Óvenju tíð andlát hafa orðið síðustu vikur og mánuði á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Margt eldra fólk hefur látist eftir að Covid-19 smit komu upp á heimilinum og margar andlátstilkynningar birtast þessa dagana.
Morgunblaðið ræddi við Pálma V. Jónsson, yfirlækni á öldrunarlækningadeild Landspítalans um hvort andlát eldra fólks hafi verið óvenjutíð undanfarið og hvort rekja megi mörg þeirra til Covid.
„Ég er ekki með nákvæma tölfræði við höndina en það virðist vera aukin tíðni andláta þessa dagana. Ég hef heldur ekki upplýsingar um dánarorsakir. Ég tel mikil líkindi fyrir því að kórónuveiran sé nú að verki og valdi þessari aukningu í ár. Þá er einnig nokkuð líklegt, að mínu mati, að dánartíðnin sé heldur meiri en í meðalári, þar sem sóttvarnir hafa verið miklar í tvö ár og fólk haldið sér til hlés.“ segir Pálmi og heldur áfram:
„Nú er hins vegar dregið úr sóttvörnum almennt talað og smit í samfélaginu í hæstu hæðum. Þá er það svo að bæði gestir og gangandi og einnig starfsfólk á sjúkrastofnunum veikist. Öllum þessu sýkingum fylgir ákveðinn tími í byrjun veikinda, þar sem fólk er talsvert smitandi en einkennalaust eða lítið og sá tími getur verið hættulegur viðkvæmu fólki.“