Ökumaður í austurborginni var staðinn að því að aka á móti einstefnu og gegn rauðu ljósi og stofna þannih til stórhættu. Þegar lögreglan stöðvaði akstur mannsins kom í ljós að farþegar voru of margir og ökumaðurinn það auki drukkinn. Ökumanninum verður refsað í samræmi við brotið.
Tilkynnt um aðila í anddyri hótels í miðborginni sem neitaði að yfirgefa staðinn. Sá þveri neitaði að fara. Hann yfirgaf þó hótelið í rólegheitum með lögreglu.
Farþegi leigubifreiðar neitaði að greiða fargjaldið. Hann lét sig hverfa út í nóttina áður en lögreglu bar að. Skýrsla var rituð á málið og leigubifreiðastjóra leiðbeint með kæruferli.
Brotist var inn á tvo veitingastaði í miðborginni. Þá var innbrot í heimahús Hafnarfirði. Húsráðandi sem var að koma úr fríi erlendis átti ömurlega heimkomu. Brotist hafði verið inn á heimili hans. Málið er í rannsókn.
Þjófur sást vera að stela dósum úr söfnunargámi. Dósaþjófurinn fannst ekki þrátt fyrir leit.
Réttindalaus ökumaður í Kópavogi reyndi sitt að blekkja lögreglu. Hann hafði útbúið fölsk skráningarmerki á bifreið sína með því að skrifa nýtt númer á pappaspjöld og vefja með plasti og festa yfir réttu skráningarnúmerin. Fölsunin var augljós og var lögreglan snögg að fletta ofan af skúrkinum. Þá kom í ljós að ökumaðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og er grunaður um akstur undir áhrifum vímugjafa.
Vitni sá krakka vera að reykja kannabis á leikskólalóð í Hafnarfirði. Börnin fundust ekki þrátt fyrir leit lögreglu.