Í fyrra gerði stéttarfélagið Efling 550 kröfur vegna vangoldinna launa. Að meðaltali voru kröfurnar upp á 423 þúsund krónur. Í heild nema kröfurnar 233 milljónum.
Þetta kemur fram á vef Eflingar. „Þetta er peningurinn sem er af einskærri ósvífni stolið af félagsmönnum okkar. Með einbeittum brotavilja, oftar en ekki,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar.
„Það er ekki í lagi að atvinnurekendur geti leikið sér með að stela af fólki laun. Þetta er einfaldlega glæpsamlegt.“
„Þetta eru mikið til sömu fyrirtæki og við rukkuðum árið á undan. Það er mikil þörf á að gera þessa háttsemi refsiverða,“ er þá haft eftir Tryggva Marteinssyni kjaramálafulltrúa hjá Eflingu.
Mynd / Hallur Karlsson