Samkeppniseftirlitið er með til skoðunar viðskipti Árvakurs og þrotabús Torgs með prentvél Fréttablaðsins. Útgefandi Moggans keypti prentvélina til niðurrifs. Kjartan Kjartansson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprenstsmiðju, bauð í vélina og fylgihluti hennar en hlaut ekki náð fyrir augum skiptastjórans, Óskars Sigurðssonar, sem starfar hjá Lex-lögmönnum. Í dag er staðan sú að verið er að rífa vélina sem stendur í húsnæði Regins, umbjóðenda Óskars skiptastjóra. Tilgangur eigenda Moggans með kaupunum var augljóslega sá að tryggja sér einokun á prentun dagblaða á Íslandi. „Þetta eru viðbjóðsleg viðskipti,“ segir heimildarmaður Mannlífs sem vill ekki að nafn sitt birtist af ótta við hefndaraðgerðir Moggamanna.
„Samkeppniseftirlitið er með til skoðunar kaup Landsprents ehf. á prentvél þrotabús Torgs ehf. Það sem skoðunin snýr m.a. að er hvort viðskiptin geti falið í sér tilkynningarskyldan samruna skv. samkeppnislögum,“ segir Magnús Þór Kristjánsson, verkefnastjóri Samkeppniseftirlitsins, í svari til Mannlífs. Hann segir málið ennþá vera á frumstigi og ákvörðun um framhaldið hafi ekki verið tekin.
Í dag er staðan sú að eigendur Morgunblaðsins með Guðbjörgu Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum í aðalhlutverki ráða Póstdreifingu og einu prenstsmiðjunni á landinu sem prentar dagblöð á borð við Morgunblaðið, Bændablaðið og Heimildina. Moggamenn hafa því tögl og hagldir á þessum markaði eftir að eyðilegging prentvélarinnar hefur átt sér stað. Árvakur tapaði 240 milljónum króna í fyrra og fékk ríkisstyrk upp á tæpar 70 milljónir króna. Kaupin á prentvélinni og fjárfesting í einokuninni kostuðu félagið hluta af því sem nemur fjölmiðlastyrknum.