Enn ein veðurviðvörunin hefur verið gefin út af Veðurstofu Íslands og er hún að þessu sinni appelsínugul.
Í tilkynningu frá Almannavörnum í kvöld segir að Ríkislögreglustjóri hafi ákveðið í samráði við lögreglustjóra í sex landshlutum að lýsa yfir óvissustigi vegna veðursins sem er nú í kortunum.
Óvissustigið tekur gildi klukkan átta í fyrramálið og gildir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Vestmannaeyjum og Vestfjörðum.
Búast má við að það taki að hvessa í nótt og í fyrramálið en búist er við miklum vindi og skafrenningi.
Fólk er hvatt til þess að ganga vel frá lausum munum sem geta fokið þar sem töluverð hætta verður á foktjóni.