Ráðgátan á bak við ljósmyndirnar á sýningunni Hver er á myndinni? leysist smátt og smátt.
Undanfarið hefur Þjóðminjasafn Íslands óskað eftir viðbrögðum við ljósmyndum eftir Alfreð D. Jónsson á sýningunni Hver er á myndinni?. Alfreð var portrettljósmyndari í Reykjavík og rak ljósmyndastofu frá árinu 1931 til ársins 1952.
Filmusafn Alfreðs var afhent Ljósmyndasafni Íslands til varðveislu fyrir nokkrum árum en ekki er vitað hvaða fólk er á myndum Alfreðs. „Gildi myndar eykst mikið ef vitað er hvern hún sýnir. Þekkir þú eitthvert andlit? Ef svo vill til, er um að gera að koma þeim upplýsingum á framfæri,“ segir í tilkynningu frá safninu.
„Sýningin hefur skilað þónokkuð af svörum,“ segir sýningarstjórinn Kristín Halla Baldvinsdóttir þegar hún er spurð út í viðbrögð við sýningunni. Hún hefur ekki nákvæmar tölur um þau svör sem hafa borist en áætlar að það sé búið að leysa ráðgátuna á bak við um 20% myndanna á sýningunni.
„Sýningin hefur skilað þónokkuð af svörum.“
„Ég myndi giska á að við værum búin að greina hátt í 20% þeirra mynda sem eru á sýningunni, síðast þegar ég taldi fyrir um tveimur vikum vorum við að ná 10%. En það eru um 1240 myndir á sýningunni. Þetta er náttúrulega mjög misjafnt, sumir koma inn og þekkja ekki neinn, aðrir kannski einn og einn og aðrir þekkja marga. Og það er náttúrulega frekar fólk af eldri kynslóðinni sem þekkir fólkið á myndunum,“ segir Kristín.
Kristín bendir áhugasömum á að sýninguna er hægt að skoða á vefsíðunni sarpur.is. „Þar eru allar myndirnar sem eru í Myndasalnum, en einnig aðrar myndir sem ekki komust upp á veggina, samtals um 2300 myndir af óþekktu fólki.“
Mynd / Sýnishorn af ljósmyndum Alfreðs