Rekstur skemmtistaðarins B5 í Bankastræti 5 hangir á bláþræði vegna ástandsins sem hefur skapast í kórónuveirufaraldrinum.
Veitingamennirnir Þórhallur Viðarsson og Þórður Ágústsson segja frá þessu í samtali við Morgunblaðið í dag. Þeir segja óvissu uppi um framhaldið og til að gera illt verra sýna lánardrottnar engan skilning. Þeir segja erfitt að standa af sér „árásir“ lánardrottna í núverandi ástandi.
Mannlíf greindi frá því í maí að staðan hjá B5 væri erfið. Þá sagði Þórhallur að til að bæta gráu ofan á svart hefði Leigusalinn, Eik fasteignafélag, hækkað leiguna. Hann sagði hækkunina vera verulega.
„Leigusalinn, Eik fasteignafélag, innheimtir hækkaða leigu með krepptum hnefa, á þessum tíma sem talað er um að allir eigi að standa saman. Við höfum alltaf staðið í skilum þannig að við erum ósáttir með þessa verulegu hækkun sem kemur á þessum tímapunkti,“ sagði Þórhallur í samtali við Mannlíf í maí.
Þess má geta að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á mánudag á upplýsingafundi almannavarna að það væri áhyggjuefni að fólk væri farið að slaka á í sóttvörnum og að hann myndi áfram mæla með að skemmtistaðir loki klukkan 23. Eigendur B5 segja þetta vera „aftöku“ í viðtali Morgunblaðsins.