Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Lík systranna voru alblóðug á rúminu – Morðinginn með öxina sneri sér að börnum hjónanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðfaranótt mánudagsins 10. júní, árið 1912, voru allir í fastasvefni á heimili Josiah B. Moore og fjölskyldu hans í bænum Willisca í Iowa-fylki í Bandaríkjunum.

Auk hjónanna, Josiahs, sem var 43 ára, og Söruh, 39 ára, og fjögurra barna þeirra; Hermans Montgomerys, 11 ára, Mary Katherine, 10 ára, Arthurs Boyds, 7 ára, og Pauls Vernons, 5 ára, voru tvær stúlkur gestkomandi, Stillinger-systurnar Ina May, 8 ára, og Lena Gertrude, 12 ára.

Moore-fjölskyldan var ágætlega efnuð, vel þekkt og vel liðin í samfélaginu og kvöldið áður hafði verið haldin athöfn fyrir börn í kirkju í grennd við heimili Moore-fjölskyldunnar. Eiginkona Josiah hafði skipulagt athöfnina og hafði öll fjölskyldan og Stillinger-systurnar verið viðstödd hana, en síðan gengið heim á leið að henni lokinni klukkan 21.30.

Dauðaþögn í morgunsárið

Heimili Moore-fjölskyldunnar

Fer engum frásögnum af svefnförum heimilisfólks og gesta þess, en klukkan sjö, morguninn eftir var barið á útidyrahurð heimilis Moore-fjölskyldunnar. Var þar kominn nágranni, Mary Peckham, sem tekið hafði eftir að enginn virtist kominn ofan á heimilinu. Mary fékk engin viðbrögð við banki sínu og reyndi að opna en dyrnar voru harðlæstar.

Nú, Mary hleypti hænsnum Moore-fjölskyldunnar út, en var með böggum hildar og sótti bróður Josiahs, Ross Moore, en hið sama var upp á teningnum þegar hann knúði dyra; ekkert svar. Ross bjó svo vel að hafa í fórum sínum aukalykil að útidyrunum og sá þann kost vænstan að nýta hann.

Blóði drifinn vettvangur

Mary beið úti á veröndinni en Ross gekk inn í forstofuna og opnaði dyrnar að gestaherberginu. Þar mætti honum ófögur sjón; lík Stillinger-systranna alblóðug á rúminu. Ross beið ekki boðanna og sagði Mary að haska sér og sækja vörð laga og réttar á þeim slóðum, Henry „Hank“ Horton, sem kom skömmu síðar á vettvang. Könnunarleiðangur Henrys um húsið leiddi í ljós nöturlegan sannleika – í því var enginn á lífi.

- Auglýsing -
Moore-fjölskyldan og Stillinger-systurnar.

Öll höfðu verið höggvin eða barin til bana og fannst morðvopnið, öxi löðrandi í blóði, í gestaherberginu við lík Stillinger-systranna. Talið var að morðin hefðu verið framin einhvern tímann á milli miðnættis og klukkan fimm um morguninn.

Tveir vindlingastubbar

Virtist sem ódæðismaðurinn, eða -mennirnir, hefði hafist handa á efri hæð hússins, í hjónaherberginu. Það sem studdi þá ályktun voru tveir vindlingastubbar sem fundust á háalofti hússins – að morðinginn hefði beðið þar í rólegheitum eftir að heimilisfólk sneri heim frá kirkju og tæki á sig náðir. Josiah fékk sýnu verri útreið en önnur fórnarlömb. Ekki aðeins hafði hann verið barinn oftar í höfuðið, heldur hafði axarblaðinu verið beitt á hann en sú var ekki raunin í tilfelli eiginkonu hans eða barnanna sex. Augu Josiah höfðu hrokkið úr tóftunum við barsmíðarnar og var hvergi að finna í blóðugri kássunni, sem andlit hans var.

Varnarsár á handlegg Lenu

Síðan hafði morðinginn snúið sér að börnum hjónanna og hlutu þau sömu útreið og foreldrarnir. Að því loknu fór morðinginn aftur inn til hjónanna og bætti einhverra hluta um betur. Var atgangurinn svo mikill að einn skór hafði fyllst af blóði og síðan oltið á hliðina. Þá lá leið morðingjans niður á neðri hæð hússins og inn í gestaherbergið til Inu og Lenu. Af verksummerkjum þar að dæma var ályktað að Lena hefði verið vakandi þegar þar var komið sögu. Á handleggjum hennar fundust áverkar sem benti til þess að hún hefði varist ódæðismanninum og einnig lá hún þversum í rúminu, náttsloppurinn hafði verið dreginn upp að mitti og hún nærklæðalaus.

- Auglýsing -

Margir lágu undir grun

Ekkert var fast í hendi hvað mögulegan morðingja áhrærði og voru þó nokkuð margir karlar nefndir til sögunnar í því tilliti. Þeirra á meðal var prestur að nafni George Kelly. Hann þótti svo álitlegur að hann var kærður og réttað yfir honum í tvígang. Í fyrra skiptið komst kviðdómur ekki að niðurstöðu og í hið síðara féll sýknudómur.

Annar var Henry Lee Moore, sem þrátt fyrir ættarnafnið var ekki skyldur Josiah B. Moore.

Sekt Henrys Lees Moore var aldrei sönnuð.

Henry Lee var síðan útilokaður sem mögulegur morðingi í málinu. Hvort það var skynsamleg ákvörðun eða ekki skal látið á milli hluta liggja, en þetta sama ár framdi hann tvö morð sem þóttu í mörgu líkjast morðunum á heimili Moore-fjölskyldunnar. Þau morð framdi hann í desember árið 1912 er hann gekk af móður sinni og ömmu dauðum og notaði til þess öxi. En það er önnur saga.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -