Fimmtudagur 24. október, 2024
4.3 C
Reykjavik

Óttinn við krabbamein aldrei nagað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafur Stephensen hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu í dag til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Hann segir dauða systur sinnar þó ekki vera einu ástæðuna fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins.

„Það er lengri saga á bakvið það,“ segir hann. „Ég átti tvær systur, Elínu og Þóru, sem voru þrettán og ellefu árum eldri en ég. Elín greindist með krabbamein í legi árið 2014 en hafði betur í þeirri baráttu og er frísk í dag. Þóra greindist 2016 með brjóstakrabba og það leit út fyrir að hún hefði líka sigrast á sínu meini en svo blossaði það upp aftur árið 2017 og hún dó í apríl í fyrra. Þær leituðu báðar mikið til Ljóssins og höfðu mikinn styrk af þeirri frábæru þjónustu sem þar er í boði. Það vill reyndar líka svo til að nýlega varð konan mín, Ragnheiður Agnarsdóttir, stjórnarformaður Ljóssins og sagan á bakvið það er að hún í fyrsta lagi missti fyrri manninn sinn, Þórð Friðjónsson, úr krabbameini árið 2011 og síðan greindist stjúpmóðir hennar, Rósa Steinsdóttir, með krabbamein 2016 og hefur líka sótt mikið til Ljóssins. Tengdamamma dóttur minnar, Guðrún Kristín Svavarsdóttir, er líka í hópi skjólstæðinga Ljóssins. Þannig að Ljósið á það eiginlega alveg inni hjá mér að ég leggi pínulítið á mig fyrir það.“

Spurður hvernig hann hafi sjálfur tekist á við veikindi systra sinna, hvort hann hafi leitað sér aðstoðar í ferlinu, svarar Ólafur að hann hafi reyndar gert það.

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu,“ upplýsir hann. „Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Það er nærtækt að spyrja hvort Ólafur sé ekki sjálfur hræddur um að greinast með krabbamein eftir þessa reynslu en hann segist reyndar ekki vera sérstaklega hræddur um það, þótt hann geri sér að sjálfsögðu grein fyrir því að hann gæti fengið krabbamein eins og hver annar.

„Systur mínar létu rannsaka það hvort krabbameinið væri að einhverju leyti ættgengt en það kom ekkert í ljós sem bendir til þess,“ útskýrir hann. „Ég er líka undir mjög góðu eftirliti hjá konunni minni sem gengur hart eftir því að ég fari reglulega í alls konar tékk, eins og maður á auðvitað að gera þegar maður er kominn um og yfir fimmtugt, og óttinn við það að fá krabbamein hefur aldrei nagað mig. Það er hins vegar gott að láta fylgjast vel með sér og hafa forvarnirnar í lagi.“

Allt viðtalið við Ólaf má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -