Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Ragna á Laugabóli jarðsungin: Ljósið í Djúpinu er slokknað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún Ragna Aðalsteinsdóttir á Laugabóli er öll eftir langa, ævi og á stundum erfiða. Hún varð 97 ára og eflaust komin með nóg af veraldlegu vafstri. Síðast hitti ég hana á dvalarheimilinu Eyri á Ísafirði í sumar sem leið. Hún var skýr, þrátt fyrir háan aldur. Eins og venjulega var hún að bíða eftir að komast heim í sveitina sína. Þangað leitaði hugurinn alltaf, heim í dalinn þar sem hún hafði lifað sínar bestur stundir en jafnframt gengið í gegnum það svartnætti sem fylgir því að missa börn, barnabörn og aðra ástvini.

Ragna var vinur vina sinna en gríðarlega föst fyrir þegar henni þótti embættismenn eða ráðamenn brjóta gegn almennum borgurum. Þá var Rögnu að mæta.

Við kynntumst fyrst í gegnum skólasystur mína, dóttur hennar, Bellu Vestfjörð. Þá náðum við ekkert sérstaklega vel saman. Kynslóðabilið þvældist fyrir. En síðan þróuðust mál þannig að ég fór að koma reglulega við hjá henni á Laugabóli og við urðum perluvinir. Það skorti aldrei umræðuefnið í eldhúsinu á Laugabóli. Ragna var fróð og víðlesin með einbeittar skoðanir á heimsmálunum jafnt og því sem gerðist á Íslandi.

Á Laugabóli var gjarnan margt í heimili eftir að börnin hennar voru farin að heiman. Þar átti óreglufólk skjól frá hörðum heimi vímuefnanna, svo lengi sem þau féllust á að vera allsgáð og leggja Rögnu lið við búskapinn. Fjölmargir einstaklingar leituðu í ljósið í Djúpinu til að ná áttum og byggja sig upp aftur. Ragna rak í raun meðferðarstofnun en án allra styrkja. Mannúðarstörf hennar voru unnin af hjartagæsku og örlæti. Hún átti nóg og gaf með sér.

Sorgin var sjaldnast langt undan á Laugabóli. Ragna eignaðist þrjú börn, Garðar Smára, Gunnar Bjarka og Aðalheiði Bellu sem öll báru ættarnafnið Vestfjörð. Hún kom börnum sínum öllum til manns. En svo dundi áfallið yfir. Bjarki starfaði sem lögregluþjónn í Bolungarvík. Hann var að sinna starfi sínu 8. mars 1989 á Óshlíð þegar snjóflóð hreif hann með sér á haf út. Lík hans fannst aldrei. Yngsti sonur Rögnu varð aðeins 25 ára þegar líf hans var á enda. Harmur Rögnu var gríðarlegur en þetta varð aðeins upphafið að raunasögu hennar.

Sex árum eftir fráfall Bjarka féll snjóflóðið ægilega á Súðavík með skelfilegum afleiðingum. Á meðal þeirra sem fórust var Bella, dóttir Rögnu, og Petrea dóttir hennar. Bella náði ekki að verða fertug og litla stúlkan var aðeins 13 ára. Svartnættið sem fylgdi því að missa annað barn sitt og barnabarn var ægilegt. Bóndinn á Laugabóli þurfti á öllu sínu að halda til að missa ekki alveg lífsviljann í þeim ömurlega veruleika. Það liðu aðeins fimm ár þar til komið var að næsta áfalli í lífi Rögnu og hennar fólks. Ragnar, sonur Bjarka, fórst í bílslysi í Súðavík árið 2001, aðeins 18 ára.

- Auglýsing -

Ragna stóð upprétt þrátt fyrir áföll sem eru af þeirri stærðargráðu að enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum slíkt. Þeir tímar komu að hún var við það að gefast upp og hún leitaði sér hjálpar á geðdeild. Hún var öldungis ófeimin að ræða þau mál og sagði gestum og gangandi að hún væri að koma af geðdeild. Flestir brugðust við með þögninni og einhver vildi sussa á hana. Ragna var þá skjót til svars og spurði hvort hún mætti frekar tala um kvef eða fótbrot. Hennar skilningur var sá að geðsjúkdómar væru hvorki merkilegri né ómerkilegri en aðrir sjúkdómar og opinská umræða væri til góðs. Þannig vann hún gegn sorginni og sótti sér hjálp þegar neyðin varð stór.

Ragna var bóndi fram í fingurgóma. Hún rak bú sitt með sóma og skilaði börnum sínum inn í fullorðinsárin. Þau fengu öll gott veganesti frá móður sinni. Ragna á Laugabóli naut virðingar fyrir dugnað sinn og þá snyrtimennsku sem einkenndi búið hennar. Stífbónaðar dráttarvélar á hlaðinu og öllu snyrtilega við komið á Laugabóli. Við bæ hennar var svo skrúðgarður sem hún kenndi við Bjarka heitinn, son sinn.

Eftir snjóflóðin í Súðavík var Ragna gagnrýnin á frammistöðu yfirvalda sem sváfu af sér þá ógn sem vofði yfir plássinu þegar snjóþyngsli voru og hengjurnar í fjallinu biðu þess að brjótast af stað af heljarafli. Ragna taldi að mörgum mannslífum, þeirra á meðal Bellu og Petreu, hefði verið fórnað með kæruleysi. Á þeim tíma tók ég viðtal við Rögnu fyrir DV. Sú hugmynd kom upp á þeim tíma að ég myndi skrifa um hana bók. Hugmyndin varð að veruleika árið 2006 þegar örlagasaga Rögnu, Ljósið í Djúpinu, kom út. Bókin fékk gríðarlega góðar móttökur og fór í metsölu. Ragna sagði þar sögu sína af einlægni og dró fátt undan. Samstarfið við hana var í senn ljúft og gefandi. Ég ók reglulega norður í Djúp til að taka niður sögur frá mögnuðu lífshlaupi konu sem lifði svo sannarlega sorg og gleði á þeim 75 árum lífshlaup hennar spannaði.

- Auglýsing -

Eftir að bókin kom út héldum við vinskap. Ég hringdi reglulega í Rögnu og kom við hjá henni ásamt fjölskyldunni þegar færi gafst. Það voru ævinlega fagnaðarfundir og gleðistundir.

Eftir því sem árin færðust yfir minnkaði þrek Rögnu á Laugabóli. Þannig er auðvitað lífsins saga. Hún fékk inni á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði fyrir nokkrum árum. Þar naut hún góðs atlætis en henni leiddist samt. Það átti illa við hana að sitja aðgerðarlaus. Ég heimsótti hana gjarnan. Hún var ævinlega tilbúin að fara heim í dalinn sinn og spurði gjarnan hvort ég væri á leiðinni inneftir eða vissi af ferð. Framan af sat hún stundum fullklædd í stólnum sínum með handtösku sér við hlið, tilbúin að fara heim. Hún þráði það öðru fremur að komast í dalinn sinn. En þótt andinn væri reiðubúinn var líkaminn ekki lengur eins og áður var. Þrekið var farið. Hún var ekki lengur fær um að vera ein á Laugabóli.

Seinasta heimsóknin mín til Rögnu var í sumar. Hún var að vanda ánægð með endurfundina en ég fann að það var af henni dregið. Hún var ekki lengur í kápunni sinni með töskuna sér við hlið að spyrja eftir fari. En hún bar það með sér að hún var á förum. Lífsviljinn sem hún hafði viðhaldið alla tíð var greinilega þverrandi. Í seinasta viðtalinu sem ég tók við hana sagðist hún vilja verða hundrað ára. En hún náði því ekki. Það vantaði rúm tvö ár uppá og þetta var orðið gott.

Í þessum mánuði ætlaði ég að heimsækja hana. Þá var ég of seinn. Mér var sagt að dauðastríð hennar væri hafið. Við hlið hennar þegar hún kvaddi var eina eftirlifandi barn hennar, Garðar Smári. Hinum megin hefur hún vonandi hitt fyrir börnin og barnabörnin sem hurfu alltof snemma úr þessari jarðvist.

Því fylgir ákveðinn tómleiki að ná ekki lengur að hitta sómakonuna Rögnu og spjalla við hana um réttlæti jafnt og ranglæti. Laugadalurinn er ekki samur eftir brotthvarf hennar. Skarð hennar verður vandfyllt. En minning hennar lifir. Ragna var ein af hetjum Íslands sem gaf ótal mörgum miklu meira en hægt var að ætlast til og hjálpaði þeim föllnu að rísa á fætur, án þess að krefjast neins í staðinn. Ég þakka dýrmæta samfylgd og orna mér við minningar frá vinskap sem alla tíð stóð óhaggaður.

Útför Rögnu fer fram frá Ísafjarðarkirkju kl. 11 í dag, föstudag. Streymt er frá athöfninni á Facebook-síðu Viðburðastofu Vestfjarða.

Þessa grein má einnig finna minningar.is á slóðinni https://minningar.is/account/obituaries/7KgUuBQ8OEod2ZztTnoI/form

Reynir Traustason.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -