„John og Lína voru einstaklega flott hjón. Lína stórglæsileg, eldklár, einbeitt, harðdugleg og skemmtileg. John fjallmyndarlegur, með lokkana sína út um allt, brosið breitt og hláturinn smitandi. Og líka eldklár og duglegur, fjölhæfur og einhvern veginn gat allt sem hann tók sér fyrir hendur. Og sem hjón fullkomnuðu þau hvort annað og voru samstiga og samhent í öllum sínum verkefnum,“ skrifar Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, um vin sinn Johns Snorra Sigurjónsson, sem talinn er af á ´fjallinu K-2. Páll rifjar upp þá góðu samleið sem John Snorri og Lína Móey áttu þar til yfir lauk.
Saman að sigra
„Lína Móey var gift fjallgöngumanni sem vildi takast á við mestu áskoranir sem hægt er að takast á við í fjallamennsku. Hún gaf honum frelsi til þess og veitti honum allan stuðning sem hún gat. Verkefnið hans varð um leið verkefnið hennar. Saman voru þau að sigra hæstu tinda heims. Þegar John Snorri gekk á Lhotse, fjórða hæsta fjall heims, flaug Lína út og fór á móti honum og gekk áleiðis í grunnbúðir Everest með litla guttann þeirra á öxlinni og annað á leiðinni undir belti. Jafnvel Guðrún Þórarinsdóttir sem á 19. öld gekk úr Hvanndölum fjöruna yfir í Héðinsfjörð um hávetur með lítið barn á öxlinni og annað undir belti hefði verið stolt af slíku ferðalagi. Og þegar John sigraði K2 sumarið 2017 var Lína fyrst til að fagna honum og um leið gefa honum leyfi til að klífa Broad Peak, tólfta hæsta fjall heims bara nokkrum dögum síðar“.
Náttúrubarn
„John Snorri var magnaður fjallamaður. Náttúrubarn með mikla aðlögunarhæfni. Hann hafði oft sýnt það og sannað og vakið aðdáun og undrun í heimi háfjallafólks og áunnið sér virðingu á skömmum tíma, meira að segja meðal sjerpanna sem þykja einstakir háfjallagarpar.
John Snorri hafði á skömmum tíma klifið fjögur af 14 áttaþúsund metra fjöllunum og stefndi á að klára þau öll. Auk þess hafði hann klifið fjölmörg önnur fræg fjöll, til að mynda Matterhorn þar sem hann skokkaði úr bænum Zermatt upp á hæsta tind á þessu fræga fjalli og til baka á rétt rúmum fjórum tímum“.
Trúðum á kraftaverk
„Johns Snorra er nú sárt saknað af fjölskyldu, ættingjum og vinum. Um tíma trúðum við á kraftaverk og hann kæmi gangandi niður í grunnbúðir K2, eftir að eitthvað hafði greinilega farið úrskeiðis að morgni laugardags 6. febrúar sl. Nú eigum við ekki þá von lengur. K2 – fjall fjallanna, The mountain of the mountains – vildi ekki hleypa sumardrengnum okkar bjarta heim í faðm fjölskyldunnar. Slík hafa orðið örlög margra sem klífa hæstu fjöll heims. Það er sárt og það er vont að vita ekki atburðarásina alla. Þegar John Snorri kleif K2 2017 höfðu færri komist á tind fjallsins en hafa farið út í geim. Fyrir vetrartímabilið núna hafði enginn komist á tind K2 að vetrarlagi. Vetraraðstæður á K2 eru þær erfiðustu í heiminum sem hægt er að hugsa sér. Frostið um 50 til 60 gráður, vindhraðinn getur orðið ógnvænlegur og þunna loftið yfir 8.000 metrunum gerir mannlegt líf nánast óbærilegt. Fyrir marga getur verið illskiljanlegt að leggja í slíkan leiðangur. Og það er kannski bara allt í lagi“.
Meira en fjallabaktería
„Maður þarf ekki að skilja allt. Maður þarf ekki endilega að hafa skoðanir á öllu. John var eina mínútu að útskýra fyrir mér að hann yrði að takast við á við þetta verkefni. Þetta var allt í beinunum í honum og blóðinu. Þetta var svo miklu meira en fjallabaktería sem sum okkar fá. Þetta var ástríða, köllun sem hann varð að svara. John Snorri hefði vel getað orðið geimfari. Hann hefði ekki skorast undan því að að vera sendur í geimskutlu á móts við risastóran loftstein sem stefndi á jörðina. Hann hefði gert það til að bjarga mannkyninu ef hann hefði getað. Þannig hafði hann aðra sýn en við flest hin. Við hefðum legið uppi í sófa með fjarstýringuna af sjónvarpinu og fylgst með fréttum af geimskutlunni. En þótt John hafi kosið að takast á við áskoranir sem voru okkur hinum ómöguleg þá var hann fyrst og síðast elskandi eiginmaður, umhyggjusamur faðir og frábær vinur“.
„Og nú er sagan þeirra orðin sagan hennar Línu. Ég er viss um að það verður góð og falleg saga. Og þó að John sé ekki lengur á meðal okkar í lifandi lífi, brosandi og geislandi glaður, þá varðveitum við í hjarta okkar minningar um sannkallaðan afreksmann en ekki síður einstakan mannvin og góða manneskju,“ skrifar Páll Guðmundsson. Grein hans birtist á mbl.is en hann gaf Mannlífi góðfúslega leyfi til að birta hana í heilu lagi.