Mánudagur 13. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Óvíst hvort einn ástsælasti pítsustaður landsins opni aftur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óvíst er hvort einn vinsælasti pítsustaður landsins, Eldsmiðjan við Bragagötu, verði opnaður aftur. Staðnum var lokað þegar COVID-19 skall á í mars og átti lokunin upphaflega aðeins að vera tímabundin en vegna ástandsins er það nú óljóst. 

„Já, þetta er rétt, því miður,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna, þegar blaðamaður spyr hvort það sé rétt sem heyrst hefur að Eldsmiðjan við Bragagötu verði hugsanlega ekki opnuð aftur, en Eldsmiðjan er búin að vera þar á sama stað í meira en 30 ár og hef­ur verið óhemju vinsæll veitingastaður í gegn­um tíðina.

En nú hefur þetta um árabil verið einn vinsælasti pítsastaður borgarinnar – og landsins. Eruð þið ekkert hrædd um að fastakúnnar verði óánægðir ef staðnum verður alveg lokað? „Jú, það er alveg viðbúið að fólk verði ósátt. Skiljanlega. Eldsmiðjan við Bragagötu var auðvitað ákveðinn frumherji í pítsugerð á Íslandi á sínum tíma, og það eru bæði margir sem eiga góðar minningar frá staðnum og margir sem sjá eftir kjarnastöðum af þessu tagi. Hins vegar er þetta sá bara veruleiki sem blasir við mörgum stöðum í dag, því miður,“ segir hann og vísar þar til þeirra áhrifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á starfsemi margra veitingastaða og annarra fyrirtækja sem byggja meðal annars afkomu sína á þjónustu við ferðmenn.

„Það væri leitt ef hann myndi ekki opna aftur. En við vonumst auðvitað til að rekstrarumhverfið batni hratt.“

„Það er bara mjög mikill munur á rekstrarumhverfinu niðri í bæ fyrir og eftir COVID-19, til dæmis með hliðsjón af straumi ferðamanna hingað til landsins. Landslagið er gjörbreytt eftir þetta og reksturinn í miðbænum erfiður,“ segir Jóhannes, en í lok síðasta mánaðar kom fram í fjölmiðlum að í kringum 30 veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni hafi verið lokað vegna kórónuveirufaraldursins, ýmist vegna gjaldþrots eða óvissu vegna áhrifa veirunnar.

Jóhannes bendir á að þegar COVID-19 faraldurinn skall á hafi Gleðipinnar og fleiri rekstraraðilar brugðið á það ráð að loka tímabundið sumum stöðum sínum og breytt opnunartímum annarra staða til að bregðast við ástandinu. Veitinga­staðir Gleði­pinna séu Saffran, Ham­borgara­fabrikkan, American Sty­le, Aktu Taktu, Eld­smiðjan, Keilu­höllin, Black­box, Shake&Pizza, Pítan og Roa­dhou­se. Þann 24. mars hafi fyrirtækið hafi lokað Kaffivagnum, sem var á þeim tíma í eigu Gleðipinna en ekki lengur, og Roadhouse en haldið öllum Aktu Taktu stöðum, tveimur American Sty­le stöðum, einum Saffran stað og einum Eld­smiðju­stað opnum. Þá var opnunartíma Keilu­hallarinnar og Shake&Pizza breytt. Átti lokunin að vera tímabundin en nú segir Jóhannes ekki útséð með hvort staðirnir verði allir opnaðir aftur.

„Eldsmiðjan við Suðurlandsbraut er enn opin en bæði Eldsmiðjan við Bragagötu og Laugaveg hafa verið lokuð frá því í COVID-19 faraldrinum, þar sem rekstrarumhverfið niðri í miðbæ er erfðara, og það er ekki búið að taka ákvörðun um hvort staðirnir verðir opnaðir aftur,“ segir hann. „Það breyttist bara margt í þessu ástandi. Við vorum með þrjá Saffran staði opna. Nú eru þeir tveir. Roadhouse er enn lokaður. Og það er eins með hann og Eldsmiðjuna við Laugaveg og Bragagötu, það er ekki búið að taka ákvörðun með framhaldið. Ég er nú bjartsýnismaður, en maður þorir ekkert að segja. Þetta er allt enn óljóst.“

- Auglýsing -

Jóhannes játar að það væri auðvitað algjör synd ef ekki næðist að opna þessa staði aftur, ekki síst Eldsmiðjuna við Bragaötu sem sé sögufrægur staður. „Já, þetta er sannarlega staður með sögu og rómantískur í hugum margra. Það væri leitt ef hann myndi ekki opna aftur. En við vonumst auðvitað til að rekstrarumhverfið batni hratt og það verði hægt að opna þessa staði hratt á ný.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -