Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur varað fólk við því að nota peningaseðla þar sem hugsanlega geti þeir dreift kórónaveirusmiti. Hvetur stofnunin til þess að fólk sleppi notkun þeirra og noti snertilausar greiðslur með kortum í staðinn.
Í yfirlýsingu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni sendi frá sér á mánudagskvöld kemur fram að veiran geti lifað á yfirborði seðlanna í nokkra daga. Ef fólk þurfi nauðsynlega að nota seðla hvetur stofnunin til rækilegs handþvottar eftir snertingu við þá.
Englandsbanki tók undir þessa yfirlýsingu og sagði seðla geta borið smit á milli fólks, handþvottur væri því nauðsynlegur eftir að þeir væru handfjatlaðir. Málsvari bankans tók þó fram í samtali við The Telegraph að yfirborð seðlanna væri ekki líklegra til að bera smit á milli fólks en allir aðrir snertifletir sem margir kæmu við á hverjum degi, svo sem handrið, hurðarhúnar og kortaposar.
Bankar í Kína og Suður-Kóreu hófu að sortera, sótthreinsa og einangra notaða peningaseðla í síðasta mánuði til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar en ekki hefur frést af því að önnur lönd hafi fylgt fordæmi þeirra.
Ekki er enn ljóst hversu lengi veiran getur lifað utan mannslíkamans en miðað er við að minnsta kosti fjórtán daga.