Sprenging hefur orðið í sölu rafbíla. Í janúar voru nýskráðir fólksbílar sem að öllu leyti eða hluta til voru knúnir rafmagni í fyrsta sinn fleiri en hefðbundnir bensín- og dísilbílar samanlagt. Forstjóri Brimborgar á von á enn meiri sölu rafbíla á þessu ári. Fjölmargir valkostir eru að koma á markað.
Í janúar urðu þau tímamót í nýskráningum fólksbíla á Íslandi, að bílar knúnir rafmagni voru í fyrsta skipti fleiri en bílar sem aðeins eru knúnir bensíni og dísilolíu. Fyrir fimm árum, í janúar, var hlutfall hefðbundina bensín- og dísilbíla samanlagt 94%. Útlit er fyrir að sprenging verði í sölu rafbíla á þessu ári, samhliða stórauknu framboði.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, bendir á að þegar hybrid-bílarnir séu undanskildir og bara horft til sölu á þeim rafbílum sem hægt er að hlaða (rafbílar og tengiltvinnbílar) hafi hlutfall seldra fólksbíla í janúar verið 37,4%. Það hlutfall hafi aldrei verið hærra. Hann á von á enn meiri breytingum eftir því sem líður á árið. „Ég yrði ekki hissa ef í lok árs væri hlutfallið í kringum 50%“.
Sala á rafbílum hefur tekið kipp á síðustu mánuðum, þó bílasala hafi almennt dregist saman. Í janúar voru 133 bensínbílar nýskráðir. Dísilbílarnir voru líka 133 en hreinir rafbílar voru 131. Hreinir rafbílar voru 18% nýskráðra bíla í nýliðnum mánuði. Hlutfallið í janúar í fyrra var 11% en í hittiðfyrra aðeins 2%. Aukningin er því afar hröð. Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, bendir í samtali við Mannlíf á að hlutföll í janúar gefi ekki alveg rétta heildarmynd fyrir árið. Bílaleigur, sem flytja inn mikinn fjölda nýrra bíla ár hvert, flytji ekki inn bíla í janúar – heldur á vorin.
Stóraukið framboð
Nú í upphafi árs hafa kaupendur nýrra bíla geta valið úr 23 tegundum hreinna rafbíla frá 15 framleiðendum. Undirgerðirnar eru 64. Þessir bílar kosta á bilinu 3-13,4 milljónir króna. Egill segir að það hafi verið vitað lengi að árið 2020 yrði árið sem sala rafbíla færi á flug. Hann bendir á að Brimborg hafi getað boðið fimm gerðir rafbíla árið 2019. Í lok þessa árs verður hægt að velja á milli 19 tegunda rafdrifinna bíla. Það sem hafi til þessa staðið aukinni sölu rafbíla fyrir þrifum hafi verið hátt innkaupsverð, sem hafi nú verið mildað með ívilnunum og auknu drægi bílanna, lítið úrval af rafbílum og fá eintök í boði frá framleiðendum. Þá hafi skort innviði um allt land, en þar má nefna hleðslustöðvar.
Þess má geta að í nóvember úthlutaði Orkusjóður styrkjum til uppsetningar 43 nýrra hraðhleðslustöðva um land allt. Þegar þær hafa verið settar upp eru stöðvarnar 146 talsins, en á sumum þeirra er hægt að hlaða fleiri en einn bíl í senn. Þessar nýju eru 150 kílóvött en eldri stöðvar eru flestar 50 eða 22 kílóvött. Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda má sjá gagnvirkt kort af stöðvunum og hvaða tegundir stöðva eru á hverjum stað.
Hertari reglur um losun
Spurður hvað sé að breytast núna, í ljósi stóraukinnar sölu rafbíla, svarar Egill því til að ESB hafi um áramótin innleitt reglur sem kveða á um að meðallosun seldra bíla innan EES, frá hverjum bílaframleiðanda, megi ekki vera meiri en 95 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra – að viðlögðum „gríðarlegum sektum.“ Þetta hafi í för með sér að hefðbundnir bílar þurfi öflugri mengunarvarnir og tækni til að minnka losun. Nú sé kominn fjárhagslegur hvati til að þróa og framleiða rafbíla, hreina og tengitvinnbíla. Þó þeir séu dýrir í framleiðslu sé það betri kostur fyrir framleiðendur en að fá sektir. „Við þetta verður sprenging í úrvali bíla sem koma á þessu ári og komandi árum,“ segir Egill.
Toyota hefur selt flesta bíla árlega á Íslandi í áratugi. Páll bendir á að Toyota sem framleiðandi sé vel í stakk búinn til að mæta þeim kröfum sem gerðar séu. Koltvísýringslosun bíla frá Toyota sé lægri en frá öðrum framleiðendum. Árið 2018 losuðu bílar frá Toyota að jafnaði 99,9 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, samkvæmt úttekt Jato Dynamics. Peugeot og Citroen komu þar á eftir með tæp 108 grömm. Til samanburðar má nefna að Mazda losaði 135,2 grömm að meðaltali en Mercedes-Benz tæp 140. Framleiðendur eiga því, miðað við 2018, mislangt í land að standa undir þeim viðmiðum sem EES hefur sett.
Hann bendir líka á að innviðir fyrir rafbíla séu að styrkjast, með aðkomu stjórnvalda. Þá sé innkaupsverð að lækka og dragi bílanna að batna. „Þannig að kaupendahópurinn er að stækka.“ Aðspurður segir hann að nú séu í boði miklu fleiri bílar sem henti þörfum íslenskra kaupenda. „Kaupendurnir voru alltaf til staðar. Það vantaði hins vegar bíla sem uppfylltu þarfirnar.“ Nú sé það að breytast hratt.
Rafhlöðurnar mældar við vetraraðstæður
Þær 64 undirgerðir af rafbílum, sem eru í boði á Íslandi í upphafi árs, draga að meðaltali 359 kílómetra, samkvæmt því sem framleiðendur þeirra gefa upp. Tesla Model S kemst lengst, eða 610 kílómetra.
Í umræðu um rafbíla hefur drægi verið áberandi, eins og Egill kemur inn á. Ný könnun sem norskir bílablaðamenn framkvæmdu við vetraraðstæður í janúar leiddi í ljós að umrædd Tesla Model S komst 470 kílómetra á hleðslunni, eða 77% af uppgefnu drægi. Almennt reyndust rafbílarnir komast á bilinu 71% (Jaguar I-Pace) til 90% (Volkswagen e-Up! og Hyundai Kona) af uppgefnu drægi við hitastig á bilinu +3 til -6 gráður.
Einn vinsælasti rafbíll síðustu ára, Nissan Leaf, er af framleiðanda í dag gefinn upp fyrir að komast 270 eða 385 kílómetra, eftir því hvort 40 eða 62 kílóvatta rafhlaða er valin. Í norska vetrarprófinu reyndist 40 kílóvatta bíllinn komast 209 kílómetra en sá með stærri rafhlöðinni 299 kílómetra á einni hleðslu.
Nægt framboð af hreinni orku
„Árið byrjar mjög vel þegar kemur að sölu þessara ökutækja, og Mitsubishi Outlander er áfram mest seldi tengiltvinnbíllinn,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Hann bendir á að Hekla sé með 38% markaðshlutdeild í flokki vistvænna bíla. Hekla selur einnig Audi e-tron, sem var mest seldi rafbíllinn í janúar.
Friðbert segir að fram undan sé spennandi ár þegar kemur að rafmagnsbílum. Kaupendur séu mjög áhugasamir og margir góðir valkostir í boði. Hann segir að skyndileg aukin sala rafmagnsdrifinna bíla megi að nokkru leyti skýra með stórauknu framboði á bílum. Hann tekur líka fram að ívilnanir stjórnvalda í þágu rafmagnsbíla, rekstrarhagkvæmni bílanna sjálfra og umhverfislegur ávinningur þess að nota hreina innlenda orku til að knýja bílinn, séu allt ástæður sem vinna í þá átt að ýta undir sölu rafbíla.
„Ísland er sérstaklega vel fallið til að rafvæða samgöngur þar sem daglegur meðalakstur á höfuðborgarsvæðinu er innan við 40 kílómetrar og nægt framboð er af innlendri endurnýtanlegri orku,“ segir hann.
Rafbíll eða ekki rafbíll?
Ýmis hugtök hafa verið notuð til að segja til um hvernig bílar nota rafmagn sem orkugjafa. Stundum er talað um nýorkubíla en oftar um rafbíla, tegiltvinnbíla eða tvinnbíla. Þá eru einnig í umferð skammstafanir á erlendum heitum. Hér má sjá skilgreiningar auk skýringamyndar sem útskýrir muninn.
BEV – Rafmagnsbíll (e. Battery Electric Vehicle)
PHEV – Tengiltvinnbíll (e. Plug-in Hybrid Electrice Vehicle)
HEV – Tvinnbíll (e. Hybrid Electric Vehicle)