Símanotkun Íslendinga er eitthvað sem kemst reglulega í umræðuna og virðast margir eiga við það vandamál að stríða að vera of mikið í símanum. Grunnskólar eru farnir að banna síma á kennslutíma og Barnaheill hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með símalausum sunnudögum.
Mikil umræða hefur verið um að börn og unglingar noti snjalltæki of mikið síðustu misseri, en foreldrarnir hafa oft gleymst í þessari umræðu. Rannsóknir hafa sýnt að ef foreldri er mikið í símanum, jafnvel marga klukkutíma í dag, geti það valdið því að það tengist börnum sínum ekki nægilega vel, sé fjarlægt, eigi erfitt með svefn og geti þróað með sér kvíða.
Við ákváðum því að spyrja æðstu foreldra og fyrirmyndir þjóðarinnar, sjálfa ráðherra í ríkisstjórn, um þeirra símanotkun.
———
Forsætisráðherraístuði
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone 6. Held ég.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ætli ég sé ekki í símanum að tala eða svara póstum ef ég er ekki á fundum. Á kvöldin legg ég þó símann til hliðar.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Bíddu ertu ekki að elta mig á Snapchat? Ég er með forsætisráðherraístuði. Djók.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Er SMS-smáforrit? Nei annars, ég hef mikið notað strætó-appið sem mér finnst frábært.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég vil trúa því að ég gæti verið án hans alla ævi en líklega í raun ekki nema í svona 4 mínútur í mesta lagi.“
———
Messenger mest notað
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Hvernig síma áttu?
„iPhone 7.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„1 til 2 tímum.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Hlusta á podcast, Spotify og útvarp.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Messenger.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ótakmarkað.“
———
Minni tími fyrir framan tölvuna
Kolbrún Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Það er misjafnt eftir dagskránni og til dæmis minna um helgar en á virkum dögum. Líklega of miklum þó. En í staðinn eyði ég minni tíma fyrir framan tölvuna.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Samfélagsmiðla, les fréttir, tek myndir og hlusta á Spotify.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Tölvupóstinn, Facebook og Spotify.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Vonandi lengi en ég þyrfti þá að tryggja með öðrum hætti að fólk gæti náð í mig.“
———
Gæti verið án síma í innan við mínútu
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Hvernig síma áttu?
„iPhone.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Allt of miklum.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða fréttir á Netinu.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Smáforrit fyrir tölvupóst og svo netvafrann (Chrome).“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Púff … Dætur mínar segja eflaust að það sé innan við 1 mínútu …“
———
Eyðir þremur klukkustundum í símanum
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Hvernig síma áttu?
„iPhone SE (2016).“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Um þremur klukkustundum.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða Netið, aðallega fréttir.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Facebook og Messenger.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Í mjög skamman tíma!“
———
Vildi óska að hann gæti verið án símans
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Hvernig síma áttu?
„iPhone.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Starf mitt er einfaldlega þess eðlis að það krefst mikilla samskipta og því er ég mikið í símanum. Einhverjir myndu segja of mikið.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Ég nota hann til að skoða fréttir, lesa og taka myndir.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki tölvupósturinn.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Stundum vildi ég óska þess að ég gæti verið án hans og hefði líklega komist upp með það fyrir mörgum árum síðan. Margt hefur breyst og ég efast um að ég gæti verið lengi án hans í dag.“
———
Það er líf án síma
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Hvernig síma áttu?
„Ég er með Apple 6s+.“
Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ég nota símann minn meira með hverju árinu. Að grípa í símann jafnast á við að setjast við skrifborðið þar sem tölvan mín stendur. Mér er ómögulegt að áætla hvað ég eyði miklum tíma í símanum en ég gæti trúað að það væru um tvær til þrjár klukkustundir á dag sem fara í að tala í símann, lesa skilaboð, skrifa tölvupósta og skeyti fyrir utan að fygljast með fréttum, lesa skýrslur og annað efni.“
Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Það eru samfélagsmiðlarnir, Facebook og Messenger, Twitter af og til, Snapchat til að hafa gaman, Spotify til að hafa enn meira gaman. Myndavélin er líka mikið notuð.“
Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki Messenger.“
Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég myndi byrja að anda stutt eftir 4-6 tíma en á öðrum degi myndi renna upp fyrir mér að lífið heldur áfram. Það er líf án síma.“
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra baðst undan því að svara spurningum blaðamanns. Þá svöruðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ekki.
Þú ert of mikið í símanum ef …
… þú ert alltaf í símanum þegar þú ert ein/n.
… þú kíkir á símann rétt áður en þú ferð að sofa og um leið og þú vaknar.
… þú kíkir hvort eitthvað nýtt sé að frétta á samfélagsmiðlum á rauðu ljósi.
… þú færð kvíða í flugvél þegar þú þarft að svissa yfir á flugvélarstillinguna.
… maki þinn og börn segja að þú sért meira í símanum en með þeim.
… þú hefur meiri áhuga á símanum en að tala við vini þína þegar þið hittist.
… öll samskipti þín eru í formi skrifaðra skilaboða í gegnum Netið.
… þú fríkar út þegar þú finnur ekki símann.
… lífið þitt er orðið frekar litlaust.
Nærri fimm klukkutímar í símanum á dag
Fyrirtækið Statista kannaði símanotkun fólks eftir löndum og birti niðurstöður sínar í fyrra. Þar kom í ljós að Brasilíubúar eyða mestum tíma í símanum á dag, eða 4 klukkustundum og 48 mínútum. Það er næstum því heil vinnuvika.
Þá eyða Kínverjar rúmum þremur tímum á dag í símann og Bandaríkjamenn ríflega tveimur og hálfri klukkustund.
Brasilíubúar, 4,48 tímar
Kínverjar, 3,03 tímar
Bandaríkjamenn, 2,37 tímar
Ítalir, 2,34 tímar
Spánverjar, 2,11 tímar
Suður-Kórerubúar, 2,10 tímar
Kanadabúar, 2,10 tímar
Bretar, 2,09 tímar
Þjóðverjar, 1,37 tími
Frakkar, 1,32 tími
Helmingur eyðir tveimur til þremur tímum í símanum á dag
Mannlíf lagði könnun fyrir 118 Íslendinga um þeirra símanotkun. Þar kom fram að rúmlega fimmtíu prósent, eða 61, sagðist vera í tvo til þrjá tíma í símanum á dag. Þá sögðust 28 manns, eða tæplega 24 prósent, eyða fimm til sjö klukkustundum í símanum daglega. Rétt rúmlega 20 prósent sögðust eyða núll til einni klukkustund í símanum á degi hverjum á meðan 3,4 prósent eyddu átta klukkustundum eða meira í símanum.
Flestir nota símann til að skoða samfélagsmiðla, eða rétt rúmlega 94 prósent. Þá sögðust rétt rúmlega 92 prósent nota símann til að svara símtölum og smáskilaboðum. Þegar spurt var hvaða smáforrit í símanum væru mest notuð voru það Facebook, Instagram og Snapchat sem höfðu vinninginn.