Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefur verið skipuð sem lögreglustjóri á Austurlandi til bráðabirgða, en Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri, lætur um mánaðamótin af störfum.
Nýr lögreglustjóri átti að taka við 1. mars, en skipanin hefur tafist, en samkvæmt dómsmálaráðuneytinu er vonast til að gengið verði frá henni fljótlega.
Þar til nýr lögreglustjóri tekur við mun Páley gegna starfi lögreglustjórans á Austurlandi, samhliða starfi sínu í Vestmannaeyjum.
Sex sóttu um starfið, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, Halldór Rósmundur lögfræðingur, Helgi Jensson lögfræðingur, staðgengill lögreglustjórans á Austurlandi, Logi Kjartansson lögfræðingur, Margrét María Sigurðardóttir forstjóri og Sigurður Hólmar Kristjánsson – lögfræðingur, staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.