Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir er mjög svartsýnn vegna fjölgunar á smitum undanfarna daga. Óttast hann álag á heilbrigðiskerfið og segir að nú sé á brattann að sækja þegar sóttvarnaaðgerðir njóta minni stuðnings í samfélaginu, þar með talið innan raða ríkisstjórnarinnar.
Vísir greinir frá þessu. Alls greindust áttatíu og fjórir með kórónaveiruna í gær og 13 eru inniliggjandi. Þá er einn á gjörgæslu. Segist Þórólfur í samtali við Vísi ekki vera kominn með plan fyrir hertar aðgerðir en að hann sé í stöðugu sambandi við sinn ráðherra. Að hans sögn er staðan mjög viðkvæm og því seinna sem brugðist er við, þeim mun erfiðara sé að ná smitunum niður.
Þórólfur virðist nokkuð pirraður þegar hann heldur áfram samtalinu við Vísi. „Ég er búinn að tala um þetta langan tíma og það er alltaf verið að spyrja mig um þetta sama. Ég er alltaf að segja og benda á það sama. Ýmist er það kallað hræðsluáróður eða maður sé ekki með hlutina alveg í réttu ljósi. Ég veit ekki hvað þarf til til að menn sjái þetta.“
Segist hann ekki eiga aðeins við stjórnvöld hvað þetta varðar. „Ég er að tala um fjölmiðla til dæmis, hvernig þeir ræða um þessi mál. Almenning og áhrifamenn og stjórnvöld þar á meðal. Meðan það er ekki samstaða um þetta og menn eru ekki að sjá að það þurfi að halda þessu á þessum nótum þá er mjög erfitt að eiga við þetta. Við erum varla fyrr búin að ná faraldrinum niður og ná góðri stöðu þá vilja menn hætta öllu og þá byrjar þessi leikur upp á nýtt. Staðan er bara þannig og það er bara spurning hvernig tökum viljum við ná á þessu,“ segir Þórólfur.
Aðspurður hvort hann njóti ekki stuðnings stjórnvalda svarar hann því til að ríkisstjórnin virðist ekki einhuga í málinu. „Ég nýt stuðnings míns ráðherra en ríkisstjórnin heyrist mér ekki standa einhuga á bak við þetta. Það er algjörlega ljóst. Og svo stjórnvöld, margir hverjir og umræðan í fjölmiðlum er þannig að menn eru ekki núna á þessari línu greinilega, margir hverjir. Auðvitað eru margir sem sjá þetta í þessu ljósi og þá erum við alltaf að brenna okkur á þessu aftur og aftur.“
Þórólfur segist vera í samskiptum við heilbrigðisráðherra og fleiri um stöðuna en að hann sé ekki farinn að huga að minnisblaði um næstu skref. Staðan sé metin dag frá degi.