Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir forsíðufrétt Fréttablaðsins einfaldlega kolranga en þar er Ragnar þjófkenndur í fremur ómerkilegu máli. Fréttablaðið fullyrti að Ragnar hafi staðið að ólöglegri netalögn,veiðiþjófnað, við Holtsá. Lögregla segir að ef téð mál fer lengra þá yrði það líklega sekt og ekki réttað í málinu.
Ragnar segir í samtali við Kjarnann að hann geti auðveldlega sannað að hann hafi ekkert með þetta að gera. „Ég held að flestir sjái nú í gegnum þetta en þetta er sá veruleiki sem við búum við. Það verður allt gert til að bola mér út úr þessu embætti. Ég held að þetta sé bara byrjunin.“
Ragnar viðurkennir fúslega að hafa verið í veiði þarna en þar með ber hann ekki ábyrgð á netinum. „Fréttablaðið hefði getað fengið það staðfest hverjir lögðu netin ef þeir hefðu hringt í landeigandann. Deilurnar virðast snúast um hvað má og hvað má ekki á svæðinu og þá er það væntanlega landeigandans að svara fyrir það, sem ber ábyrgð á þessu neti. Hann er sá eini sem getur svarað fyrir það. Ég lagði ekki þessi net og þar af leiðandi get ég ekki verið málsaðili.“
Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalisti, hæðist að þessu á Facebook og segir að spunameistarinn að baki þessu sé vanhæfur. „Hversu vitlaus getur ein kosningabarátta verið? Heimildir mínar segja að Börkur Gunnarsson, margreyndur kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins, stýri kosningabaráttu Helgu Guðrúnar Jónasdóttir í formannskosningunni í VR,“ skrifar Gunnar Smári.
„Börkur var meðal annars kosningastjóri xD í borgarstjórnarkosningunum 2010 þegar fylgi flokksins féll úr 42,9% 2006 niður í 33,6%. Nú veit ég ekki hvort honum datt þessi vitleysa í hug, að reyna að blása upp einskonar kollumál í kringum Ragnar Þór, en Börkur ætti að þekkja þau mál, þegar Sjálfstæðisflokksmenn reyndu að grafa undan Hermanni Jónassyni á kreppuárunum.“