Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Óttar velti fyrir sér hvort kórónuveiran væri bara blekking

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óttar M. Norðfjörð og fjölskylda eru í útgöngubanni á Spáni. Óttar hefur velt fyrir sér hvort kórónuveiran sé í raun bara ein allsherjar blekking. Sett af stað af fámennum hópi til að sporna við hlýnun jarðar.

Þegar vísindamenn hafa verið að vara við hlýnun jarðar sáu líklega fáir fyrir að nokkuð í líkingu við þetta gæti gerst og það á jafnstuttum tíma. Kannski væri einfaldlega best ef það væri framvegis sett á útgöngubann í heiminum í einn mánuð á ári, til dæmis í janúar eða febrúar á landi eins og Íslandi, mánuðina sem enginn þolir hvort sem er. Ætli það myndi duga til að stöðva hnattræna hlýnun? Og það eina sem við þyrftum að gera væri að hanga heima hjá okkur og horfa á sjónvarpið? Frekar góður díll, ef þið spyrjið mig.

Ég hef meira að segja verið að næra áhuga minn á samsæriskenningum aðeins að undanförnu og velt fyrir mér hvort kórónuveiran sé í raun bara ein allsherjar blekking. Sett af stað af fámennum hópi til að sporna við hlýnun jarðar. Þetta er næstum of fullkomið. Að breiða út óvin sem enginn sér. Sem er sama um kynþátt og trúarbrögð. Sem sameinar fólk og neyðir það til að vera heima hjá sér og þannig draga úr neyslu og menga minna. Auðvitað er það ekki svo og fólk er í bráðri hættu, en það er bara eitthvað við tímasetninguna sem virkar hálfótrúlegt. Einmitt þegar heimurinn þurfti mest á því að halda að vakna, þá kemur veira sem lamar allt og krefur okkur um að endurmeta lífsmáta okkar. Það er nánast eins og það sé verið að æfa okkur í því að berjast við gróðurhúsáhrif, hina stóru vána sem ógnar mannkyni nú um þessar mundir.

„Við erum komin svo óþægilega nálægt plágunum tíu í Gamla testamentinu að ég er að hugsa um að setja Biblíuna sem fylgdi íbúðinni í frystinn.“

Bossa nova

Eins og þið sjáið er ég dottinn í heimsósóma, en er annað hægt á þessum fáránlegu tímum sem við lifum á, þar sem miðaldasjúkdómar ganga yfir, dýrategundir deyja út hægri-vinstri, flóð þykja líkleg til að eyða út stórborgum og núna síðast, engisprettufaraldur í Afríku. Við erum komin svo óþægilega nálægt plágunum tíu í Gamla testamentinu að ég er að hugsa um að setja Biblíuna sem fylgdi íbúðinni í frystinn. Ég skal reyndar viðurkenna hér og nú að ég var með „upplifa plágu á tímum samfélagsmiðla“ á bucket-listanum mínum, en núna sé ég að það er ekkert gaman, nema kannski fyrir allt það fallega sem maður hefur séð. Samstöðuna um víða veröld og hjálpsemina á milli fólks og þjóða, að ógleymdum ítalska söngnum á svölunum þar í landi. Maður hefur einfaldlega mestar áhyggjur af því að svo skæð veira berist í fjölmennar flóttamannabúðir eða fátækari ríki heims með verri heilbrigðiskerfi, því þá er líf milljóna manna í alvöru í hættu. Það er á ábyrgð okkar allra að láta það ekki gerast, meðal annars með því að halda okkur heimafyrir og þvo okkur um hendurnar. Einfaldara verður það varla.

Nánari umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

Það er auðvitað ögn klikkað að maður sé kominn í þessa stöðu, að tala fyrir handþvotti og inniveru til að bjarga mannslífum, að vakna á morgnana og vita að maður sé að upplifa skrítnustu daga ævi sinnar. Ég fór til dæmis í tvær furðulegustu búðarferðir lífs míns þessa síðustu ellefu daga. Í annarri ferðinni voru flestar hillur tómar og fólk á fullu að hamstra síðustu matvörurnar sem enn voru í boði. Í kjötdeildinni var ekkert eftir nema kassi með svínafeiti. Ég vona að svínafeitin taki það ekki of persónulega. Í hinni ferðinni var enginn annar í matvöruversluninni nema ég, hillur þó vel troðnar líkt og einungis fyrir mig, og á meðan ég ýtti kerrunni um eins og Palli var einn í heiminum ómaði kósí lyftutónlist undir úr hátölurum. Ég leit örugglega út eins og einhver sturlaður einvaldur sem heimtaði að fá að versla einn í risastórum súpermarkaði.

- Auglýsing -

Einna skrítnast í þessu öllu saman er þó kannski biðin. Það veit enginn hvað gerist næst. Það eina sem maður getur gert er að bíða og vona eftir fréttum um að ástandið sé byrjað að lagast. Eða bíða og vona eftir dagsetningu um hvenær útgöngubanninu verði loks aflétt. Tvær vikur? Fjórar vikur? Sex vikur? Ég las einhvers staðar að Nýja-Sjáland væri að hugsa um að setja 18 mánaða sóttkví í landinu ef faraldurinn heldur áfram að breiðast út. Bið og óvissa. Óvissa og bið. Engin furða að fólk viti ekki hvað það á að gera við sjálft sig. Ég sá myndir frá Bandaríkjunum þar sem íbúar voru að setja upp jólaskreytingar. Í mars. Þeir sögðust vilja „lýsa upp myrkrið“, en ég held að ástæðan sé önnur. Þetta eru súrrealískir tímar og þá gerir fólk súrrealíska hluti. Einhverra hluta vegna hef ég til dæmis verið að hlusta óeðlilega mikið á brasilíska bossa nova tónlist í sóttkvínni. Hvern hefði grunað að sambadjass, þessi leikandi létta en tregafulla músík, væri hið fullkomna tónlist í miðjum heimsfaraldri?

Nánar í helgarblaðinu Mannlíf.

Texti / Óttar M. Norðfjörð

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -