Skáldsagan Dimma eftir Ragnar Jónasson situr nú í öðru sæti á metsölulista þýska miðilsins Der Spiegel.
Enginn íslenskur rithöfundur hefur náð þeim árangri síðustu fimmtán árin, síðasta íslenska bókin sem náði viðlíka sölu í Þýskalandi var Napóleonsskjölin eftir Arnald Indriðason árið 2005.
Ragnar segir í samtali við mbl.is að hann eigi bágt með að trúa þessu: „Ég eiginlega trúi þessu ekki. Maður horfir á þetta og skilur þetta eiginlega ekki,“ segir Ragnar á mbl.is. „Ég hefði bara aldrei trúað því að ég kæmist á þennan metsölulista yfirhöfuð. Hvað þá í annað sæti.“
Dimma er fyrsta bókin af þremur í bókaflokknum um lögreglukonuna Huldu Hermannsdóttur og fyrirhugað er að bók númer tvö, Drungi, komi út í júlí í Þýskalandi og sú þriðja, Mistur, komi út í september.