Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Páll skipstjóri: „Fyrir ári síðan greip aðili nákominn mér, til örþrifaráðs til að þóknast öðrum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér líður stundum eins og ég hafi óvart lent í lélegri bíómynd,“ skrifar Páll Steingrímsson, skipstjóri Samherja, á Facebook síðu sinni í dag. Í færslunni fer Páll yfir “símamálið“ en gögn úr síma hans láku í fjölmiðla. Segir hann að símanum hafi verið stolið og honum boðinn friður, drægi hann kæruna til baka. Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Kæru ættingjar, vinir og samstarfsmenn.
Mér líður stundum eins og ég hafi óvart lent í lélegri bíómynd enda sú atburðarás sem hófst fyrir ári síðan lyginni líkust. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er ekkert handrit, engin bíómynd ekki þáttur á Netflix. Fyrir ári síðan greip aðili nákominn mér, þjakaður af veikindum, til örþrifaráðs til að þóknast öðrum.

Ég endaði á görgæslu og í öndunarvél og ef ekki væri fyrir stærð mína og hversu líkamlega hraustur ég er og fyrir framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk væri ég ekki hér. Við þessar aðstæður var sími minn tekinn og honum komið í hendur starfsmanns ríkisfjölmiðils okkar Íslendinga sem sá um að afrita hann og efnisbútum úr samtölum mínum við samstarfsmenn og vini, sem þar var að finna, dreift á milli valinna fjölmiðlamanna sem síðan hafa gert sér mat úr honum, nú síðast í lok desember 2021. Gefa sömu fjölmiðlamenn í skyn að þeir berjist fyrir göfugri æðri markmið en okkur almúganum eru skiljanleg. Nú þegar þeir vita upp á sig sökina og við færumst nær því að varpa ljósi á sannleikann reyna þeir að vekja samúð hérlendis sem erlendis með sjálfum sér, sem fórnarlömb “samsæris”, og reyna að sama skapi að skapa sektarkennd hjá þeim sem misgert var við.

“Samsærið” gekk út á að Samherji, minn vinnuveitandi, gerði út sérstaka deild til að klekkja á fjölmiðlamönnum og samstarfsmönnum þeirra og reyndi að hafa áhrif á kosningar í félagsmálum og stjórnmálum.

Ég tók ákvörðun í nóvember 2019, eftir að hafa horft á Kveiksþátt um sturlaðar ásakanir í garð fólks sem ég hef þekkt um árabil og bara af góðu, að ég vildi bjóða fram mína krafta og tjá mig opinberlega um Samherja, en þó aðeins á grundvelli staðreynda. Því vann ég náið með fólki sem hafði aðgang að öllum upplýsingum um ásakanir fjölmiðlamannanna og hins svokallaða uppljóstrara.
En hvað gerði ég sem kallaði þennan óskapanað yfir mig? Ég leiðrétti rangfærslur og spurði spurninga. Þeim var aldrei svarað heldur var lokað á mig á samfélagsmiðlum, vísað í “gögnin” en aldrei hvaða gögn þó ég þráspyrði, og oft spurningum mínum eytt út. Gekk ég ákveðið fram um að fjölmiðlamennirnir sem stóðu að baki Kveiksþættinum svöruðu beinskeyttum spurningum mínum um vinnubrögð sín og rök. Höfðu þeir ekkert áþreifanlegt í höndunum heldur réttlættu gjörðir sínar með tilvísun í æðri tilgang og óljóst göfuglyndi. Þegar ég spurðir um kjarnann, bentu þeir á hismið. “Gögnin tala sínu máli.” Eða “þjóðin hefur sagt sitt”. En hvaða gögn og hvar sagði þjóðin eitthvað og hvað er þjóðin?

Þegar ekki dugði að eyða út athugasemdum eða svara mér með orðunum “gögnin tala sínu máli” hafa þeir farið í mig persónulega. Ég var sakaður um að vera ekki höfundur greina minna. Myndi einhver ásaka Bubba Morthens að vera ekki höfundur ljóða sinna eða laga þó strafsetning sé ekki hans sterkasta hlið? Ég gagnrýndi vinnubrögðin en var jafnharðan ásakaður um að fara í persónur þó aldrei hafi verið hægt að finna því stað. Ég spurði um gögn og rökstuðning en var ásakaður um árásir.

- Auglýsing -

Eftir að mér var komið í öndunarvél og síminn afritaður byrjuðu þó árásirnar af alvöru. Snúið var út úr brotakenndu upplýsingunum sem fjölmiðlamennirnir fengu og persónulegum skoðunum mínum og þeirra sem ég átti í einkasamskiptum við um menn og málefni var snúið upp í annarleg afskipti af hálfu Samherja af stjórnmálum og félagsmálum. Blásið var til málstofa og margsinnis leitað til samtaka og fjölmiðla erlendis til að bera sem víðast ásakanir í minn garð.

Ég veit ekki hvort skrifa eigi það á skilningsleysi þessa hóps á tungumálinu okkar eða illvilja en útúrsnúningar þeirra á myndlíkingum eru landamæralausar. Tungumálið okkar er auðugt og með öðrum orðum blása myndlíkingar enn meira lífi í frásagnir. Myndlíkingar samanstanda af þremur hlutum: raunverulegur þáttur, ímyndaður þáttur og tengingin þar á milli. Notkun þeirra er því til þess fallin að efla og auka áhrif þess sem sagt er. Að “stinga og snúa” eða “strá salti í sárið” er, eins og ég hef útskýrt, myndlíking á því að nudda fólkinu upp úr þeirri staðreynd að þau hafa aldrei geta svarað einföldum, beinskeyttum spurningum mínum um vinnubrögð sín.

Eins og ég hef áður sagt tók ég þá ákvörðun um að halda mig til hlés meðan málið er í rannsókn lögreglu. Ég kærði engan einstakling heldur aðeins stuld á símanum mínum. Rannsókn lögreglu hefur greinilega leitt hana á þann stað að fjórir fjölmiðlamenn eru með stöðu sakbornings fyrir eitthvert athæfi. Ólíkt öllum öðrum landsmönnum sem endað hafa, með réttu eða röngu, í þeirri stöðu að vera sakborningar, hafa fjölmiðlamennirnir barist á hæl og hnakka um að mæta í skýrslutöku. Í orði hafa þeir sagst ætla að mæta sallarólegir í skýrslutökur en í verki reyna þeir alla mögulega og ómögulega lagaklæki til að komast undan því, en segjast jafnframt engin lög hafa brotið og séu ekki yfir það hafnir að ræða við lögreglu. Gjörðir þeirra segja hins vegar aðra sögu. Sú staðreynd að þegar heimildarmaður fjölmiðlamannanna var yfirheyrður mörgum mánuðum eftir stuldinn hafi fjölmiðlamennirnir verið í samskiptum við hann, haft síma hans í fórum sínum og í kjölfarið var mér boðið að ég fengi frið frá ákveðnum hópi fjölmiðlamanna ef ég myndi draga kæruna til baka, þetta segir nefnilega allt annað en “ég hef engin lög brotið.”
Ég er bara venjulegur maður sem hef orðið að þola harða atlögu að heilsu minni og æru af óvenju ósvífnum fjölmiðlamönnum sem ég vil meina að starfi eins og glæpamenn. Fólki af þessu sauðahúsi vil ég helst mæta fyrir dómstólum í von um að ná fram því réttlæti að fá að njóta friðhelgi einkalífs sem allir borgara landsins eiga rétt á og varið er í stjórnarskrá.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -