Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Sonur Páls fæddist í líkama stúlku: „Auðvitað hefur þetta verið ákveðið sorgarferli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það má kannski segja að þetta hafi verið ákveðinn missir. Við hjónin vorum með litla stúlku í höndunum fram yfir tvítugt sem hét í höfuðið á ömmu sinni. Þetta varð vissulega ákveðið sorgarferli sem við gengum í gegnum en samt sem áður hef ég ekki viljað snúa til baka vegna þess að það hefur fært Snævari meira sjálfsöryggi að vera eins og hann er í dag þó það séu erfiðleikar að plaga hann líkamlega en hann er líkari sjálfum sér í dag heldur en hann var búinn að vera lengi. Jú, auðvitað hefur þetta verið ákveðið sorgarferli en ég lít samt ekki þannig á það í dag,“ segir Páll Jóhannesson, faðir Snævars Óðins sem sagði sögu sína í Mannlífi.

Snævar fæddist í líkama stúlku og hefur gengið í gegnum fimm aðgerðir í kynleiðréttingarferlim

 

Páll Jóhannesson

 

Hræddur við allan fjandann

- Auglýsing -

Páll og eiginkona hans, Margrét Pálmadóttir, eignuðust fyrir 32 árum sitt yngsta barn.

Stúlku.

„Hann var orðinn mjög ákveðinn þegar hann var bara nokkurra mánaða.“

- Auglýsing -

Páll Jóhannesson

Svo leið tíminn.

„Hann vissi alltaf hvað hann vildi verða þegar hann var barn; hann sagðist alltaf ætla að verða forseti. Ég var sjómaður á frystitogara og við tveir gengum í gegnum mjög erfitt tímabil en hann var alltaf svo óhemjuhræddur við mig þegar ég kom heim. Ég var vanalega á sjónum í einn og hálfan mánuð og svo kom einhver ókunnugur karl og fór að sofa hjá mömmu hans í nokkra daga og svo var hann bara farinn. Snævar var kominn vel á annað ár þegar við náðum smátengingu.“

Þögn.

„Það fór aldrei neinn neitt með hann þegar Snævar var kominn í leikskóla og fór það eftir því hvernig lá á honum. Ef leikskólakennari bauð honum til dæmis góðan daginn þá sagði hann jafnvel „ég vil ekki tala við þig í dag“. Það var borin virðing fyrir því. Hann hafði skoðun á því við hvaða leikskólakennara hann vildi tala.“

Páll segir að æska Snævars hafi litast af áráttu- og þráhyggjuröskun en Snævar talaði um það í viðtalinu auk þess sem hann greindist í æsku með kvíðaröskun og hefur hann tekið lyf við þessum röskunum frá því hann var barn.

Þetta var mjög erfiður tími sem hann gekk í gegnum.

„Það fór ekki að bera á þessu fyrr en um það leyti sem hann var að byrja í grunnskóla. Hann var hræddur við allan fjandann. Hann var hræddur um að það kæmu múmíur og hann átti von á því að það kæmu ýmis skrýmsli og annað upp úr klósettinu heima. Þetta var mjög erfiður tími sem hann gekk í gegnum. Það þurfti til dæmis alltaf að vera einhver með honum þegar hann fór á klósettið. Það var ekki fyrr en hann komst að hjá geðlækni þegar hann var sjö ára ára sem þetta fór að lagast. Þetta var erfitt ferli en alveg þess virði að ganga í gegnum það.“

Páll Jóhannesson

Páll segir að þessir erfiðleikar hafi tekið á þau hjónin á misjafnan hátt. „Þetta hafði allt önnur áhrif á mig heldur en mömmuna. Ég er miklu skapmeiri heldur en konan mín og átti ekkert til sem hét þolinmæði. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið erfiðara fyrir mig en ég átti erfiðara með að sýna þessu umburðarlyndi um tíma. Mamman aftur á móti hélt alltaf ró sinni og það virtist ekkert hagga henni í gegnum þessa erfiðleika.“

 

Mjög róstursamur tími

Vandamálin urðu önnur á unglingsárunum.

„Við foreldrarnir áttuðum okkur á því að hann vissi ekki hvað hann var í raun og veru. Hann gekk í gegnum það að vera samkynhneigður, tvíkynhneigður og gagnkynhneigður. Þetta voru mjög róstursamir tímar. Þegar hann kom út úr skápnum og fór að segja okkur að hann upplifði sig sem strák þá vorum við foreldrarnir búnir að átta okkur á því. Við biðum eftir að hann stigi þetta skref. Það var eitt og annað í fari hans sem við vorum búin að átta okkur á. Hann ólst upp sem stúlka og unglingsstúlka og fékk þá stór brjóst og hann vildi ekki vera með þau. Hann gerði allt til að láta þau sýnast minni. Þannig að það var eitt og annað sem gerði það að verkum að mann grunaði að það væri eitthvað. Kannski var það líka vegna þess að við höfðum kynnst vini hans sem er transkona í dag. Sennilega hefur það hjálpað okkur við að átta okkur á hvað var í gangi með Snævar. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að það hafi hjálpað honum að kynnast þessum vini sem er vinkona í dag. Hann var þá ekki einn.“ Páll er spurður hvort það hafi jafnvel haft enn meiri áhrif en ella að hafa kynnst henni á unglingsárunum upp á að koma út. „Ég veit það ekki. Ég upplifði það aldrei þannig. Ég þori ekki að fullyrða að það hafi haft einhver áhrif en ég er ekki viss.“

Þetta var erfitt fyrir okkur öll þegar hann var orðinn unglingur.

Páll segir að það sé alltaf erfitt þegar börnunum líður ekki vel og hafa ekki lausnir. „Maður verður dálítið vanmáttugur þegar maður sér barnið sitt þjást. Maður vissi ekki nákvæmlega af hverju hann þjáðist og þaðan af síður vissi maður hvernig maður ætti að bregðast við því. En við gátum frekar gert það þegar hann var yngri varðandi þráhyggjuna en þá vissum við að við gætum leitað aðstoðar hjá góðum geðlækni sem hjálpaði honum og okkur mjög mikið. Þetta var erfitt fyrir okkur öll þegar hann var orðinn unglingur.“

 

Aukið sjálfsöryggi

Páll segir að þegar Snævar talaði um að hann vildi fara í kynleiðréttingarferli hafi tvennt verið í stöðunni fyrir sig: Annaðhvort að snúa baki við honum eða standa með honum. „Maður snýr ekki baki við barninu sínu. Það er bara svo einfalt mál. En það er ekki auðvelt að vera búinn að ala upp stúlku sem varð svo drengur þegar upp er staðið. Þetta er ekki auðvelt en við höfðum ekkert val. Og við höfðum heldur enga heimild til þess að setjast í dómarasæti. Það er svo erfitt að setja sig í tilfinningar annarra. Þetta var erfitt fyrst. Ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það. En þetta þroskaði okkur foreldrana mjög mikið. Það kom aldrei upp sú hugsun í þessu ferli að þetta hafi verið rangt af honum. Við sáum það þegar hann fór í fyrstu aðgerðirnar og fór í allar þessar breytingar að hann fékk aukið sjálfsöryggi. Hann varð allt annar heldur en hann var. Það hafði greinilega mjög jákvæð áhrif á hann að ganga í gegnum þetta. Við hjónin þurftum að aðlaga líf okkar að nýjum aðstæðum; hætta að tala um dóttur okkar, segja skilið við gamla barnið og taka inn nýtt. Ég ætla ekki að segja að þetta sé erfitt ferli en það tekur samt á. En ef ég hefði töfrasprota þá myndi ég ekki vilja snúa til baka. Það sem skiptir eiginlega mestu máli í dag er að sjá að honum líður betur og þá er til einhvers að vinna.“

Páll Jóhannesson
Snævar.

 

Viðbrögð ömmunnar ótrúleg

Páll segist ekki geta neitað því að hafa óttast að Snævar yrði fyrir fordómum en eins og kom fram í viðtalinu við hann þá hefur hann ekki orðið fyrir fordómum þótt hann hafi heyrt ýmis komment sem má jú kannski kalla fordóma.

„Það var ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn sem ég upplifði að þjóðfélagið væri að taka þetta í sátt. Þannig að ég sjálfur hafði örugglega ákveðna fordóma gagnvart bæði samkynhneigð og þessu trans. Þegar Snævar fór í ferlið hugsaði ég ekki dags daglega um hvort hann yrði fyrir fordómum en maður hafði það á bak við eyrað að það gæti gerst. Það skrýtna við þetta var að þegar hann var að hefja ferlið þá komu ósjálfrátt fordómar hjá mér. Ég talaði um það við hann hvernig börn systkina hans myndu taka þessu og hvernig hann héldi að amma hans myndi taka þessu. Hausinn á mér var fullur af því að börnin yrðu rugluð af þessu og að amman yrði niðurbrotin. Síðan kom það bara á daginn að ég gat ekki haft meira rangt fyrir mér. Hvað varðar systkinabörnin þá var þetta bara búið á einum degi og viðbrögð ömmunnar, sem var þarna búin að missa nöfnu sína, voru ótrúleg. Þannig að þegar upp var staðið þá hafði unga og gamla fólkið minni fordóma gagnvart þessu heldur en ég.“

Páll Jóhannesson

 

Alltaf með verki

Páll segist aldrei hafa getað ímyndað sér þær afleiðingar sem stóra aðgerðin á kynfærum Snævars myndi hafa en eins og Snævar talaði sjálfur um þá voru teknir hlutar af lærvöðvum hans til að búa til getnaðarlim. „Hann hefur sjálfur sagt að það sé hlutur sem hann hafi ekki verið meðvitaður um og honum var ekki gerð fullkomlega grein fyrir því hvað í vændum var,“ segir Páll en Snævar vissi þó að hann fengi ör en að hann grunaði ekki að þetta yrði svona; hann vissi líka að hann þyrfti að fara í sjúkraþjálfun eftir aðgerðina en hafði samt sem áður ekki gert sé fullkomlega grein fyrir því hvernig þetta yrði.

Páll talar um áfall sem Snævar og móðir hans fengu á sjúkrahúsinu þegar í ljós kom hversu mikið hafði verið tekið af lærvöðvunum á öðrum fæti hans.

Ég held þetta hafi búið til stórt sár í sálarlífi Snævars.

„Þegar hann vaknaði eftir aðgerðina þá var þetta bara miklu meira heldur en hann óraði fyrir. Þeim bregður sem sjá afleiðingar aðgerðarinnar á lærinu. Þetta er miklu meira inngrip heldur en ég hefði nokkurn tímann órað fyrir. Þannig að það er ekki skrýtið að þetta sé að angra hann í dag. Ég er ekki viss um að það hafi verið gerð nein mistök en mér finnst eins og læknateymið sem stendur á bak við þetta allt saman hafi hreinlega ekki upplýst hann nógu vel um hvað í vændum væri. Að búa til tippi úr stórum stykkjum úr lærvöðvum; maður bara áttaði sig ekkert á því hvað þetta var. Það var svo einfalt að heyra þetta og virtist verða einfalt að gera þetta en þetta var miklu meira inngrip heldur en mig óraði fyrir. Konan mín fylgdi Snævari í þessar aðgerðir og var með honum á spítalanum og hún talar um það enn þann dag í dag þegar hann vaknaði eftir þessa stóru aðgerð. Hún gleymir aldrei þeim viðbrögðum og svipbrigðum sem komu fram hjá Snævari þegar hann áttaði sig á því hvað var í gangi.“ Þögn. „Ég held þetta hafi búið til stórt sár í sálarlífi Snævars. Þegar hann vaknaði upp eftir þessa aðgerð var það miklu dramatískara heldur en nokkurn óraði fyrir. Þetta er mjög stórt í alvöru talað. Það leynir sér ekkert að hann er alltaf verkjaður í fætinum en þó mismikið.

Páll Jóhannesson

Ég held að fólk hafi hreinlega ekki áttað sig á að þetta ætti eftir að draga svona mikinn dilk á eftir sér. Ég spyr sjálfan mig oft að því í dag hvernig það megi vera að fræðslan og upplýsingaflæðið gagnvart þessu transfólki sem gengur í gegnum stórar aðgerðir sé ekki meira. Ég er ekki að segja að Snævar hefði ekki gengið í gegnum þetta þótt hann hafi vitað um afleiðingarnar heldur að hann var greinilega ekki tilbúinn andlega undir það sem gerðist. Þetta hefur haft mikil áhrif á hann bæði andlega og líkamlega. Það þýðir ekki að reyna að ætla að skella skuldinni á lækna og annað en einhvern verginn er það samt þannig að manni finnst eins og að þeir hljóti að hafa vitað um þessa áhættuþætti og hefðu átt að upplýsa fólk um að það gæti þurft að eiga í þessu alla tíð. Ef þeir hefðu ekki getað gert það þá eru þetta klárlega mistök.“

Páll endurtekur að það sé allaf erfitt að sjá börnin sín þjást sama hvort það séu kornabörn eða fullorðið fólk. „Það er alltaf erfitt og hefur áhrif á mann en einhvern veginn nær maður samt og reynir endalaust að halda haus; það er að segja að láta þetta ekki brjóta sig niður því að það væri ekki til þess að hjálpa honum. Það má líka þessu saman við þegar góð vinkona okkar hjóna missti manninn sinn þegar hún var ung og með fjögur lítil börn. Hún þurfti að ganga í gegnum alla erfiðleikana og sársaukann; hún þurfti að halda höfði svo börnin yrðu örugg. Og það er kannski það sem við þurfum alltaf að gera gagnvart Snævari; hvaða áhrif hefði það á hann ef við brotnuðum niður?“

 

Setjast ekki í dómarasæti

Páll er spurður hvað hann hafi lært af því að hafa átt dóttur sem glímdi í æsku við áráttu- og þráhyggjuröskun sem og kvíðaröskun og átt svo dóttur sem varð sonur.

„Númer eitt, tvö og þrjú hef ég kannski lært að setjast ekki í dómarasæti. Taka því ekki sem gefnu að allt sé óeðlilegt heldur að allt gangi snuðrulaust fyrir sig. Fólk þarf að hafa fyrir lífinu á mismunandi hátt. Við fengum okkar skammt þegar hann var barn og var með þessa áráttu- og þráhyggjuröskun og kvíðaröskun sem ég þekkti ekki fyrir. Þetta kenndi okkur að taka á þeim vandamálum. Og síðan þegar hann gekk í gegnum þetta sem unglingur að reyna að átta sig á því hvort hann væri samkynhneigður, gagnkynhneigður eða hvað þá kenndi það mér gríðarlega mikið og sérstaklega það að setja ekki sjálfan sig á háan stall og alls ekki að setjast í dómarasæti.“

Páll Jóhannesson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -