Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Pétur Runólfsson skipstjóri: „Ég fór með hendi í pokann og þá komu bara fætur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Á rækjunni fékk ég upp mann. Við fengum hann í trollið,“ segir Pétur Runólfsson, skipstjóri í Bolungarvík, í viðtali við Sjóarann, hlaðvarp Mannlífs. Pétur rifjar þarna upp þegar hann var á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi og fékk lík af manni í trollið.

Hvernig í ósköpunum er sú tilfinning?

„Hún er ekki góð. Hún er djöfulleg. Það hefur komið fyrir að menn hafi fengið sel. Dauðan. Og það er slæm lykt af þessu. En svo var þetta. Þegar við vorum að skola þá gaus upp þessi lykt; ábyggilega selur í trollinu. Svavar var með mér, tengdasonur minn. Ég fór með hendina í pokann og ætlaði að toga í og taka frá og þá komu bara fætur. Manni kólnaði svolítið á bakinu.

Þetta er það versta sem ég hef lent í.

Svo komum við með þetta í land. Sem betur fer er ekki gert eins og í gamla daga þegar menn hefðu hent þessu út aftur; ég veit ekki hvort það sé satt. Ég fann ekki fyrir þessu fyrr en ég kom heim. Þá var ég einn. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Það var alveg martröð. Þá fór ég að hugsa um allt fólkið; þá kviknaði á perunni og ég hugsaði um aumingja fólkið að lenda í þessu. Og þá fór ég að hugsa um hvernig mömmu hefði liðið þegar þeir fóru. Maður svaf ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er það versta sem ég hef lent í.“

 

Pabbi drukknaði

- Auglýsing -

Faðir Péturs Runólfssonar, Bolvíkings og sjómanns sem verður 83 ára í sumar, fórst með Baldri, 26 ára gamall. Sonurinn var þá eins árs. Pétur segir að Baldur hafi verið átta eða níu tonna bátur.

„Ég var sendur norður í Jökulfjörð til afa og ömmu.“

Í fóstur?

- Auglýsing -

„Já, sennilega í einhvern tíma. Svo giftist hún aftur,“ segir hann og á við móður sína.

Hvað var hann lengi í Jökulfirði?

„Ég veit það ekki vel. Ég man óljóst eftir því. Ég man þegar þeir voru að sækja mig yfir; þá voru þau farin að búa úti í Skálavík; á Breiðabóli í Skálavík. Pabbi hafði verið formaður á bát í víkinni; eða sá sem ég kalla pabba.“

Fósturfaðir hans.

„Já, ég þekki ekki annað. Það eina sem ég man þegar við vorum að koma yfir, voru fánalitir á pústinu. Ætli ég hafi ekki verið svona fjögurra ára.“

Ég fór niður á bryggju eins og strákar gerðu.

Svo fór Pétur á sjóinn, 14 ára gamall.

„Ég fór niður á bryggju eins og strákar gerðu; bátarnir voru að tygja sig á síld. Skipstjórinn spurði hvort ég vildi ekki fara á síld og ég sagði bara „já“. Ég fór heim og sagði mömmu að ég væri að fara á síld og hún sagði að hún hefði óskað sér að ég hefði valið eitthvað annað. Pabbi drukknaði.“

Pétur segir að móðir sín hafi tekið til fyrir hann föt og svo fór hann á síld.

„Þetta var ægilega gaman og mikið ævintýri.“

Svo lentu þeir í óhappi.

„Við eyðilögðum nótina og það tók svo langan tíma að gera við hana. Það var ekki mikil síld þetta sumar. Þetta var þess virði, því maður hafði gaman af þessu.“

Sjórinn lokkar og laðar og á sjónum hefur Pétur Runólfsson verið meira og minna síðan. Hann kláraði barnaskólann. Skylduskólann. Tók svo síðar pungapróf.

Sæfari frá Súðavík. Pétur var þar um hausttíma.

„Þórður Óskarsson var með hann. Hann var Súðvíkingur. Við rerum með honum tveir, suður á reknet. Svo þegar honum var skilað aftur vestur, þá vorum við tveir hjá honum veturinn og sumarið. Fórum á vetrarvertíð og svo síldina. Þegar ég hætti þar fór ég á Hallveigu Fróðadóttur. Var þar í tvö ár held ég. Við vorum þarna þrír frændur; allir systkinabörn. Ég, Garðar og Gísli; Garðar Hallgrímsson og Gísli Ólafsson.

Þegar ég hætti á Hallveigu fórum við fjórir yfir á Víking frá Bolungarvík; mig langaði á síld.“

Svo var Pétur síðar á Guðbjörginni. Hann var líka í stuttan tíma á bát sem hann átti með fósturföður sínum og bræðrum hans.

Svo fór ég að gera út sjálfur.

„Svo fór ég. Ég var á bátunum hérna úr víkinni í nokkurn tíma; flestöllum bátum úr víkinni. Ég hef ekki gert mikið annað en þetta. Svo var ég lengst með þeim feðgum, Hálfdáni Einarssyni og Einari Hálfdánarsyni. Í 17 ár eða meira. Ég var 15 ár held ég með Hálfdáni, sem hann var skipstjóri, og svo fór hann í land og þá tók Einar sonur hans við. Þetta voru tvö ár. Svo fór ég að gera út sjálfur.“

Óli ÍS 81.

Var það ekki alltaf draumurinn að vera þinn eigin herra?

„Jú.“

Hvernig byrjaði það?

„Ég var stýrimaður bæði á Flosanum og svo var ég með Finnboga Jakobssyni. Svo var ég eina vetrarvertíð á Hugrúnu með Jóni Egils.“

Eigin útgerð.

„Hann hét Guðbjartur ÍS. Ég keypti hann frá Ísafirði. Á miðri rækjuvertíð. Fyrsti báturinn sem ég var með sjálfur. Ég var búinn að vera á litla bátnum, Guðbjarti, á sumrin. Þessir litlu bátar voru alltaf teknir upp á haustin.“

Teknir upp.

„Þá var maður á vertíð á hinum bátunum.“

Svo keypti Pétur Óla sem hann átti lengst, rækjubát.

Svavar, tengdasonur Péturs, var lengst með honum á bátnum. Hann varð síðar fyrrverandi tengdasonur hans. „Svo voru margir; Siggi Hjartar, Olli og fleiri.“

 

Fór á hliðina

Sjórinn tekur. Sumir hljóta vota gröf. Talið berst að sjóslysum. Pétur þekkir til þess. Í einhverjum tilfellum hefur hann verið á sjó þá daga sem bátar fóru niður.

Árið 1959 fórst síðutogarinn Júlí frá Hafnarfirði með 30 manna áhöfn í miklu ísingarveðri á Nýfundnalandsmiðum. Frændur Péturs og fósturfaðir þeirra voru um borð og fórst annar frændanna.

Í eitt skiptið fóru vinir hans og félagar niður með bát.

„Bátarnir voru flestir eða allir norður í Jökulfjörðum. Það var sunnanátt. Stóð út úr fjörðunum og gerði svona óskaplegt veður. Djúpið getur verið alveg einn helvítis pottur.

Við vorum nýbúnir að kasta þegar við fórum í skjól.“

Svo hitnaði vélin á heimleiðinni.

Hann lá alveg á lunningunni, báturinn.

„Ég þorði ekki annað en að drepa á henni. Ég fór niður og þá gat ég ekki legið þeim megin sem dælan var, svo ég varð að fara stjórnborðsmegin; hún var bakborðsmegin. Þá var ég öfugur við, en hann lá undan helvítis rokinu svo ég varð að vera stjórnborðsmegin yfir vélinni. Hann lá alveg á lunningunni, báturinn. Þegar ég losaði lokið þá heyrði ég soghljóð. Þá fattaði ég að hún hafði hellst svona niður og tekið loft svo ég skrúfaði fast aftur og setti í gang og þá reddaðist þetta.“

Var Pétur smeykur?

„Nei.“

Svo var það túr á Einari Hálfdánarsyni.

„Við vorum að koma í land og hann fékk svona djöfulsins brot.“

Hurðin var fyrir ofan mig.

Og Einar Hálfdánarson fór á hliðina.

„Hurðin var fyrir ofan mig, ég þurfti að fara upp til að komast að henni.“

Varð Pétur hugsi þegar hann horfði á hurðina fyrir ofan höfuðið á sér?

„Ætli maður hafi hugsað nokkurn skapaðan hlut.“

Hann segir að vélin hafi ekki stoppað. „Þetta var ekki tölvustýrt eins og í dag. Það hristist allt og skalf og vélin var alveg á fullu.“

Hvað lá hann lengi á hliðinni?

„Í smástund. Manni fannst það langur tími.“

Svo náðist að keyra hann upp.

Hvernig keyrir maður upp bát?

„Þú beygir hart í bakborða.“

 

Djöfull flottir yfirmenn

Að verða 83 ára. Og enn á sjó.

„Ég fer á grásleppuna.“

Með syni sínum.

„Þar sem hann getur notað mig. Ég get skorið af teinunum á sumrin til að gera eitthvað. Það er ömurlegt að gera ekki neitt.“

Tæplega 83 ára. Á sjónum síðan hann var 14 ára.

„Ég hef verið svo heppinn um ævina. Ég er búinn að vera á nokkuð mörgum bátum og skipum og ég hef alltaf hitt á djöfull flotta yfirmenn og skipshöfn.“

Bolungarvík. Þar sem hjartað slær.

þá leit þetta út eins og þetta yrði bara sumarbústaðaland.

„Ég var oft spurður hvaðan ég væri.“

Bolungarvík.

„Já, það hafa alltaf komið fínir karlar þaðan. Þegar EG var sett á hausinn; ég segi það bara beint út – þegar það var sett á hausinn þá leit þetta út eins og þetta yrði bara sumarbústaðaland. Svo byrjuðu þessir strákar að kaupa sér smábáta og trillur og þetta gekk ljómandi vel.“

Pétur nefnir að sagt hafi verið að það séu milljón tonn í Breiðafirðinum. „Við vitum að þetta er gullkista, alveg eins og djúpið hérna. Þeir vita hvað þeir eru að segja. Það segja nú margir að ég sé svo gagnrýninn. Ég er það sjálfsagt.“

Það er kjaftur á þér.

„Það þótti alveg svakalegt fiskirí að fá 100 kílóa bala. Núna eru þeir grenjandi ef þeir fá ekki 2-300 kílóa bala.

Ofveiði var ekki til þá.

Ráðherrar og þessir jólasveinar þarna fyrir sunnan – maður verður að vara sig á því hvað maður segir; það má ekki segja einn ákveðinn lit. Þú veist það. Og við gerum það ekki. Vísindin breytast ekkert, eða náttúran. Þetta eru ágiskanir. Ég man þau ár þegar ég var á togara; þá var ekkert sérstakt fiskirí hérna fyrr en á haustin – 1958 eða 1959. Þetta tók upp í tvo til þrjá mánuði. Ofveiði var ekki til þá. Þetta var þegar þeir voru að berjast á þremur, fjórum mílunum við Bretana. Hve mikið heldur þú að búið sé að skerða öll þessi byggðarlög út af þessu?

Og reglugerðir! Og nú er það orðið þannig hjá sjómönnum að þeir þora varla að fara út að míga. Það getur verið tekin mynd af Þeim. Það er bara svoleiðis.“

 

Ástin

„Þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur, en ekki draumaríngl,“ segir Salka Valka í samnefndri bók Halldórs Laxness. Það er líka sagt að lífið sé lotterí.

Brúðhjónin Pétur og Þórdís Ósk.

Pétur Runólfsson á fjögur börn. „Ég segi mörgum að ég eigi níu börn.“ Hann á fjögur börn með fyrri eiginkonu sinni. Svo nefnir hann happdrættisvinning, lottó. Hann vísar þar í stjúpbörnin sem hann eignaðist þegar hann eignaðist síðari eiginkonu sína, Þórdísi Ósk Sigurðardóttur. „Fólkið hennar; það tók á móti mér eins og við hefðum þekkst allt mitt líf. Það er ekki sjálfgefið þegar fólk býr svona saman. Þessir krakkar hennar eru rosalega flott börn.“

Hann segir að þau Þórdís Ósk hafi átt saman yndislegt líf.

Það eru tæp tvö ár síðan hún kvaddi þetta líf.

Hvernig er að standa allt í einu einn?

„Ég á náttúrlega góða að.

Ég gat ekki orðið heppnari en að hitta þessa manneskju.

Ég er ekki að álasa fólki. Við áttum marga vini. Fólkið hérna er indælt. En það er eitt sem gerist og maður var svona sjálfur – það kemur enginn nema börnin mín. Og þau sem eru viðloðandi; altso barnabörnin. Og svo hringja börnin sem eru fyrir sunnan annað slagið og svo get ég líka farið þangað og er alltaf velkominn. Ég gat ekki orðið heppnari en að hitta þessa manneskju.“

Ástin. Það er þessi ást.

Pétur hafði farið til Taílands áður en hann kynntist Þórdísi Ósk Sigurðardóttir. Hann var tæplega fimmtugur. Hann segir frá því þegar frænka hans og önnur kona sáu nýju konuna í lífi hans í bíl hans fyrir utan bensínstöð. Þórdís Ósk var frekar dökk yfirlitum.

„Þær sögðu: „Hver er þessi í bílnum hjá þér?“ „Nú er hún komin þessi taílenska,“ sagði ég. „Nú? Ætlar þú ekki að kynna hana fyrir frænku þinni?“ „Nei, ég tek hana ekki út úr bílnum,“ sagði ég. „Það er svo kalt. Hún gæti dáið.“

Ég sagði: „Farið þið út og heilsið.“ „Við getum ekkert talað við manneskjuna.“

„Það er ekkert mál,“ sagði ég, „þið gerið bara svona.“

Svo fóru báðar út og rifu upp dyrnar og bugtuðu sig. Þórdís Ósk var að lesa og leit upp og sá tvær konur í þessum stellingum; þær voru nú ekki á hnjánum. Hún sagði: „Góðan daginn“.“

Helvítis krabbi. Þetta var allt of stutt.

Þarna hófst hamingjutímabil.

„Ég þarf ekki að kvarta. Það var yndislegt, alveg.“

Veiktist hún svo?

„Helvítis krabbi. Þetta var allt of stutt.“

Pétur hefur haldið að hann færi kannski á undan?

„Já, því bjóst ég alltaf við. Lífið er bara svona. Það á margur erfiðara en ég.“

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -