Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Óttar og fjölskylda á flótta undan COVID-19: „Maður er bara í miðri seinni bylgju“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óttar M. Norðfjörð rithöfundur og fjölskylda hafa flúið COVID-19 faraldurinn í Barcelona á Spáni. Fjölskyldan hefur tímabundið sest að hjá tengdafjölskyldu Óttars suður í Andalúsíu og ætlar að vera þar um sinn þar til hættan er liðin hjá.

„Hugmyndin var upphaflega að vera hérna í sumarfrí, en nú berast þær fréttir að önnur bylgja sé að skella á í Barcelona þannig að nú erum við að velta fyrir okkur að vera lengur hérna,“ segir Óttar M. Norðfjörð rithöfundur.

Óttar er búsettur í Barcelona á Spáni ásamt eiginkonu sinni Eloísu Vázquez ljósmyndara og tveimur ungum sonum þeirra, tveggja ára og tveggja mánaða. Þar gripu stjórnvöld líkt og víða annars staðar í heiminum til víðtækra ráðstafana, meðal annars með því að setja á strangt útgöngubann, vegna COVID-19 faraldursins sem skall á í mars. Á tímabili leit út fyrir að veiran væri í rénun í Barcelona en Óttar óttast að önnur bylgja kunni að vera yfirvofandi þar sem veiran er nú í örum vexti annars staðar í Katalóníu. Þegar hafi verið sett á útgöngubann í einni borg, auk þess sem fjöldi smita hafi komið upp í einu hverfi Barcelona. Fjölskyldan, sem er í sumarfríi í heimabæ Eloísu suður í Andalúsíu, íhugar því að dvelja þar lengur.

„Maður hefur nú smá áhyggjur af því að það sé verið að opna landið of snemma.“

„Í byrjun mánaðarins tókum við fyrstu lestina sem mátti fara með til Andalúsíu og ferðuðumst til heimabæjar eiginkonu minnar, þar sem stór hluti fjölskyldu hennar er búsettur. Við gátum ekki farið fyrr þar sem yngri sonur okkar er bara tveggja mánaða og það er ekki sniðugt að vera að ferðast með svona lítið barn. Mamma Eloísu ætlaði fyrst að koma til okkar í Barcelona og hjálpa til með börnin en það er eiginlega ekki hægt að ferðast innan Spánar og þar að auki hættulegt þannig að við ákváðum að fara til tengdaforeldra minna í staðinn,“ útskýrir Óttar. „Það má alveg segja að við séum að vissu leyti að flýja veiruna.“

Að hans sögn er allt annað líf að vera komin suður eftir. Andrúmsloftið í bænum sé mun afslappaðra. „Í Barcelona giltu mjög strangar reglur á tímabili vegna COVID-19. Þar komst maður ekki út úr húsi nema vera með hanska og grímu og í sérstökum útifötum og þótt maður hafi auðvitað farið að settum reglum og lagað sig að aðstæðum þá væri erfitt að fara í þann pakka aftur ef til þess kæmi. Hér er miklu rólegra og ekki sama paranoja í gangi enda slapp bærinn vel í faraldrinum. Í kringum 100 þúsund manns búa hérna og það komu ekki einu sinni upp 30 smit. Hér er því allt annað líf. Jú jú, fólk er alveg með grímur en bara sumir og maður þarf ekki að spritta sig öllum stundum þannig að maður verður miklu minna var við ástandið hér en í Barcelona. Mér líður eiginlega svolítið eins og við höfum ferðast frá kórónaveirunni með því að koma hingað. Auk þess er stór hluti fjölskyldu Eloísu hér eins og ég segi, foreldrar hennar, systkini, makar og börn og það fer afskaplega vel um okkur heima hjá tengdaforeldrum mínum.“

Óttar hefur verið búsettur í Barcelona á Spáni ásamt eiginkonu sinni Eloísu Vázquez ljósmyndara og tveimur ungum sonum þeirra, tveggja ára og tveggja mánaða, en fjölskyldan er nú i Andalúsíu. Myndin var tekin í Barcelona þegar Eloísa gekk með yngri soninn. Mynd / Elo Vázquez

Óttar segir að fjölskyldunni standi líka til boða að dvelja hjá móður hans á Íslandi en það sé ögn flóknara ferli, með hliðsjón af sóttkvínni og því langa ferðalagi sem þá biði fjölskyldunnar. „En fjölskyldan á Íslandi er fegin að vita af okkur hér og fjölskylda Eloísu er ánægð að fá okkur.“

- Auglýsing -

Framan af varstu tiltölulega afslapaður yfir faraldrinum, eins og kom fram í viðtölum við þig, hefurðu alveg náð að halda ró þinni í gegnum þetta allt? „Já já, ég hef svo sem alveg verið frekar rólegur,“ svarar hann, „svona þannig séð. Auðvitað er hræðilegt að lesa um veikindi fólks og dauðsföll, en ég hef reynt að líta á þetta sem verkefni og einsett mér að smitast ekki. Þetta er bara heimurinn í dag og það sem er í gangi og núna er verkefnið að reyna að fara varlega og komast i gegnum þetta. Mín samfélagslega ábyrgð er að smitast ekki, því þetta er ekki bara einkamál og þess vegna hefur mér fundist pirrandi þegar fólk sýnir kæruleysi. Við það má svo bæta að þegar COVID-19 brast á þá vorum við Eloísa að undirbúa komu yngri sonar okkar í heiminn þannig að maður var á kafi í því og hafði því ekki tíma til að hafa of miklar áhyggjur af ástandinu.“

Talandi um það, ástandið, fylgistu eitthvað með framvindu mála á Íslandi? „Já, ég les fréttirnar daglega. Maður hefur nú smá áhyggjur af því að það sé verið að opna landið of snemma en mér sýnist þið hafa verið í frekar góðum málum hingað til, enda bruðust Íslensk stjórnvöld skjótt við faraldrinum.

Spænsk stjórnvöld voru hins vegar lengi að aðhafast nokkuð, eins og stjórnvöld víða annars staðar. Það tók þau tvær vikur en þegar þau tóku við sér bruðust þau við af fullum krafti og settu á eina hörðustu sóttkví held ég bara í allri Evrópu og náðu góðum tökum á faraldrinum. Nú þegar útlit er fyrir að seinna bylgjan sé að hefjast hér þá er bara spurning hvernig stjórnvöld ætla að díla við það. Þau eru þegar farin að taka hart á ferðamönnum sem fara ekki eftir settum sóttvarnareglum sem er auðvitað bara mjög gott mál. Svo hafa þau verið að prófa að setja eingöngu í sóttkví svæði þar sem veiran hefur blossað upp að nýju til að reyna að halda þjóðfélaginu gangandi, því allsherjar útgöngubann væri auðvitað slæmt fyrir fjárhaginn, fyrir þjóðarbúið.“

„Þetta er bara heimurinn í dag og það sem er í gangi og núna er verkefnið að reyna að fara varlega og komast i gegnum þetta.“

- Auglýsing -

Óttar segir að líklegast hefði fjölskyldan farið til Íslands hefðu þau hjónin ekki eignast barn í miðjum heimsfaraldri. „Það hefði verið mun þægilegra að vera á Íslandi en á Spáni, maður sér það núna,“ viðurkennir hann. „Ísland er auðvitað svo afvikið, eyja úti í hafi og maður blótar vinunum í sand og ösku þegar þeir birta myndir af sér á samfélagsmiðlum, grímulausum einhvers staðar á ferðalagi um Ísland. En við höfum það rosalega fínt hérna í Andalúsíu hjá tengdaforeldrunum, eins og ég segi. Lífið er mjög gott og afslappað. Þetta er svona okkar Ísland.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -