Leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings vill að Alríkislögreglan, FBI, og Bandaríska Neytendasamtökin, FTC, rannsaki FaceApp, forritið sem tröllriðið hefur samfélagsmiðlum undanfarna daga.
Notendur samfélagsmiðla keppast nú við að birta myndir sem sýna hvernig viðkomandi koma til með að líta út eftir 50 ár. Til þess nota þeir forritið, FaceApp þar sem þeir hlaða upp mynd af sjálfum sér í gegnum forritið sem síðan skilar myndinni tilbaka, nema hvað notandinn lítur út fyrir að vera mun eldri.
Vinsældir forritsins hafa vakið upp spurningar um persónuvernd, það er hvað fyrirtækið FaceApp gerir við myndirnar. Ekki síst þar sem FaceApp er rússneskt og með höfuðstöðvar í St. Pétursborg. Stjórnvöld í Rússlandi sem og fyrirtæki þar í landi hafa margoft orðið uppvís að hvers kyns netglæpum og vafasömu háttalagi á netinu og þess vegna óttast margir að myndirnar kunni að enda í gagnabanka stjórnvalda í Rússlandi.
Það er einmitt það sem forsvarsmenn Demókrataflokksins óttast og hefur Chuck Schumer, leiðtogi flokksins í öldungadeildinni, skrifað stjórnendum FBI og FTC bréf þar sem farið er fram á að hægt verði að nota þær upplýsingar sem FaceApp hefur undir höndum sem vopn gegn bandarískum almenningi. „Það væri mikið áhyggjuefni ef viðkvæmar persónuupplýsingar bandarískra ríkisborgara lentu í höndum óvinveittra ríka sem nú þegar eiga í nethernaði gegn Bandaríkjunum,“ segir í bréfinu.
Stjórn Demókrataflokksins hefur þegar sent bréf til þeirra rúmlega 20 einstaklinga sem bjóða sig fram í forvali flokksins til forseta og hvatt þá til að nota ekki forritið og að þeir sem þegar hafa halað því niður skuli eyða því.
Framkvæmdastjóri FaceApp, Yaroslav Goncharov, segir í tölvupósti til Washington Post að myndirnar sem færu í gegnum FaceApp væru aðeins notaðar í einum tilgangi, að láta fólk líta út fyrir að vera eldra en það er og að myndunum væri eitt úr gagnagrunnum fyrirtækisins 48 klukkustundum eftir að þeim er hlaðið upp. Hann fullyrðir að rússnesk stjórnvöld hafi ekki aðgang að myndunum og að FaceApp hvorki selji né deili myndunum til þriðja aðila.