Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans, segir að fjórða Covid-bylgja faraldursins muni koma og jafnvel megi búast við fleirum. Hann biður landsmenn um að láta sér ekki bregða.
Þetta kom fram í máli Ragnars í Morgunútvarpi RÚV í morgun. „Við vissum að önnur og þriðja bylgjan myndi koma og við skulum ekkert láta okkur bregða þó fjórða bylgjan komi,“ sagði Ragnar sem bendir á að ekkert fararsnið virðist á kórónaveirunni. Því þurfi þjóðin að búa við hana að minnsta kosti fram á næsta vor.
„Við vitum miklu meira en við gerðum í upphafi fyrstu, annarar og þriðju bylgju. Við áttum okkur núna á því miklu meira hvar veiran smitar; hún smitar mest þegar fólk er að hittast í heimahúsum innan fjölskyldna og á öldurhúsum þar sem áfengi er um hönd.“