Flugfélagið Primera Air er gjaldþrota og hefur öllum ferðum félagsins frá og með morgundeginum verið aflýst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu flugfélagsins.
„Fyrir hönd Primera Air viljum við þakka ykkur fyrir hollustuna. Við kveðjum ykkur á þessum sorgardegi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.
Farþegum sem áttu bókað flug með félaginu er ráðlagt að fylgjast með fréttum á heimasíðu félagsins næstu daga sem og að hafa samband við söluaðila. Jafnframt er tekið fram að hvorki símtölum né skriflegum fyrirspurnum verður svarað.
Primera Air hefur átt undir högg að sækja undanfarið. Félagið hefur komið illa út úr þjónustukönnunum og á dögnum samþykkti Flugfreyjufélag Íslands vinnustöðvun um borð í vélum félagsins vegna deilna um kjara flugliða.
Á vefnum aviation24.be segir að Airbus A321 flugvél félagsins hafi verið kyrrsett á Stanstead flugvelli í London vegna ógreiddra gjalda.