Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Pálmi yfirlæknir á Landakoti segir það ekki ósigur þó fólk hafi dáið: „Þetta voru náttúruhamfarir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landakoti, segir afar þungbærum kafla í sögu Landakotsspítala að ljúka nú þegar nærri fimmtíu sjúklingar eru að koma tilbaka eftir lífshættulega Covid-veirusýkingu. Hópsmitið á sjúkrahúsinu kostaði hins vegar fimmta hvern sjúkling lífið en samtals létust tólf Íslendingar vegna sýkingarinnar á Landakoti.

Líkt og aðrir stjórnendur og yfirlæknar Landspítalans bendir Pálmi á að Landakot sé vonlaus húsakostur fyrir öldrunarþjónustuna sem sé ein af megin ástæðum fyrir hópsmitinu. Orsökin séu þó samverkandi þættir og þá spilar sú lífsnauðsynlega þjónusta sem aldraðir sjúklingar þurfa á að halda sína rullu. Pálmi fjallar um málið í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

„Þungbærum kafla í sögu Landakotsspítala er nú að ljúka, þar sem tæplega fimmtíu sjúklingar sýktust af lífshættulegri veirusýkingu og fimmti hver galt með lífi sínu. Einnig sýktust liðlega fimmtíu starfsmenn og veiktust nokkrir þeirra mjög alvarlega. Það er engin betri samlíking til en að um náttúruhamfarir hafi verið að ræða, á pari við snjóflóð, jarðskjálfta eða sinueld. Það mildaði sársaukann að skynja einstaka starfsgleði og samtakamátt starfsmanna Landspítalans í þessari snörpu baráttu,“ segir Pálmi og heldur áfram:

„Fyrsta skoðun bendir á fjölmörg samverkandi atriði sem orsök; frá skæðri veiru til samfélagssmits á háu stigi til húsnæðis sem aðeins magnaði upp eiginleika veirunnar. Þá er starfsemin bundin við nána umönnun fjölveiks eldra fólks, sem var í afturbata og endurhæfingu. Það þýðir að fólk er hvatt til að klæða sig, hreyfa sig og borða saman í matsal. Erlendis er það vel þekkt undir slíkum kringumstæðum að eitt smit þýðir að fólk á hálfu og heilu deildunum smitast. Og svo varð hér. Það afléttir ekki kvöðinni á því að bregðast við og leita leiða til að lágmarka áhættu fólks á sjúkrahúsum á tímum lífshættulegra farsótta.“

Landspitali hefur sjálfur rannsakað hvað fór úrskeiðis og birt skýrslu þess efnis. Fjölmiðlamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að vera of aðgangsharðir æðstu mönnum Landspítalans vegna málsins en þeir aðstandendur sem misstu sína nákomnu í hópsmitinu sem Mannlíf hefur rætt við eru á þeirri skoðunar að auðmýkt hafi skort í svör stjórnendanna fram til þessa.

Pálmi segir aðstæður og þjónustustig ásamt háöldruðum sjúklingahópi með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma vera megin orsakavaldinn fyrir því hvernig fór á Landakoti. „Þetta fólk er að jafnaði mjög veikt. Það er oftar en ekki háaldrað, með fjölmarga sjúkdóma samtímis, á mörgum lyfjum og með færnitap sem getur verið vitrænt eða skert hreyfifærni. Hækkandi aldur er ígildi sjúkdóms sem veiklar flest líffæri og mótstöðukraft. Þarna háir fólk oft úrslitabaráttu upp á líf og dauða og ef ekki það, þá um sjálfsbjargargetu og hvort hún verði endurheimt til sjálfstæðrar búsetu eða ekki. Ef ekki, þá getur fólk þurft að yfirgefa eigin heimili og þiggja dvöl í hjúkrunarrými. Þjónustan við fólkið er verðmæt. Það er ekki ósigur þó að fólk deyi eða þurfi að flytjast á hjúkrunarheimili ef allt hefur verið gert sem mögulegt er og mætir óskum manneskjunnar,“ segir Pálmi og bætir við:

- Auglýsing -

„Markmiðið er að hámarka lífsgæði á hverjum tíma og líkna ef að kveðjustund er komið. Þetta er sjúkrahússtarfsemi sem er allt annars eðlis en sú starfsemi sem veitt er þeim sem eru í langtímadvöl á hjúkrunarheimilum. Það er bráðaverkefni að gera allar þær breytingar á umhverfi starfseminnar á Landakoti sem mögulegt og trúi ég því að það verði gert. En þó að slíkar umbætur verði gerðar duga þær þó aðeins til skamms tíma.“

Pálmi segir það óboðslegt að aldraðir sé aldrei boðinn besti valkosturinn fyrir öldrunarþjónustu heldur þurfi alltaf að sætta sig við annan ef ekki þriðja besta kostinn í stöðunni. Hann vill sjá nýja byggingu við Hringbraut sem verði tileinkuð öldrunarþjónustunni. „Slíkt hús gæti staðið sér en tengt meðferðar- og rannsóknarkjarna með undirgöngum, þannig að ekki þyrfti lengur að senda fólk fram og til baka bæjarhluta á milli í rannsóknir, aukinheldur mjög veikt og lasburða fólk. Í því fælust ekki aðeins aukin gæði fyrir fólkið heldur einnig fjárhagsleg hagkvæmni og samlegðaráhrif vegna nálægðar. Allt sem þarf er vilji til góðra verka og slíkur vilji var bersýnilegur í kynningunni á skýrslunni um hópsmitið á Landakoti. Slíkum viðbúnaði mætti líkja við snjóflóðavarnir í kjölfar snjóflóðs og væri þá okkar elsta og veikasta fólki á hverjum tíma góður og eðlilegur sómi sýndur,“ segir Pálmi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -