörðun. Báðir hafa þeir blómstrað og komist í rússneska landsliðið, Aleksei árið 2015 en Anton á síðasta ári. Aleksei var líka fyrri til að tryggja sér sæti í aðalliði Lokomotiv, svo leiða má líkur að því að hann hafi verið fæddur nokkrum mínútum á undan bróður sínum. Gestgjafarnir þurfa nánast örugglega á töfrum að halda á HM og þeir gætu komið frá Aleksei Miranchuk. Eða bróður hans.

Hjörvar Hafliðason: „Maðurinn sem á að skora mörkin fyrir Rússa ásamt Aleksandr Golovin.“

Giovani Lo Celso.


Giovani Lo Celso, Argentína, Miðjumaður, Paris Saint-Germain
22 ára
1,77 m

Giovani Lo Celso er Argentínumaður af ítölskum ættum, sem verður að teljast ansi hreint álitleg knattspyrnublanda. Hann er afurð unglingastarfs Rosario Central í Argentínu og PSG borgaði 8,5 milljónir punda fyrir hann tvítugan árið 2016. Þrátt fyrir stjörnum prýdda miðjuna hjá PSG hefur þessum unga leikmanni tekist að brjóta sér leið inn í myndina hjá félaginu og lék sinn fyrsta landsleik fyrir Argentínu á síðasta ári.

- Auglýsing -

Hjörvar Hafliðason: „Hver veit nema við sjáum þennan efnilega miðjumann leika gegn Íslandi þann 16. júní því Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari Argentínu, hefur ekki úr svo mörgum miðjumönnum að velja. Fólk er alltaf að leita að „hinum nýja“ hinum og þessum og ég myndi segja að Giovani Lo Celso gæti hugsanlega orðið hinn nýi Cambiasso.“

Fleiri demantar:
Kasper Dolberg, Danmörk, Framherji, Ajax
20 ára
1,87 m

Hávaxinn framherji sem raðar inn mörkum með Ajax og gæti slegið í gegn í liði Dana sem vantar fleiri stjörnur.

Maxi Gómez, Úrúgvæ, Framherji, Celta Vigo
21 árs
1,86 m

Nýjasta varan á markahrókafæribandi Úrúgvæ verður til taks ef þeir eldri verða í óstuði.

Albert Guðmundsson, Ísland, Kantmaður, PSV Eindhoven
20 ára
1,77 m

Flinkur leikmaður af aðalsættum í knattspyrnulegu tilliti sem veit hvar markið er.

Karol Linetty, Pólland, Miðjumaður, Sampdoria
23 ára
1,76 m

Dreifari á miðjunni sem er líkt við Andrés Iniesta í heimalandi sínu.

Alireza Jahanbakhshs, Íran, Miðjumaður, AZ Alkmaar
24 ára
1,80 m

Var nánast ósýnilegur á HM 2014 í Brasilíu en mikils er vænst af þessum sókndjarfa miðjumanni í Rússlandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -