Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Óvin­urinn er inn­an­tóm lof­orð: „Hvernig bregðast manneskjur við yfirvofandi útrýmingu mannkyns?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Auður Aðalsteinsdóttir forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit og höfundur fræðibókarinnar Hamfarir í bókmenntum og listum, skrifar grein sem ber yfirskriftina:

Á valdi tilfinninganna.

„Lofts­lags­vand­inn er bæði óút­reikn­an­leg­ur, gríð­ar­lega um­fangs­mik­ill og flók­inn. Eng­ar ein­fald­ar lausn­ir eru í boði. Meiri­hluti al­menn­ings virð­ist all­ur af vilja gerð­ur til að gera sitt en einn helsti óvin­ur­inn er græn­þvott­ur og inn­an­tóm lof­orð.“

Bætir við:

„Hamfarir hafa alla tíð verið eitt af meginviðfangsefnum bókmennta, kvikmynda og lista, meðal annars sem tilefni til að kanna mannseðlið og möguleikann á að skapa okkur annars konar veruleika. Hvernig bregðast manneskjur til dæmis við yfirvofandi útrýmingu mannkyns? Og hvers konar samfélag væri hægt að byggja á rústum okkar siðmenningar? Því hamfarir fela ekki aðeins í sér eyðileggingu, eins og danski hamfarasérfræðingurinn Kristian Cedervall Lauta bendir á í bók sem heitir Katastrofer. Þær opna gjarnan augu okkar fyrir einhverju sem við sáum ekki áður, og það gerir okkur kleift að nota reynsluna af þeim á uppbyggilegan hátt: til að læra eitthvað um okkur sjálf og samfélagið, veikleika okkar og styrkleika, og til að búa okkur betur undir framtíðarhamfarir.“

 

- Auglýsing -

Auður viðurkennir þó að það sé þó „hægara sagt en gert þegar kemur að loftslagsvandanum, sem er, þrátt fyrir að við séum þegar farin að upplifa afleiðingarnar, bæði svo óútreiknanlegur og svo gríðarlega umfangsmikill og flókinn að engar einfaldar lausnir eru í boði. Meirihluti almennings virðist allur af vilja gerður til að gera sitt en einn helsti óvinur þeirra er grænþvottur og innantóm loforð. Á okkur dynja ónákvæmar upplýsingar, misskilningur, og, því miður, vaðall af fegruðum eða hagræddum staðreyndum sem þjóna hagsmunum fyrirtækja og stjórnmálaafla.“

- Auglýsing -

Hún nefnir að „þótt sem betur fer sé heldur aldrei skortur á fólki sem nennir að leiðrétta rangfærslur virkar nær ómögulegt að henda reiður á því hvaða aðgerðir séu raunverulega gagnlegar í daglegu skrolli niður samfélagsmiðlana, þar sem við stoppum æ sjaldnar við eitthvað og erum oft með annað augað á einhverju öðru. Er betra að kaupa íslenska tómata í plasti eða útlenska án plasts? Mengar hybrid bíll meira en venjulegur bensínbíll ef ferðast þarf langar vegalengdir? Jafnvel þótt við tökum tíma í að kafa í röksemdafærslurnar – og vitum reyndar öll í grófum dráttum hvað þarf raunverulega til – þá er vandinn á þeim skala að þegar upp er staðið er boltinn hjá stjórnvöldum og risafyrirtækjum. Þar virðast hins vegar klisjur um orkuskipti, græna orku og loftslagsmarkmið of oft orðin tóm. Eða það sem verra er, þær eru notaðar til að verja gróðasjónarmið og jafnvel umhverfisspjöll, eins og kom fram í nýlegri úttekt Hallgríms Indriðasonar á RÚV um áætlaða borun Norðmanna eftir málmum á hafsbotni. Vísindamenn óttast áhrif slíkra borana á lífríki og líffræðilegan fjölbreytileika en yfirvöld og framleiðendur segja málmana nauðsynlega fyrir græn orkuskipti.“

Auður segir að með þessu séu skyndilega loftslagsmarkmið „orðin réttlæting fyrir að skaða umhverfið og umræða um umhverfismál notuð til að dulbúa sannleikann, fegra staðreyndir í eigin þágu, slá erfiðum ákvörðunum á frest og jafnvel verja umhverfisspjöll. Margir líta til skáldskapar og listar í þessu samhengi; hann geti hjálpað okkur að komast upp úr klisjunum, ýtt við okkur. Og það er rétt að rithöfundar og listamenn hafa ekki aðeins verið meðal öflugustu aktívista þegar kemur að umhverfismálum heldur hafa brugðist á margvíslegan hátt við umhverfiskrísu samtímans í list sinni. Í ljóðabókinni Digte 2014 eftir danska skáldið Theis Ørntoft segist ljóðmælandi þó standa á vegamótum þess að vera sama og örvænta: „ég les um að maður sé skyldugur / til að hugsa á vongóðan hátt á þessum síðustu tímum“ segir hann, „En hugsanir mínar eru ekki vongóðar“.

Auður ljŕ máls á því að „vistskapur 21. aldarinnar einkennist reyndar svo mjög af vonleysi og eftirsjá að talað hefur verið um „vistsorg“ og „loftslagsmelankólíu“. Slík vistlist er stundum gagnrýnd fyrir að kynda undir tómlæti og aðgerðaleysi frekar en að hvetja til hefðbundins aktívisma. Þegar ég hef haldið fyrirlestra um vistljóðlist hef ég fengið athugasemdir um að þau sorgarviðbrögð sem þar megi greina séu ekki gagnleg. Á móti mætti benda á að nauðsynlegt sé að horfast í augu við blákaldan veruleika loftslagsbreytinga og láta ekki óraunhæfar vonir um töfralausnir standa í vegi fyrir því að ráðist sé að rótum vandans. Í skáldskap sem þessum má finna tilraunir til að vinna tilfinningalega og hugrænt úr flóknum umbreytingum, þar sem umhverfið sem við þekkjum er að hverfa úr augsýn og við tekur ókunnuglegur og ógnvekjandi veruleiki.“

Solveig Roepstorff .

Hún nefnir einnig að „auk sorgarviðbragðanna veldur loftslagskrísan kvíða og streitu og vísindamenn sem reynt hafa áratugum saman að vekja athygli á vandanum finna fyrir einkennum kulnunar. Þetta eru allt viðeigandi og mannleg viðbrögð við raunverulegri og alvarlegri kreppu, undirstrikaði danski sálfræðingurinn Solveig Roepstorff í viðtali við Psykologens fagmagasin árið 2022. Meðal óheppilegra viðbragða er hins vegar hegðun á borð við það að finnast það skynsamlegt að fljúga minna eða draga úr fatakaupum en gera það samt ekki. Það verður eins konar klofningur milli ásetnings og hegðunar vegna þess að fólk hefur enga reynslu af mögulegum framtíðarávinningi. Það er meira að segja til eitthvað sem kallast „óhollt úthald“ sem þýðir að þegar fólk hefur lagt mikinn tíma og fyrirhöfn til að skapa sér gott líf er það líklegra til að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir vitundina um skaðleg áhrif þess á loftslagið.“

Auður segir að „þótt þannig megi nota ýmis hugtök sálfræðinnar til að útskýra hegðun og líðan fólks á tímum loftslagsbreytinga, og stundum þróist hún yfir í hamlandi kvíða sem krefst kvíðameðferðar, leggur Roepstorff áherslu á það, í bók sem ber titilinn Klimapsykologi, að vanlíðan vegna loftslagsbreytinga sé almennt séð ólík kvíðaröskunum. Hún flokkist ekki sem sjúklegt ástand og ekki verði leyst úr henni með einstaklingsmeðferð. Við þurfum að takast sameiginlega á við þessar tilfinningar og hegðun, í almannarými. Og það gerum við ekki með innantómum klisjum eða grænþvotti, heldur með því að eiga dýpri og merkingarfyllri samskipti um vandann. Til dæmis í bókmenntum okkar og listum. Því einmitt vegna þess að ekki er hægt að takmarka skáldskapinn við að vera „gagnlegur“ og uppbyggilegur og vegna þess að listin er í raun eins og vistkerfin okkar, flókin og stundum ófyrirsjáanleg, þá felst í henni tækifæri til að tjá og kanna þennan flókna vanda. Þar með talið tilfinningaleg viðbrögð okkar: sektarkennd, ótta, afneitun og vonleysi – en líka jákvæðari viðbrögð á borð við seiglu, samfélagslega ábyrgð og umhyggju.

Sigrún Inga Hrólfsdóttir.

Við manneskjurnar skynjum og tengjumst umhverfi okkar ekki síður (og kannski enn frekar) gegnum tilfinningar en með rökum. Og undanfarið hefur myndlistarkonan Sigrún Inga Hrólfsdóttir beint athygli að þeirri staðreynd að tilfinningar okkar eru hluti af hinu flókna samspili efna í heiminum og því dæmi um það hvernig við erum samofin umhverfi okkar. „Náttúruleg efni í líkamanum eins og endorfín og oxýtósín hafa áhrif á líðan okkar og ég skynja þessi áhrif sem liti en þau eru samt ósýnileg, huglæg,“ segir í texta um verkin í sýningu hennar, Invizible Colors.Þessi myndræna tjáning á öflunum sem eru að verki í heiminum, líka ósýnilegum öflum á borð við átök, löngun, ást og vellíðan, er hennar framlag til samskipta um „flókinn vef tilfinninga, stjórnmála, vísinda, peninga- og valdatengsla, stigveldis kynja og kynþátta, svo og undirokunar tegunda sem ekki eru mannlegar“.

Auður er á því að „þannig getur listin hjálpað okkur að átta okkur á því að við erum ekki bara á valdi tilfinninga heldur tökum við þátt í heiminum með því að finna til. Réttláta reiði má til dæmis beisla í baráttu fyrir betri veröld. Og eins og Auður Ava Ólafsdóttir skrifar um í skáldsögunni Eden þá er samkennd og virðing fyrir samhengi sem er stærra en maður sjálfur lykillinn að meiri skilningi á hinum flókna vef sem tengir allt saman: „Og þá fer ég allt í einu að hugsa um að það er sagt að geimfarar gráti. Að þegar maður væri kominn nógu langt í burtu og greinir ekki lengur landamæri þá gleymi maður átökum mannsins á jörðu niðri og að jörðin hitni og að yfirborð sjávar hækki stöðugt og sjái þess í stað hvernig allt loðir saman. […] Og þegar maður skilur hversu lítið má út af bera til að [jörðin] fari út af sporinu þá beri tilfinningar mann ofurliði og fólk fallist í faðma og gráti.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -