„Þessi ársgamla minning sendi smá hroll niður eftir bakinu á mér í morgun. Viðurkenni það. En þegar ég rifja þetta upp þá sé ég líka fyrir mér allt fólkið. Í háskerpu. Teinrétt, sterkt og skælbrosandi fólk og samfélag. Það er myndin sem situr eftir í kollinum á mér. Hún er sterkari en hrollurinn.“
Þetta segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, einn þeirra sem var í framlínunni eftir snjóflóðin á Flateyri fyrir um ári síðan. Guðmundur fékk mikið lof fyrir framgöngu sína er stappaði stálinu í sitt fólk fyrir vestan. Hann hrökklaðist svo úr starfi þegar Sjálfstæðismenn á Ísafirði, fannst bæjarstjórinn fá of mikla og jákvæða athygli fyrir þeirra smekk. Guðmundur var á gangi í Kringlunni og segir atburðina fyrir ári herja á sig þessa dagana með einum eða öðrum hætti, líkt og þeir vilji eiga sviðið.
„Fyrir nokkrum dögum hnippti ung kona í öxlina á mér í Kringlunni.
„Hæ, manstu ekki eftir mér?“
Þá var þar komin hetjan unga, Alma Sóley Wolf, sem brosti til Guðmundar undan sóttvarnargrímunni. Guðmundur segir:
„Ég hafði ekki hitt hana frá því fyrir vestan. Frá því hetjurnar á Flateyri björguðu henni undan flóðinu. Frá því hún talaði beint inn í hjartað á okkur og lýsti ólýsanlegum náttúruhamhamförum af einlægni, ró og yfirvegun. Gerði okkur orðlaus.“
Yfirvegun Ölmu þótti aðdáunarverð.
„Ég var að hugsa um mömmu, systkini mín og kettina mína, af því ég hélt að þau væru líka í snjóflóðinu. Þannig ég var að vona að það væri í lagi með þau,“ sagði Alma og bætti við að hún hefði talið að allt húsið hefði orðið undir í flóðinu. Hin unga hetja, Alma, sagði:
„Ég var að hugsa um að anda og bíða eftir einhverjum.“
Um fund sinn og Ölmu í Kringlunni segir bæjarstjórinn sem einnig stóð sig hetjulega þessa erfiðu daga fyrir vestan:
„Í gær var dagurinn hennar og allrar hennar fjölskyldu. Til hamingju Anna og co.“