Kona slasaðist í gærkvöldi er hún datt af rafskútu. Samkvæmt dagbók lögreglu hlaut hún töluvert mikla áverka og var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Fyrr um kvöldið var lögregla kölluð út þar sem maður á rafskútu hafði ekið á bifreið. Var hann grunaður um að aka skútunni undir áhrifum áfengis og var hann því handtekinn. Nokkuð var um þjófnað í verslunum í gærkvöldi og nótt en var lögregla kölluð út fjórum sinnum vegna slíkra mála.
Hópur háværra ungmenna urðu til vandræða í verslunarmiðstöð í gærkvöldi. Kemur fram í dagbók lögreglu að unglingarnir hafi hótað öryggisverði þegar höfð voru afskipti af þeim. Lögregla mætti þá á vettvang og reyndi að ræða við hópinn og vísa út án vandræða. Einn í hópnum tók ekki vel í fyrirmæli lögreglu og ákvað að ráðast á lögreglumann. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar.