- Auglýsing -
Íbúi í leiguíbúð Naustavarar við Boðaþing í Kópavogi veiktist af Covid-19. Lög um persónuvernd komu í veg fyrir að stjórnendur dvalaríbúðanna tilkynntu opinberlega um smitið eftir að sóttvarnarlæknir tók málið yfir. Smitinu var því í raun leynt en staðfest við þá sem spurðu.
Íbúinn greindist með COVID-19 fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Sigurður Garðarsson, forstjóri Naustavarar, systurfélags Hrafnistu, staðfestir smitið og segist hafa tilkynnt það til sóttvarnarlæknis. Þaðan fengust þau skilaboð að stjórnendur og starfsfólk Boðaþings ættu ekkert að aðhafast meira vegna málsins. Fréttatilkynningin sett ofan í skúffu vegna persónuverndarsjónarmiða. „Það var vissulega sjónarmiðið í þessu og við fengum þær skýringar frá sóttvarnarlækni. Þetta eru leiguíbúðir aldraðra en um þeir gilda sömu sjónarmið eins og um hverja aðra leiguíbúð og við þannig eins og hver annar leigusali. Í þessu tilviki létum við sóttvarnarlækni vita sem tók yfir málið og okkur sagt að aðhafast ekkert meira. Við máttum ekki upplýsa hver væri smitaður eða upplýsa frekar um málið,“ segir Sigurður.
Hrafnista Boðaþing í Kópavogi tók til starfa í mars árið 2010. Þar býður Naustavör öldruðum leiguíbúðir á vegum Sjómannadagsráðs. Hugmyndin að baki Boðaþingi er að veita íbúunum þann möguleika að dvelja í sjálfstæðri búsetu eins lengi og kostur er.
Aðspurður segir Sigurður að sóttvarnaryfirvöld hafi ekki lagt neinar línur til sín
um sóttkví meðal íbúanna eftir að smitið varð ljóst, öfugt við það sem gert var á Ísafirði þegar aldraður íbúi Hlífar greindist jákvæður fyrir tæpri viku. Bæði heimilin eru með sambærilegt rekstrarform.
„Við vorum ekki upplýst um hverjir fóru í sóttkví, það voru einhverjir fáir ef nokkrir því umgangur var lítill,“ segir Sigurður.
Íbúar í nærliggjandi íbúðum fréttu á skotspónum að svona væri komið fyrir nágranna þeirra. Upplýsingar um Covid-smit fengust staðfestar á skrifstofu Hrafnistu þrátt fyrir að opinber tilkynning hafi ekki verið send út.
„Ég er svo hissa á því hversu ólíkt var tekið á málum á Boðaþingi og Hlíf. Misræmið er augljóst. Íbúarnir eru auðvitað þarna á eigin ábyrgð, eru í raun bara heima hjá sér. Við fengum þetta staðfest á skrifstofunni einhverjum dögum seinna. Ég fékk aldrei neitt annað á tilfinninguna en að á Boðaþingi hafi mönnum verið mjög áfram um að gera allt saman mjög vel og rétt. Hjá þeim var aldrei ásetningur að leyna einhverju. Búið var að kalla saman neyðarstjórn sem vinna átti samkvæmt áætlun en það var víst stoppað. Öðrum íbúum var ekki tilkynnt um smitið og persónuvernd varð til þess að þessu var í raun leynt,“ segir sonur íbúa sem býr í Boðaþingi sem ekki vill láta nafn síns getið.