Föstudagur 18. október, 2024
6.8 C
Reykjavik

Ragnar Þór krefur Jóhannes um svör: „Hverjir fengu greiddar tæpar 685 milljónir í þóknanir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, og Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf., hafa átt í hörðum skoðanaskiptum á samfélagsmiðlum vegna framkvæmda á Landssímareitnum.

Deilur þeirra hófust með skrifum Ragnars Þórs í gær um meint „brask og brall“ stjórnenda Icelanda­ir og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og aðkomu þeirra að upp­bygg­ingu á Landsímareitn­um Ragnar Þór sagði þar að 700 milljónum króna hefði verið skotið undan.

Jóhannes svarar Ragnari Þóri og segir fullyrðingar hans vera úr lausu lofti gripnar. Sagðist hann ekki hafa áður séð ástæðu til að svara Ragnari Þóri og málflutningi hans vegna þess hve „fjarstæðukenndur hann er.“

Sjá einnig: Vísar fullyrðingum Ragnars Þórs á bug

Boltinn er því aftur kominn til Ragnars Þórs, sem þykir lítið til svara Jóhannesar koma og svarar honum með langri færslu.

„Það er barnslega einfalt að benda á með opinberum gögnum að verkefnið, sem var kynnt fyrir fjárfestum árið 2016, átti að kosta rúma 6 milljarða og verklok yrðu 2018 hafi ekki staðist nokkra einustu skoðun né síbreytilegar áætlanir um kostnað og verklok,“ segir Ragnar Þór, sem er sammála því að ófyrirsjáanlegar tafir hafi orðið, en „við blasir að stjórnendur félagsins hafa lagt sig mikið fram við að fela hina raunverulegu stöðu gagnvart fjárfestum og almenningi.“

- Auglýsing -

Segir hann ljóst að lánin séu komin í 12 milljarða, þrátt fyrir að Jóhannes fullyrði að framkvæmdir séu innan áætlana.

Tengsl stjórnarmanns Lindarvatns við Icelandair, SA og SUS

„Þegar ég skrifaði um „Lindarvatnssnúninginn“ á sínum tíma var það gert til að vekja athygli á tengslum aðila við Icelandair, Samtök atvinnulífsins og Samband ungra sjálfstæðismanna. Og hvernig 685 milljónum af fjármunum almenningshlutafélags var komið undan í tvö eignarhaldsfélög, MB2015 og Fellasmára ehf. sem tengjast að hluta stjórnarformanni Lindarvatns,“ segir Ragnar Þór, sem segir Jóhannes alls ekki svara kjarna málsins.

- Auglýsing -

Segir félagið tæknilega gjaldþrota

Ragnar Þór rekur framkvæmdina á Landssímareitnum, og fyrri skrif sín um hann árið 2019.

„Nú þegar skuldirnar eru komnar í 12 milljarða, og verklok ekki í sjónmáli, er ljóst að félagið skuldar meira en fullkláraðar eignir munu standa undir. Og þannig skilmálar brostnir á skuldabréfunum sem gefin voru út 2016. Einnig hlýtur að liggja fyrir að leigusamningurinn um hótelið komi ekki til með að standa undir framkvæmdakostnaði. Á manna máli þýðir þetta að félagið er tæknilega gjaldþrota,“ segir Ragnar Þór og bætir við: „Þó löngu ljóst væri að áætlanir um framkvæmdatíma og kostnað gætu aldrei staðist var samt haldið áfram til að allt liti út fyrir að vera slétt og fellt.“

Segir hann Lindarvatn hafa tekið lán hjá Íslandsbanka, sem fært var á 1. veðrétt, auk þess sem tryggingabréfi hafi verið þinglýst, sem „væntanlega á lánið að tryggja framkvæmdafé til loka. Verður ekki annað séð en að þeir fjármunir almennings, aðrir en þeir sem fóru í vasa vildarvina, séu endanlega tapaðir,“ segir Ragnar Þór og segir Jóhannes gefa þannig allt annað í skyn en opinber gögn og staðreyndir bera með sér.

Bætir Ragnar Þór við að væntanlega verði COVID-19 sökudólgurinn, „þegar illa fer þó hægt sé að álykta að litlar líkur eru á að dæmið hefði gengið upp hvort sem er.“

Ragnar Þór líkir samn­inga­gerðinni og fyr­ir­komu­lag­inu við Upp­haf fast­eigna­fé­lag sem var í eigu Kviku og var metið á millj­arða þangað til mis­ferli við rekst­ur þess kom í ljós.

Segir hann Jóhannes enn eiga eftir að útskýra „fyrir stjórn Icelandair og öðrum fjárfestum hverjir fengu greiddar tæpar 685 milljónir í þóknanir og hvers vegna í gegnum félögin MB2015 og Fellasmára ehf?,“ og „einnig að skýra út hvert sé nú virði hluta Icelandair í Lindarvatni ehf?.“

Lofar uppskrift að 850 milljóna gróða

Ljóst er af niðurlagi skrifa Ragnars Þórs að hann er hvergi hættur að tjá sig um mál lífeyrissjóðanna og tengsl þeirra við atvinnulífið, en hann segist fljótlega munu senda „frá mér uppskriftina af því hvernig sjallarnir græða 850 milljónir, og grilla á kvöldin, með því að selja almenningshlutafélagi, í eigu lífeyrissjóðanna, 3 ára fyrirtæki, sem framleiðir ekki neitt, á 30 faldri ebitda en þar koma við sögu m.a. Magnús Júlíusson fyrrum formaður sambands ungra sjálfstæðismanna og fleiri góðir gestir,“ segir Ragnar Þór og biður „fjármálaeftirlitið, stjórn Festi og stærstu eigendur sem eru íslenskir lífeyrissjóðir að leggja við hlustir „lesa vel“ næstu daga.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -