Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Óvissa umlykur helstu atvinnugreinar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir einhverjum mestu áskorunum síðan á árunum eftir hrun.

Nagandi óvissa í flugrekstri
Framtíð WOW air hefur hangið á bláþræði í allan vetur. Samningaviðræður um yfirtöku Indigo Partners hafa staðið yfir í mánuði en gangi þær ekki upp og enginn kemur félaginu til bjargar er einungis tímaspursmál hvenær WOW leggur upp laupana. Félagið flutti 160 þúsund farþega í fyrra en ljóst er að þeir verða færri í ár vegna minnkandi umsvifa félagsins. Icelandair skilaði sömuleiðis miklu tapi í fyrra og til að bæta gráu ofan á svart neyddist félagið til að kyrrsetja þrjár Boeing 737 MAX-vélar sem áttu að spila stórt hlutverk í leiðakerfi félagsins í framtíðinni.

Þrengir að ferðaþjónustunni
Minna sætaframboð til landsins er ávísun á enn frekari fækkun ferðamanna en nú er í kortunum. Í janúar komu 5,8 prósent færri ferðamenn til landsins en á sama tíma í fyrra og nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu var 7 prósentustigum minni. Fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa verið tíðar að undanförnu, hvort sem um ræðir hótel, bílaleigur eða hópferðafyrirtæki. Þar spilar sterkt gengi krónunnar hlutverk en hún hefur, þrátt fyrir allt mótlætið í atvinnulífinu, verið að styrkjast fremur en hitt.

Verkfallshrina að hefjast
Flest af stóru verkalýðsfélögum landsins hafa slitið kjaraviðræðum og bættust iðnaðarmenn og Starfsgreinasambandið í hópinn um helgina. VR og Efling hafa boðað verkfallshrinu næstu vikur og hafa þau kosið að beina spjótum sínum að ferðaþjónustunni fyrst um sinn. Hafa félögin boðað tímabundin verkföll í mars og apríl og svo ótímabundna vinnustöðvun frá 1. maí verði ekki samið fyrir þann tíma. Ekkert þokast í viðræðum á milli deiluaðila og átökin hafa farið harðnandi ef eitthvað er.

Loðnan hverfur
Eins og vandræðin í þjóðarbúinu hafi ekki verið næg fyrir tók loðnan, einn mikilvægasti nytjafiskur þjóðarinnar, upp á því að láta sig hverfa þannig að Hafrannsóknarstofnun sér ekki tilefni til að gefa út loðnukvóta í ár. Útflutningsverðmæti loðnu í fyrra námu 17,8 milljörðum króna sem jafngildir 0,6 prósent af landsframleiðslu. Aflabresturinn mun koma sérstaklega illa við bæjarfélög á landsbyggðinni, einkum á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -