Útgöngubanni verður ekki aflétt í París á mánudaginn þótt slakað verði á reglum á öðrum svæðum Frakklands. Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, kynnti áætlun ríksisstjórnarinnar um afléttingu útgöngubanns í dag og sagði að landið yrði skorið í tvennt og farið eftir því hvar fjöldi smita væri mestur. Ríkisstjórnin hefur látið gera kort þar sem svæðum er skipt upp í rauð og græn svæði eftir fjölda smita og á rauða svæðinu eru París og nærliggjandi héruð, á græna svæðinu afgangur landsins.
Á báðum svæðunum verða grunnskólar og einhverjar verslanir og þjónustufyrirtæki opnuð aftur á morgun og sömuleiðis almenningsgarðar á grænu svæðunum, en Parísarbúar verða að bíta í það súra epli að fá ekki aðgang að görðunum sínum. Þeir verða þó að bíða enn lengur eftir að komast á sín elskuðu kaffihús því Philippe sagði að kaffihús og veitingahús gætu hugsanlega fengið að opna á grænu svæðunum í júní, ef smit héldust í lágmarki, en minntist ekki einu orði á opnanir slíkra staða í París.
Öðrum hömlum, sem verið hafa í gildi síðan 17. mars, verður aflétt smám saman á næstu vikum að sögn forsætisráðherrans.
Frakkland er eitt þeirra Evrópuríkja þar sem dánartíðnin er mest, alls hafa 25,800 manns látist af völdum Covid-19 á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum, en fjöldi dauðsfalla hefur farið minnkandi á síðustu dögum.