Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður segir spillingu ríkja á Íslandi og boðar breytingar verði hann forseti. Í viðtali við Mannlíf segir hann frá pöddusöfnun í æsku, skemmtilegum samskiptum við Björgólf Thor og erfiðu gjaldþroti. Hann viðurkennir að honum hætti til að taka „örlítið sterkt til orða“.
„Ég er ósammála því að ég sé braskari því það er mikill misskilningur að verðbréfamiðlun snúist um brask.“
Guðmundur var ungur er hann hallaðist að viðskiptum og hefur hann víða komið við, bæði hérlendis og erlendis. Sum verkefnin hafa endað með gjaldþrotum sem hann kennir engum öðrum um en sjálfum sér. Aðspurður hvort gjaldþrot sé gott veganesti í embætti forseta Íslands telur Guðmundur svo geta verið. „Persónulega finnst mér það vera meðmæli ef fólk hefur tekið einhverja áhættu í lífinu, jafnvel þó að sumt hafi mistekist. Sá sem gerir aldrei mistök hefur aldrei gert neitt sem máli skiptir. Ég hef tengst fjölda fyrirtækja á Íslandi og um allan heim sem blómstra og fjöldi manns vinnur hjá í dag,“ segir Guðmundur ákveðinn.
„Gjaldþrot koma því miður fyrir og stundum veðja menn á rangan hest og verða þá að taka því. Það er enginn sem lýsir yfir gjaldþroti sér til gamans. Við eigum ekki að úthrópa þá sem hafa orðið fyrir þessu heldur frekar styðja við bakið á þeim því þetta er alls ekki auðvelt. Gjaldþrot hefur skollið harkalega á mér og verið erfið lífreynsla fyrir mína fjölskyldu.“
Þegar Guðmundur er spurður út í ýmis orð sín sem hann hefur látið flakka í gegnum tíðina vísar hann í galla sinn um að taka stundum of sterkt til orða. Þannig hefur hann til dæmis sagst ekki hika við að kenna fólki að svíkja undan skatti og segir Guðmundur það útilokað að hann muni beita sér fyrir slíku í embætti forseta. „Eins og ég sagði þá á ég það til að taka örlítið of sterkt til orða í hita leiksins. Ég hef aldrei brotið reglur um viðskipti. Það þarf að búa svo um hnútana í skattkerfinu í öllum löndum að ekki sé hægt að svíkja undan skatti því annars mun fólk nýta sér þær músarholur sem finnast. Ég vil að allir dragi vagninn en elítan komist ekki upp með að svindla á skattkerfinu á meðan hinn almenni borgari greiði upp í topp,“ segir Guðmundur.
Lestu viðtal við verðbréfasalann sem vill verða forseti í Mannlífi sem kom út í dag.