Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-9 C
Reykjavik

Pyntaður og líkið bútað í sundur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimsbyggðin hefur fylgst agndofa með máli blaðamannsins Jamals Khashoggi sem talið er að hafi verið myrtur á ræðisskrifstofu Sádí-Arabíu í Tyrklandi þar sem hann var að sækja um leyfi til að kvænast unnustu sinni. Tyrknesk stjórnvöld fullyrða að 15 manna teymi hafi flogið frá Riyadh í Sádí-Arabíu til Istanbúl, gagngert til að myrða Khashoggi samkvæmt beinni skipun frá krónprinsinum Mohammed bin Salman. Segjast þau hafa undir höndum sönnunargögn sem sýni að Khashoggi hafi verið pyntaður áður en hann lést og að lík hans hafi verið bútað niður. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu neituðu í fyrstu allri aðild í málinu og fullyrtu að Khashoggi hafi verið sprelllifandi er hann yfirgaf ræðisskrifstofuna, en fjölmiðlar vestanhafs segja að Sádar muni fljótlega viðurkenna að Khashoggi hafi látist í yfirheyrslu sem hafi „farið úrskeiðis“.

Nátengdur hirðinni en féll í ónáð

Jamal Khashoggi var einn þekktasti blaðamaður arabaheimsins. Hann starfaði lengi í heimalandinu, var í nánum tengslum við valdaelítuna þar og starfaði meðal annars sem talsmaður sendiherra Sádí-Arabíu í Bretlandi um skeið. Eftir að krónprinsinn, bin Salman, hóf að sölsa undir sig völd fór hann í útlegð og hélt til í London, Istanbúl og í Bandaríkjunum. Hann skrifaði reglulega pistla í Washington Post þar sem hann gagnrýndi ýmsar af aðgerðum bin Salmans; svo sem efnahagsþvinganir gegn Katar, stríðsreksturinn í Jemen, milliríkjadeilur við Kanada og Líbanon og handtökur á baráttukonum fyrir auknum réttindum kvenna. Khashoggi var greinilega meðvitaður um mögulegar afleiðingar þessa því hann hafði sagt sínum nánustu að hann óttaðist um líf sitt.

Krónprinsinn sífellt óútreiknanlegri

Sérfræðingar eiga erfitt með að átta sig á hinum unga krónprinsi, bin Salman. Heima fyrir hefur hann hrint í framkvæmd umbótum eins og að draga úr völdum trúarlögreglunnar og auka réttindi kvenna. Á sama tíma hefur hann fangelsað embættismenn, viðskiptamenn og aðra meðlimi konungsfjölskyldunnar í viðleitni sinni til tryggja sig í sessi. Mannréttindi eru enn fótum troðin og mannréttindafrömuðir hafa verið handteknir. Á alþjóðavettvangi gerist hann æ herskárri, samanber deilurnar sem vitnað er til að ofan og nú morðið á Khashoggi. Óljóst er hvaða afleiðingar þetta mál hefur en vangaveltur hafa verið uppi um að bin Salman verði jafnvel steypt af stóli eða að hann herði tökin enn frekar og færi Sádí-Arabíu nær því að verða útlagaríki.

Olíuverð gæti rokið upp

- Auglýsing -

Stjórnvöld í Sádí-Arabíu finna fyrir þrýstingi vestrænna ríkja vegna málsins. Fjölmargir styrktaraðilar og fyrirlesarar hafa dregið til baka þátttöku sína í risastórri fjárfestaráðstefnu sem kölluð er „Davos eyðimerkurinnar“og á að halda í Riyadh síðar í mánuðinum. Þeirra á meðal eru forstjórar stærstu fyrirtækja heims. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu brugðust við með harðorðri yfirlýsingu um að öllum efnahagsþvingunum skyldi svarað af fullri hörku. Í yfirlýsingunni var að finna berorða hótun um að Sádar muni beita olíuvopninu ef að þeim verður þrengt, en landið framleiðir 10,5 milljónir tunna af olíu á dag sem samsvarar 10 prósentum af heimseftirspurn. Láti Sádar verða af hótunum gæti olíuverð farið upp fyrir 100 dollara, jafnvel upp að 200 dollurum, sem hefði gríðarleg áhrif á heimshagkerfið.

Bandaríkin í snúinni stöðu

Málið er erfitt fyrir Donald Trump og ríkisstjórn hans. Trump hefur lagt höfuðáherslu á að rækta tengslin við bin Salman og hirð hans og tengdasonurinn, Jared Kuschner, á í nánum samskiptum við ráðamenn í Riyadh. Sádar gegna lykilhlutverki í baráttu Trump-stjórnarinnar gegn Íran og eitt hans fyrsta verk var að undirrita viljayfirlýsingu um 110 milljarða dollara vopnaviðskipti við Sádí-Arabíu. Samband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu nær 73 ár aftur í tímann. Þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir um aðild Sáda að morðinu hefur Trump ekki viljað áfellast bin Salman. Þeir töluðu saman í síma í vikunni og sagðist Trump trúa því einlæglega þegar bin Salman sagðist ekkert hafa með málið að gera. Mike Pompeo hélt til Riyadh og Ankara í vikunni til að ræða við ráðamenn þar. Þingmenn á Bandaríkjaþingi hafa hins vegar sagt að þeir muni grípa til aðgerða geri Trump-stjórnin það ekki.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -