Saga hins umdeilda skurðlæknis Paolo Macchiarini rakin.
Karolinska-stofnunin í Stokkhólmi hefur löngum verið með virtari læknaskólum en hefur um skeið átt undir högg að sækja í harðnandi baráttu og samkeppni í læknavísindum. Eftir aldamótin síðustu varð uppgangur stofnfrumlækninga í heiminum, þar sem ýmsir höfðu tröllatrú á mikilvægi þeirra í læknisfræði framtíðarinnar. Ráðning ítalska brjóstholsskurðlæknisins Paolo Macchiarinis var liður í að efla og styrkja á ný stoðir og ímynd Karolinska-stofnunarinnar en sérsvið hans var barkaskurðlækningar og vísindastörf á sviði stofnfrumulækninga. Maccharini þótti einstaklega fær skurðlæknir og var upprennandi „stjarna“ í heimi læknavísindanna.
Karolinska-stofnunin réði hann þótt slóð hans væri vörðuð ýmsum miður heppilegum atvikum sem sýndu að snilli læknisins og persónuleiki fóru ekki saman. Hann hefur á bakinu kærur og hefur blekkt háskólastofnanir, lækna og vísindasiðanefndir, og blekkingameistarinn hefur einnig blekkt sína nánustu í einkalífinu. Hann skipulagði brúðkaup með blaðakonu sem hann var í tygjum við þar sem hann hugðist bjóða páfanum, forseta Bandaríkjanna og fleiri fyrirmennum á sama tíma og hann var harðgiftur maður. Hún lét blekkjast. Það gerði hins vegar ekki sænski fréttamaðurinn Bosse Lindquist þegar hann hóf að gera heimildarmynd um Macchiarini sem átti að varpa ljósi á þennan stjörnulækni og framlag hans til læknavísindanna. Þegar á leið fóru að renna á fréttamanninn tvær grímur og hann sá í gegnum blekkinguna. Honum fannst nefnilega margt athugavert við störf og framgöngu Macchiarini. Bosse Lindquist hefur verið verðlaunaður fyrir sjónvarpsþætti sína, Experimenten, og ef hans hefði ekki notið við er eins víst að svik og vísindamisferli Macchiarini og plastbarkamálið, sem við við þekkjum, hefði seint eða jafnvel aldrei komist upp.
Tímalína:
Paolo Macchiarini fæddist í Basel í Sviss 1958. Lærði læknisfræði og í kjölfarið skurðlækningar í Pisa og hefur starfað víða, m.a. í London, Barcelona, Flórens, Hannover og á fleiri stöðum.
2008 Vekur heimsathygli fyrir að græða stofnfrumumeðhöndlaðan barka úr látnum einstaklingi í konu, Claudiu Castillo.
2009-2010 Starfaði á Háskólasjúkrahúsinu í Flórens og græddi barka úr látnum einstaklingum, þakta stofnfrumum, í menn. Hann gerði nokkrar slíkar ígræðslur í Flórens en hrökklaðist þaðan og á yfir höfði sér kærur af hendi háskólasjúkrahússins vegna fjársvika.
2010 Ráðinn af Karolinska-stofnuninni sem gestaprófessor til að stunda grunnrannsóknir á sviði vefjamyndunarlæknisfræði og stofnfrumufræða. Samtímis gegnir hann starfi sem skurðlæknir við Karolinska-háskólasjúkrahúsið (lausráðinn).
2011 Þann 9. júní framkvæmir Macchiarini fyrstu gervibarkaígræðsluna í lifandi einstakling, Andemariam Teklesebet Beyene, sjúkling í umsjá íslenskra heilbrigðisyfirvalda. Þessi brautryðjandi aðgerð var réttlætt þar sem hún var tilraun til að bjarga lífi sjúklingsins. Íslenskur skurðlæknir og prófessor, Tómas Guðbjartsson, tók þátt í aðgerðinni. Sama ár í nóvember kom út vísindagrein (proof-of-concept) í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet þar sem þessari fyrstu gervibarkaígræðslu í manneskju er lýst. Læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru meðhöfundar.
2012 Annar sjúklingurinn af þremur sem Machiarini gerði á gervibarkaígræðsluaðgerð á Karolinska-háskólasjúkrasjúkrahúsinu deyr.
Málþing er haldið í Háskóla Íslands 9. júní í tilefni að því að eitt ár er liðið frá fyrstu gervibarkaígræðslunni. Paolo Macchiarini, Tómas Guðbjartsson og Andemariam Beyene töluðu á málþinginu. Málþingið hefur verið gagnrýnt.
2013 Karolinska-háskólasjúkrahúsið stöðvar frekari gervibarkaaðgerðir. Ákveðið er að framlengja ekki ráðningarsamning Paolo Macchiarini. Hann heldur þó áfram að framkvæma slíkar aðgerðir í Rússlandi.
2014 Andemariam Beyene, fyrsti sjúklingurinn sem fékk ígræddan gervibarka á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, deyr í janúar, tæpum þremur árum eftir aðgerðina en honum hafði verið gefin von um að lifa mun lengur.
Í júní sama ár kemur fram gagnrýni á störf Paolo Macchiarinis af belgíska brjóstholsskurðlækninum Pierre Delare fyrir Karolinska-stofnunina. Delare kemst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli. Ýmsar áleitnar spurningar vakna í kjölfarið um störf Macchiarini.
Eftir dauða Beyene komu fjórir læknar, svokallaðir uppljóstrarar (whistleblowers) hjá Karolinska-stofnuninni, fram með efasemdir um gervibarkaígræðslurnar og Macchiarini sjálfan. Í hópnum voru Karl-Henrik Grinnemo, sem hafði aðstoðað Macchiarini við barkaígræðsluaðgerð Beyene árið 2011, og Thomas Fux, sem tók þátt í eftirmeðferð á sjúklingum Macchiarini á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu. Þeir sögðu að Macchiarini hafi farið rangt með árangur sinn af aðgerðunum auk þess að sleppa mikilvægum upplýsingum og oftúlka önnur atriði í vísindagreinunum. Dr. Anders Hamsten, rektor Karolinska-stofnunarinnar, kallaði á utanaðkomandi sérfræðing, dr. Bengt Gerdin, prófessor emerítus við Uppsala-háskóla, til að leiða rannsókn á störfum Macchiarinis.
2015 í maí kemst Bengt Gerdin að þeirri niðurstöðu að Macchiarini sé sekur um vísindalegt misferli í vísindagreinum, m.a. í Lancet-greininni þar sem aðgerð og árangri Andemariam Beyene er lýst.
Ágúst. Hamsten og stjórn Karolinska-stofnunarinnar hafna skýrslu Gerdins og hreinsa Macchiarini af ásökunum um vísindalegt misferli. Segja niðurstöðu sína byggða á ótvíræðum sönnunargögnum sem Gerdin hafði ekki séð og viðbótarupplýsingum. Jafnframt viðurkennir Karolinska-stofnunin að Macchiarini hafi ekki staðist væntingar og kröfur þeirra í vísindum. Samningur við Macchiarini er ekki framlengdur.
2016 í janúar, Experimenten – þættir sænska fréttamannsins Bosse Lindquist eru sýndir í sænska sjónvarpinu (SVT) sem verður til þess að málið er tekið upp aftur. Í febrúar segir Andreas Hamstein af sér sem rektor Karolinska-stofnunarinnar. Yfirstjórn Karolinska segir nokkru síðar af sér vegna málsins og Karolinska-stofnunin er sökuð um að reyna að þagga málið niður og að illa hafi verið staðið að ráðningu Macchiarini, ekki gætt að ferli hans.
Í febrúar, Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknir í Svíþjóð og prófessor emerítus við Umeå-háskóla og formaður Sænska ráðsins um læknisfræðilega siðfræði (Swedish National Council on Medical Ethics), gerir rannsókn að beiðni Karolinska-háskólasjúkrahússins á gervibarkaaðgerðum Macchiarinis þar og sendir frá sér skýrslu undir heitinu Fallet Macchiarini. Í skýrslunni kemur fram að vísindaleg forsenda aðgerðanna var á veikum grunni.
Í mars sama ár er Macchiarini rekinn frá Karolinska-stofnuninni.
Rektor Háskóla Íslands og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, setja á stofn óháða rannsóknarnefnd um þátt stofnananna og og starfsmanna þeirra sem Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, fer fyrir.
2017, þann 30. okt.Hópur sérfræðinga á sviði vísindamisferlis innan sænsku siðanefndarinnar (Centrala etikprövningsnämnden) lauk rannsókn á vísindamisferli ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarinis og sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að Macchiarini og samstarfsmenn hafi gerst sekir um vísindalegt misferli í tengslum við birtingu vísindagreina um plastbarkaaðgerðir sínar. Veigamesta greinin birtist í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet og eru tveir íslenskir læknar meðhöfundar að henni. Rannsóknin var framkvæmd að beiðni Karolinska-stofnunarinnar.
2017, nóvember. Íslenska rannsóknarskýrslan kemur út og haldinn er blaðamannafundur af því tilefni. Í henni er að finna margar ávirðingar. Í kjölfarið er Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir og prófessor, er sendur í leyfi frá Landspítala og Háskóla Íslands en snýr aftur til starfa um áramótin 2017/2018. Óskar Einarsson lungnalæknir er einnig sendur í leyf en snýr aftur til starfa á undan Tómasi.
2018 í júní kemur úrskurður rektors Karolinska-stofnunarinnar um „vísindalegt misferli“ í vísindagreinum byggðum á gervibarkaígræðslum. Tómas Guðbjartsson er einn af sjö meðhöfundum sem sagður er ábyrgur fyrir „vísindalegu misferli“ í Lancet-vísindagrein og fyrir að hafa breytt tilvísun sem lá til grundvallar tilraunaaðgerðinni. Báðir íslensku læknarnir eru m.a. sagðir hafa „vanrækt skyldu“ sína til að gera athugasemdir við rangfærslur greinarinnar. Háskóli Íslands og Landspítali munu fara yfir skýrsluna og önnur gögn sem komið hafa fram í málinu og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur upp málið að nýju.
Mynd: Skjáskot / RÚV