Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ráðuneytið skoðar mál Erlu Bolladóttur: Gefnar sannleikssprautur og tilraunir gerðar til dáleiðslu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið skoði mál Erlu Bolladóttur. Eins og kunnugt er var Erla dæmd fyrir meinsæri í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Vísir greinir frá.

Erla er sú eina af hinum dómfelldu í málinu sem ekki fékk mál sitt endurupptekið síðastliðið haust. Hún var sakfelld fyrir rangar sakargiftir ásamt Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Marínó Ciesielski. Dómurinn stendur enn þótt sýknað hafi verið af aðild að hvarfi Geirfinns. „óháð því hvernig orð mín voru fengin fram á sínum tíma. Að lifa með þessum dómi hefur reynst þungbært og að sökin skuli standa enn í dag er áfall út af fyrir sig” sagði Erla í viðtali við Mannlíf.

Sjá einnig: Það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag

Erla sat í gæsluvarðhaldi í 239 daga vegna málsins. Í yfirheyrslum var henni gefið svokallaðar sannleikssprautur og gerðar tilraunir til að dáleiða hana. Það átti að hjálpa henni að rifja upp atburði í málinu. Hún játaði á sig ýmis afbrot meðan á gæsluvarðhaldinu stóð. Meðal annars að hafa skotið Geirfinn með riffli.

Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur segir gæsluvarðhaldsvistin og langar yfirheyrslur hafi farið illa með Erlu. Þá telur hann að ekki sé hægt að taka mark á framburði sem var fenginn með þessum hætti. Fjallað er um matið í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra.

„Forsenda fyrir meinsæri augjóslega brostin“

Erla var í ítarlegu viðtali við Mannlíf í byrjun maímánaðar. Þá lýsti hún yfir ósætti í garð stjórnvalda og þeirra framkomu. „Það sem mér finnst erfitt núna er að það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag, á meðan enginn lætur í sér heyra. Að auki liggur þarna inni krafa frá mér um skaðabætur vegna einangrunar minnar 1976 því hún var klárlega ólögleg, hvað sem öllu öðru líður. En það hefur enginn talað við mig. Það er bara eins og ég sé ekki til en það erindi fór samt formlega í janúar frá lögmanni mínum til „sáttanefndar“. Ég hef ekki verið virt viðlits.“

- Auglýsing -

Eftir dómsúrskurðinn síðastliðið haust ákvað Erla að biðja um viðtal við Katrínu Jakobsdóttur til þess að ræða sitt mál. „Erindi mitt við Katrínu var meðal annars að reifa þann möguleika að ef ég kærði niðurstöðu endurupptökunefndar samþykkti hún að ríkislögmaður semdi við mig utan dóms með því að samþykkja ógildinguna; ég er jú með mjög sterkt mál í höndunum. Þetta kæmi í veg fyrir heilt ár í dómssölum með öllu því álagi og öllum þeim kostnaði sem því fylgir.

Ég hef fundið mig milli steins og sleggju í ákvarðanatöku um næsta skref en góðu heilli lærði ég síðastliðinn mánudag að mér er fært að krefjast aftur endurupptöku í ljósi nýrra gagna, þ.e. að dómur um meinsæri standist ekki þar sem allir þeir sem dæmdir voru fyrir morð á Geirfinni eru sýknaðir. Um leið er forsenda fyrir meinsæri augljóslega brostin.“

Troðið í Erlu risavöxnum lyfjaskammti fjórum sinnum á dag

- Auglýsing -

Erla lýsir ómannúðlegri framkomu yfirvalda í viðtali sínu við Mannlíf. „Þeir virðast hafa haft eitthvert annað markmið en það að upplýsa hvarf Geirfinns og svo virðist sem, leynt og ljóst frá árinu 1972, að það hafi verið að koma höggi á Sigurbjörn Eiríksson sem átti Klúbbinn í Reykjavík en Hallvarður Einvarðsson hafði þá horn í síðu þeirra Klúbbsmanna” var haft eftir Erlu sem útskýrði að Hallvarður hafi verið vararíkissaksóknari á þessum tíma ogg kom mikið að rannsókninni sjálfri.

„Hann var viðstaddur yfirheyrslur en ég hitti hann í fyrsta sinn þegar ég var fengin til þess að játa að ég hefði myrt Geirfinn. Þeir vissu fullvel að ég gerði það ekki en þeir töldu sig þurfa játninguna frá mér til að að geta sett mig í gæsluvarðhald. Í kjölfarið hófu þeir að troða í mig risavöxnum lyfjaskammti fjórum sinnum á dag og hnoða saman einhvers konar atburðarás sem hentaði þeirra markmiði frá fyrsta degi.“

„Þessu máli er ekki lokið fyrr en ég, Sævar og Kristján höfum verið sýknuð af röngum sakargiftum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -