Lögreglu barst tilkynning í gærkvöld um mann í annarlegu ástandi í hverfi 104. Þegar betur var að gáð kom í ljós að viðkomandi hafði framið rán ásamt þremur öðrum fyrr um daginn. Maðurinn var handtekinn en hafði hann, ásamt öðrum, veist að erlendum ferðamanni og tekið af honnu verðmæti. Hluti ránfengsins er fundinn og er málið í rannsókn. Síðar um kvöldið var lögreglu gert vart við hópslagsmál en þegar komið var á vettvang voru mennirnir hvergi sjáanlegir.
Ólögráða einstaklingur var eltur uppi af lögreglu í gær en sá er grunaður um þjófnað í verslun. Þar sem um var að ræða barn var málið sett í viðeigandi ferli og tilkynning send til barnaverndar. Nokkrar tilkynningar vegna grunsamlegra mannaferða bárust lögreglu en í Kópavogi var tilkynnt um konu sem var ráfandi um og illa áttuð. Var henni ekið á dvalarstað sinn. Þá sinnti lögregla umferðareftirliti og öðrum minniháttar málum en samkvæmt dagbók lögreglu var nóttin tiltölulega annasöm.